16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í B-deild Alþingistíðinda. (371)

31. mál, afurðalán landbúnaðarins

Egill Jónsson:

Herra forseti. Þetta eru út af fyrir sig gagnlegar upplýsingar hér í þessari virðulegu stofnun. En ég vildi mega koma þeim ábendingum og óskum mínum á framfæri við hæstv. landbrh., hvort hann vildi ekki beita sér fyrir því að þessir fjármunir færu til þess að fjármagna rekstrarvörur landbúnaðarins. Þannig er nefnilega í pottinn búið að Áburðarverksmiðjan og rekstur hennar er fjármagnaður allur á dollaraprís.

Á s.l. fjórum árum hefur áburðarverð hækkað 16% fram yfir afurðaverð. Skyldi það ekki einhverju geta breytt, ef þessi rekstrarlán færu til þess að fjármagna þennan rekstur frekar en nota til þess dollara? En það er víðar sem rekstrarvörur landbúnaðarins eru fjármagnaðar með erlendri mynt. Þeir viðskiptahættir hafa m.a. verið teknir upp að afhenda aðra mestu rekstrarvöru landbúnaðarins verðlausa. Þá á ég við kjarnfóðrið. Síðan þegar innflytjandinn hefur greitt upp erlendan víxil, þá er verðinu jafnað niður. Það er sem sagt fjármagnað með erlendum lánum og síðan verða bændurnir að sæta því hvað gerist í gengismálum í millitíðinni.

Ég vildi mega beina þeirri spurningu til hæstv. landbrh., hvort hann vildi nú ekki beita sér fyrir því að þessi viðauki í rekstrarlánunum yrði notaður til þess að þessir viðskiptahættir yrðu felldir niður. Og ég mætti þá kannske bæta við þeirri spurningu til hæstv. viðskrh., hvort slíkir viðskiptahættir eins og þessi verslun með kjarnfóður séu heimilir.