11.11.1982
Sameinað þing: 16. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í B-deild Alþingistíðinda. (355)

27. mál, nefnd til að spyrja dómsmálaráðherra spurningar

Flm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir að hafa svarað spurningunni, sem til hans var borin, efnislega og hafa þar með greitt úr þessum tæknilega hnút, ef svo má að orði komast. Svar hans er auðvitað um leið fullgilt svar við því sem hv. 3. þm. Suðurl. sagði áðan, og við þurfum ekkert að hafa fleiri orð um það. Spurningunni er svarað og við skulum svo dæma sjálfir.

En efnislega harma ég mjög það sem hæstv. dómsmrh. hafði um málið að segja í sínu svari. Hann kom að dómstólunum og réttilegri niðurstöðu þeirra. Það kemur þessu máli ekkert við. Það er mikill misskilningur. Það er enginn að tala um þá hlið málsins og hefur ekki verið. Hann taldi sem sagt að það hefði engin ástæða verið til að gera athugasemdir við það sem þarna fór fram. Hann gerði engar athugasemdir við það, að sýslumaðurinn, undirmaður hans, er ekki aðili að þessu máli. Hann gerði engar athugasemdir við þá grg. Rannsóknarlögreglu ríkisins, að viðtalið í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins var flutt á meðan yfirheyrsla enn fór fram og, eins og sagt er, á meðan grunaði var að skýra sjálfstætt frá. Hann gerði enga athugasemd við það sem eru augljóslega stórkostleg embættisafglöp.

Það sem, herra forseti, sagt var í Ríkisútvarpinu var þetta, og ég vísa í fréttina á stangli: Hann hefði á mánudagskvöldið um kl. 11 komið að bíl inni á Skeiðarársandi og séð þar mannaferðir, farið að heiman og fundið, að eigin sögn, hasslykt megna. — Ég vil bæta því við að þær skýringar sem hv. 3. þm. Reykv. gaf og það sem segir í Dagblaðinu í dag svarar þessu. Það er nokkuð seint sem hv. 3. þm. Reykv. svarar þessu. Þetta um eiturlyfin hefði getað verið rétt og í tilfellinu sem vísað var til og átti sér stað fyrir ári var rétt frá skýrt.

Nú mundu menn segja „hann sagði að eigin sögn“ í viðtali við útvarp. En nokkru síðar í viðtalinu er ekki neitt skilyrt. Þá er sagt: Önnur stúlkan stökk út í myrkrið, skildi eftir opna hurð, hin hélt o.s.frv. Það var ekki sagt „að eigin sögn“; það eru engin skilyrði, enginn viðtengingarháttur. Það er þetta herra dómsmrh., sem eru og verða embættisafglöp af versta og alvarlegasta tagi.

Mér er ljóst að lagakerfið í landinu myndar mjög harðan varnargarð umhverfis sjálft sig í nafni laga og réttar oft. Þetta er að vísu að breytast. Og mér er ljóst að hæstv. dómsmrh. er fyrrum formaður í sýslumannafélaginu og metur þá stéttarbræður sína mikils, og ég lái honum það ekki. (Gripið fram í.) Í félaginu alla vega, — og ekki misskilja það. Ég er ekki að lá neinum manni það. Allir menn hafa rétt til að hafa áhuga á sínum stéttarbræðrum eða starfsbræðrum öðrum fremur. En það má ekki leiða til þess að af verði vörn fyrir rangindi. Það er staðreynd, að til er fólk sem neytir slíkra eiturefna. Það er líka staðreynd að það er lagabókstafur í landinu um það o.s.frv. En í nafni laga og réttar getum við aldrei haldið því fram að slíkt fólk eða hvaða annar minnihlutahópur sem vera skal sé t.d. líklegri til að fremja óhæfu því það er svo ægilegt að halda slíku fram. Ég vísa til hins málsins, sem er ársgamalt, og þess sem gerðist þar og frásagnanna af því og ég hvet hæstv. dómsmrh. til að kynna sér það mál.

Hæstv. dómsmrh. svarar, en þar kemur ekkert efnislega fram annað en almennt snakk um að dómstólarnir komist einhvern tíma að niðurstöðu, sem ég veit að er rétt og þeir gera. Það er ekki efni þessa máls og hefur aldrei verið. Hæstv. dómsmrh. heldur með öðrum orðum uppi vörn fyrir sýslumanninn að suðaustan og það er að minni hyggju skelfileg ástandslýsing á því hvernig þetta kerfi, sem öðrum fremur þarf að undirstrika muninn á réttu og röngu, heldur uppi vörn fyrir sjálft sig þegar í harðbakkann slær. — Fyrir greiða kemur greiði, mér er það ljóst. Mannlífið hefur alltaf gengið þannig fyrir sig og mannkynssagan öll, ef það er það sem hefur gerst.

Ég veit ekki hvort hæstv. dómsmrh. hefur kynnt sér það viðtal sem ég hef vísað í. Mér er ekki ljóst og varð ekki af svari hæstv. dómsmrh. ljóst hvort hann hefur lesið fskj. í frá Rannsóknarlögreglu ríkisins eða kannske hvort hann er fyrst að því núna. Mér er ekki ljóst hvort hann sér eða sér ekki hverju er verið að svara, einkum í stafliðum í og 2. Það gæti verið að hann sé fyrst að sjá það núna, það sé að renna upp fyrir honum að viðtalið í Ríkisútvarpinu birtist í fjölmiðli meðan yfirheyrslan enn fór fram og sá sem talaði var ekki aðili að rannsókn málsins í formlegum skilningi talað. Og það er eitt í svari Rannsóknarlögreglunnar sem hæstv. dómsmrh. ætti að velta mjög rækilega fyrir sér. Þeir segja, Rannsóknarlögregla ríkisins, Grétar Sæmundsson, í staflið 2 á bls. 3, ef ráðh. vildi vera svo elskulegur að fletta upp: „Auk þess var sýslumaður Austur-Skaftfellinga viðstaddur í upphafi yfirheyrslunnar“ — það segir nú sína sögu í sjálfu sér — „þegar hinn grunaði skýrði sjálfstætt frá.“ Skilja menn hvað þetta þýðir? Skilja menn hvað Rannsóknarlögreglan er að segja? Ég skal útskýra til undirstrikunar. Þetta þýðir að viðkomandi aðili talar fyrst sjálfur, en svo er hann spurður, krossprófaður til að nota gott íslenskt orð. En frásögnin í fjölmiðlum er af eintalinu. Það er þetta sem Rannsóknarlögregla ríkisins er að segja í þskj., en ráðh. telur ekki ástæðu til að hafa skoðanir á þessu máli.

Eins og þetta mál blasir við mér er ég að freista þess að halda uppi málsvörn fyrir minnihlutahópa fólks sem hefur verið gert rangt til af þeim sem síst skyldi, þ.e. lagakerfinu í landinu. Ég er þeirrar skoðunar að þessir minnihlutahópar eigi rétt, þeir séu ekki líklegri til að gera eitthvað sem ekki má en annað fólk, og ég hef verið að reyna að gera hæstv. dómsmrh. að skoðanabróður mínum í þessu máli því að mér finnst það eiga við. Af svari ráðh. hæstv. má öllum ljóst vera að þetta hefur mér ekki tekist og ráðh. annaðhvort skilur ekki eða er annarrar skoðunar. Ég vildi óska þess að hann væri að fyrra, en ég er hræddur um að það sé það síðara. g er þeirrar grundvallarskoðunar, að siðað samfélag verði að halda uppi sérstökum réttindum þessa fólks. Það hefur misfarist hroðalega og það er undirstrikað í grg. með till. minni. Maður getur ekkert sannað eða afsannað, en mig grunar að þarna endurspeglist litla þjóðfélagið og framkoma þess við erlent fólk, þess vegna hafi menn talið að svona plebeiismi væri leyfilegur. En ég segi nei. Við getum ekki komið svona fram við nokkurn mann. Lagakerfið í landinu má ekki koma svona fram við nokkurn mann og alls ekki. Það er engin vörn eða réttlæting að menn hafi ekki tilfinningar í París eða Pakistan. Það er þetta, hæstv. ráðh., sem er kjarni málsins og ég harma mjög hið efnislega svar þó ég þakki fyrir það tæknilega. Ég harma það mjög að skilningurinn sé ekki meiri. Það er mín dýpsta sannfæring, að skilningur á svona málum sé miklu meiri úti um samfélagið en hér inni. Það er mín innsta sannfæring að svo sé.

Herra forseti. Ég endurtek að tæknilega vil ég þakka fyrir mig. Hafi ekki fleiri kvatt sér hljóðs um málið er þessi till. dregin til baka.