16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í B-deild Alþingistíðinda. (367)

31. mál, afurðalán landbúnaðarins

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Þessi umr. vill verða nokkuð almenn að sjálfsögðu.

Ég tel rétt að rifja það upp, að eftir að þessi þáltill. var samþykkt skipaði landbrh. nefnd í október 1978, sem var falið að gera tillögur um breytingar á afurða- og rekstrarlánum þannig að bændur gætu fengið laun sín greidd og óhjákvæmilegan rekstrarkostnað svipað og aðrir aðilar, eins og þar segir. Í þessa nefnd voru skipaðir Árni Gunnarsson alþm., Geir Magnússon gjaldkeri SÍS, Gunnar Guðbjartsson fyrrv. formaður Stéttarsambands bænda, Kjartan Ólafsson fyrrv. alþm., Sveinn Jónsson fyrrv. aðstoðarbankastjóri Seðlabanka Íslands, en siðar tók Garðar Ingvarsson forstöðumaður lánadeildar við störfum hans í nefndinni, Magnús Jónsson bankastjóri Búnaðarbanka Íslands, Helgi Bergs bankastjóri Landsbankans og Vilhjálmur Hjálmarsson fyrrv. ráðh., sem jafnframt var formaður nefndarinnar.

Niðurstaða nefndarinnar var þessi, með leyfi hæstv. forseta: „Eftir marga fundi og viðræður við sérfróða menn á þessum sviðum komst nefndin að þeirri niðurstöðu í stuttu máli, að miðað við núverandi sölukerfi landbúnaðarafurða á Íslandi væri það tæknilega ógerlegt að koma á beinum greiðslum til bænda.“

Ekki held ég að það sé ástæða til að væna Magnús Jónsson, fyrrv. fjmrh. Sjálfstfl. um að hann sé vilhallur í þessu máli t.d. Þannig liggur fyrir alveg skýlaus niðurstaða hjá nefnd sem hefur skoðað þetta mál mjög rækilega og hvort mögulegt er að framkvæma þetta á þessa leið. Það kann kannske að standa í fleirum að framkvæma þetta. (Gripið fram í: Hvenær er þetta dagsett?) Nefndin var skipuð strax 1978 og skilaði af sér líklega 1979, að ég hygg.

Ennfremur vil ég benda á hver er afstaða Stéttarsambands bænda, hagsmunasambands bændanna sjálfra í landinu. Það er ekki pólitísk afstaða sem þar er um að tefla. (Gripið fram í: Nei.) Það er afstaða Stéttarsambands bænda. (Gripið fram í: Megum við heyra hver hún er?) Hún er þannig, að þeir telja þetta til óhagræðis fyrir bændur. Ég vil aðeins minna á þetta. (Gripið fram í: Hvenær færðu þetta?) Það kom bréf út af þessu til mín hér 26. jan. 1982. (Gripið fram í: Var það prívat?) Nei, það var ekkert prívatbréf. Ég skal, þó að tíminn sé stuttur, herra forseti, lesa þessa samþykkt, sem gerð var á fundi stjórnar Stéttarsambands bænda 21. þessa mánaðar. Fundurinn í stjórninni samþykkti eftirfarandi ályktun:

„Stjórn Stéttarsambands bænda telur að það fyrirkomulag á greiðslum rekstrar- og afurðalána sem verið hefur undanfarin ár hafi reynst vel og sér því ekki ástæðu til róttækra breytinga á því. Bent skal á, að þær reglur sem Framleiðsluráð landbúnaðarins setur sláturleyfishöfum um útborgun til bænda gera ráð fyrir að greidd sé út nokkuð hærri fjárhæð en afurðalánunum nemur. Ljóst virðist að það fyrirkomulag að hver framleiðandi taki lánin beint án milligöngu sölufélags muni reynast flókið og erfitt í framkvæmd og mjög kostnaðarsamt fyrir bændur. Stjórn Stéttarsambandsins telur því eðlilegt að það verði áfram svo, að sölufélögin taki og beri ábyrgð á rekstrar- og afurðalánunum, en framleiðendur sem þess óska geti fengið rekstrarlánin greidd út eða lögð á reikning sinn“.

Þetta er afstaðan sem stjórn Stéttarsambands bænda hefur tekið í þessu máli. Það er auðvitað nauðsynlegt í umr. um þessi mál að vitna til bændanna og þeirra hagsmunafélags.

Ég hef nú gefið hv. þm. að hluta til meiri svör en seinast þegar hann spurði, þó ekki sé langt síðan, og þar á ég við rekstrarlánin alveg sérstaklega, en þegar Seðlabankinn fjallaði um þessi mál taldi hann að það gegndi öðru máli um rekstrarlánin en afurðalánin, taldi meiri tormerki á að framkvæma þetta með afurðalánin.

Hv. þm. Sverrir Hermannsson lagði fyrir mig spurningar. Ég er alveg sammála honum og svara því hiklaust játandi, að vitanlega eiga ráðh. að framkvæma vilja Alþingis. Þó er hugsanlegt að geti verið torvelt að gera það. Það er hugsanlegt, eins og t.d. í þessu máli. En varðandi bréfið sem hann las upp og tilvísunina í Örum & Wulff og kaupfélögin, þá þarf ekki sögufróðan mann í Íslandssögu til þess að hann viti hvaða baráttu það kostaði bændurna í landinu að losna undan fjötrum dönsku verslunarinnar. Og þeir stofnuðu samvinnufélög. Ég verð að láta þá skoðun í ljós og get ekki stillt mig um það, að þegar látið er í veðri vaka af mörgum þm. Sjálfstfl. að samvinnufélögin séu Þrándur í götu fyrir afkomu og velferð bændanna þykir mér fulllangt gengið, svo ég segi ekki meira. Samvinnufélögin eru opin félög. Það eru haldnir aðalfundir í samvinnufélögunum á hverju einasta ári. Það eru birtir reikningar samvinnufélaganna og það þekkir væntanlega hv. þm. Sverrir Hermannsson. (SvH: Það er allt í lagi með samvinnufélögin. Það eru þarna einhverjir sem skipta sér af með pólitík.) Ja, samvinnufélögin eru nú einu sinni fólkið sem í þeim er og bændur hafa mjög mikla og viðtæka samstöðu um samvinnufélögin. Auðvitað getum við tekið upp umræður um samvinnufélögin og bændastéttina.

Ég vildi segja það sem mína skoðun, að samvinnufélögin eru ein af traustustu stoðunum fyrir bændastéttina í landinu, og í mörgum tilvikum er ég sannfærður um að margar byggðir, og þá get ég talað af sérstaklega mikilli þekkingu um Austurland, væru áreiðanlega — ekki segi ég nú eyddar, en að talsverðu leyti og miklu meira leyti eyddar en þó nú er, þó að byggðir í ýmsum héruðum hafi gengið saman.

Ég held að það sé misskilningur hjá hv. þm. sjálfstæðismanna að hér sé um að ræða eitthvert stórt mál fyrir kaupfélögin. Sumir kaupfélagsstjórar hafa látið það í ljós í mín eyru að það væri að sumu leyti léttara fyrir kaupfélögin að haga þessu á annan veg. Það væri léttara fyrir kaupfélögin ef aðrir aðilar gengju lengra í að fjármagna framkvæmdir og rekstur bændanna en kaupfélögin hafa gert, en þau hafa gengið mjög langt í því efni eins og kunnugt er. Langsamlega flest kaupfélögin eru þannig sett, að þau eiga inni hjá bændunum verulegar fjárhæðir. (Gripið fram í.) Það þarf ekki að fara langt til þess að sannfærast um þetta, það er alkunna, en það er hluti af starfsemi kaupfélaganna að fjármagna bændurna, að lána bændum til framkvæmda, að lána þeim til rekstrar, sérstaklega þeim sem verr eru settir, og kaupfélögin hafa ekki talið það eftir sér.

Ég held satt að segja og er ansi hræddur um það, að ef breytt væri um í þessum efnum meira inn á þær brautir að bankarnir ættu að sjá um þessa fjármögnun og lánastarfsemi kæmi margur bóndinn, sem á erfitt og þarf á lánum að halda og lánafyrirgreiðslu, stundum tómhentur frá bankastjórum, þó að hann fái fyrirgreiðslu og hafi fengið fyrirgreiðslu hjá kaupfélögunum. Ég er þeirrar skoðunar og vil endurtaka það, að kaupfélögin séu alveg skilyrðislaust ein af sterkustu stoðunum sem standa að íslenskri bændastétt og aðstoða íslenska bændur við þeirra baráttu, sem oft er erfið í okkar landi.