18.10.1982
Neðri deild: 3. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í B-deild Alþingistíðinda. (38)

3. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Flm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. sem er 3. málið á þessu 105. löggjafarþingi. Þetta er frv. til l. um breytingu á lögum nr. 8(l, útgefnum 11. júní 1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Flm. ásamt mér er hv. þm. Árni Gunnarsson, 6. þm. Norðurl. e.

Eins og hv. þm. er kunnugt hefur frv. í þessa veru verið flutt á tveimur síðustu löggjafarþingum, 103. og 104, en í allnokkuð annarri mynd. Þetta frv. gerir aðeins ráð fyrir því að á eftir 2. gr. laganna komi ný grein sem orðist svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laganna geta launþegar (vinnuseljendur), sem taka laun hjá sama atvinnurekanda (vinnukaupanda), stofnað félag á vinnustað sem hafi með samninga að gera og taki í einu og öllu við réttindum og skyldum stéttarfélaga. Þetta getur gerst að undangenginni skriflegri og leynilegri atkvgr., þar sem 2/3 hlutar þátttakenda hafa lýst sig samþykka þessu fyrirkomulagi, enda starfi fleiri en 25 launþegar á vinnustaðnum.

Félmrn. skal setja reglugerð um framkvæmd atkvgr.“ Og síðan, herra forseti, er í 2. gr. frv. sagt: „Þar sem í lögum þessum eru nefnd stéttarfélög komi: stéttarfélög og vinnustaðafélög.“ Og loks að yfirskriftinni á frv. verði breytt í þessa veru.

Herra forseti. Eins og kunnugt er hafa um efni þessa frv. orðið allmiklar umr. á undanförnum tveimur árum þegar það hefur verið flutt hér á hinu virðulega Alþingi. Ég vil segja það strax að eitt lykilatriði í þessu frv. er auðvitað háð einfaldri ákvörðun, — og það er vilji flm., eins og fram kemur í grg. með frv., að til þess sé tekið tillit að því má mjög auðveldlega breyta eftir því sem reynslan segir okkur til um — það er sú tala sem kveður á um stærð þeirra vinnustaða sem við er átt. Í þessu frv. er sagt að þetta sé heimilt á vinnustað sem telji 25 launþega eða fleiri. Það má vel hugsa sér að færa þessa tölu til, hún verði önnur, hún verði hærri, hún verði jafnvel miklum mun hærri, og svo hitt, að það má beita niðurtalningu á fleiri sviðum en þar sem hún er dæmd til að misheppnast. M.ö.o., það er hægt að hugsa sér að fyrst í stað sé hér átt við vinnustaði með 200 launþegum og síðan fari það stiglækkandi ár frá ári, á tveggja ára fresti eða eitthvað slíkt. Ég vil, áður en lengra er haldið í þessu máli, vekja á því rækilega athygli að þessi tala er sveigjanleg, ef menn hafa skoðað samsetningu íslenskra fyrirtækja og af hvaða stærð þau eru o.s.frv. Það verður hv. allshn. sem væntanlega fær þetta frv. til meðferðar og ég treysti henni til að skoða mjög nákvæmlega tölfræði um slíkt.

Herra forseti. Eitt af því sem valdið hefur nokkrum misskilningi þegar þessar hugmyndir hafa verið ræddar á undanförnum árum er að menn hafa vísað til hvernig þessir hlutir eru uppbyggðir í öðrum löndum. Nú er það svo, að mismunurinn á t.d. Íslandi annars vegar og landi eins og Noregi á hinn bóginn er sá, að á Íslandi er vinnulöggjöf, á Íslandi er þessum hlutum skipað með löggjöf. Þau lög voru sett eftir feikilegar deilur á árinu 1938. Íslenska vinnulöggjöfin, lög um stéttarfélög og vinnudeilur til að vera nákvæmari, það sem við venjulega köllum vinnulöggjöf, voru sett af ríkisstjórn Framsfl. og jafnaðarmanna sem sat í þennan tíma. Þau voru sett gegn vilja annarra. Því má bæta við, svona til sögulegra upplýsinga, að á þessum tíma var einn af forustumönnum jafnaðarmanna um það bil að yfirgefa flokkinn. Það er Héðinn Valdimarsson. Og hann snerist gegn þessari löggjöf á þeim forsendum að vinnulöggjöf væri alltaf í eðli sínu þrælalöggjöf. Þetta er rakið nokkuð skilmerkilega í grg. með þessu frv., rök bæði með og á móti. En kjarni málsins er sá, að t.d. í Noregi eru þessir hlutir frjálsir, menn geta skipað þessum hlutum þann veg sem þeir kjósa. Hér er þetta ekki svo. Hér eru ákveðnir hlutir lögverndaðir og aðrir hlutir bannaðir. Þegar vinnulöggjöfin var sett 1938 var kjarni málsins, t.d. séð frá bæjardyrum míns flokks, Alþfl., að lögvernda þau stéttarfélög sem fyrir voru. Og hvernig var þetta gert? Þetta var gert þannig að í 2. gr. laganna, sem hafa staðið að mestu óbreytt síðan 1938, var sagt einfaldlega að ekkert stéttarfélag mætti vera smærra en nemur sveitarfélagi. Þetta þýddi það t.d. að Dagsbrún í Reykjavík var eina verkamannafélagið í Reykjavík og að ekki mátti stofna annað verkamannafélag þó svo menn vildu það og sæju félagslegar ástæður þar til.

Menn verða að hafa hugfast að þetta er á árum þegar töluverð upplausn er í verkalýðshreyfingunni, þegar menn eru að huga að því að fara að stofna hér fleiri en eitt alþýðusamband og þá eftir flokkspólitískum línum. Í vinnulöggjöfinni frá 1938 var m.ö.o. sitthvað leyft og sitthvað bannað. En vinnulöggjöfin frá 1938 gerir meira. Hún skyldar launþegafólk til að flokka sig í félög samkv. skilgreiningunni stétt, eins og það orðvar skilið á kreppuárunum, m.ö.o. að verkamenn væru ein stétt, verkakonur önnur stétt, iðnaðarmenn þriðja stéttin, skrifstofufólk fjórða stéttin o.s.frv. Kjarni málsins er sá, að þessi skilningur á hugtakinu stétt er lögbundinn og lögverndaður á Íslandi. Ef verkamaðurinn, iðnaðarmaðurinn, skrifstofumaðurinn og flugvirkinn — eða hver annar, sem vinna saman t.d. á vinnustað, vilja sinna sínum félagsmálum saman þá geta þeir það ekki vegna þess að skilgreining kreppuáranna er lögbundinn og lögverndaður á Íslandi. Verkamenn verða að vera saman í félagi og þá er auðvitað átt við stór svæði eins og Reykjavík og Eyjafjarðarsvæðið og slíkt. Það er þetta sem er kjarni málsins.

Þetta hefur á hinn bóginn valdið stórkostlegum misskilningi. Menn segja að með lagafrv. af þessu tagi sé verið að leggja til að riðla félagasamtökum eins og verkalýðshreyfingunni. Það er auðvitað mikill misskilningur vegna þess að hér er aðeins verið að leggja til að hlutur verði heimilaður, ekki þvingaður, sem hefur verið bannaður. Mér er fullkunnugt um það að fólk á stórum vinnustöðum hér í Reykjavík t.d. hefur leitað til lögfræðinga, sem hafa sérhæft sig í vinnurétti, og það hefur spurt: Getum við myndað félag, félag sem rekur sig út frá vinnustaðnum? Svarið hefur einfaldlega verið: Nei, það er bannað samkv. 2. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur.

Menn hafa sagt: Hér er verið að lögþvinga einhverju upp á verkalýðshreyfinguna. Það er mikill misskilningur, það er ekki verið að því. Það er þvert á móti gert ráð fyrir því að þetta verði réttur sem fólki á vinnustöðum — og nú hef ég enn þann fyrirvara sem ég hafði um töluna í upphafi, því að henni má breyta mjög auðveldlega þetta er réttur sem fólki er heimilt að nota sér ef það svo kýs. Og það er meira að segja gert ráð fyrir því að það þurfi aukinn rétt, þ.e. þetta gerist því aðeins að tveir af hverjum þremur launþegum á vinnustað óski eftir því. En ef það er svo, þá hins vegar gerist þetta, þá taki menn samningsréttinn og þar með verkfallsréttinn í sínar hendur.

Út af fyrir sig ætti það ekki að vera mitt mál að rökstyðja af hverju ég held að þetta eigi sums staðar betur við, vegna þess að það má auðvitað ræða á gólfinu, það á auðvitað að ræða inni í fyrirtækjunum, menn geta notað sér þennan rétt eða þeir geta það ekki, eða menn gera það ekki og það á ekki að vera neitt mál. Það eina sem hér er verið að leggja til er að launafólk hafi þennan rétt og noti hann ef það svo kýs og ef það telur hagsmunum sínum þannig borgið.

Ég vil skjóta því hér inn, herra forseti, að það er auðvitað alkunna að í nokkrum fyrirtækjum hér er við lýði óljós mynd af þessu fyrirkomulagi, ég nefni Straumsvík, ég nefni ríkisverksmiðjurnar, ég nefni Grundartanga, en þó ekki nema óljós mynd vegna þess að það eru mörg stéttarfélög í lagaskilningi orðsins, sem að baki samninganefndinni standa og fara með samningsvaldið, svo að það er eiginlega tvöfalt kerfið í þessum fyrirtækjum.

Menn segja ýmislegt. Menn segja t.d. að eitt hafi gerst. Það er meira launajafnræði þar sem þetta fyrirkomulag er vegna þess að menn gleyma síður sínum hinum minnstu bræðrum þegar samið er þannig að einn semur fyrir alla og allir fyrir einn. Fyrir þessu hef ég ekki ómerkilega heimild vegna þess að þetta fullyrti hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson í viðtali við tímaritið Rétt árið 1976, að þetta fæli í sér meira launajafnrétti, og launajafnrétti er náttúrlega mikilvægt í sjálfu sér, bara sem mórölsk niðurstaða í kjarasamningi. en auðvitað kemur fleira til. Ég vil taka það fram að sennilega á maður ekki að vera að rökræða svo mjög hér á hinu háa Alþingi það sem ætlunin er að rökleiða svo úti á vinnustöðunum, á gólfinu þar, þegar þetta kæmi þar til umr. En væri ég þar staddur og ynni í meðalstóru fyrirtæki og væri ég áhugamaður um að þetta fyrirkomulag væri upp tekið, þá mundi ég reyna að afla mínum málstað fylgis með eftirfarandi rökum. Ég mundi segja: Það er fleira kjör en krónur. T.d. gætu það verið kjör að semja um heldur lægri laun en semja um dagvistunaraðstöðu fyrir þá sem við fyrirtækið vinna. Þetta hefur komið upp í nokkrum fyrirtækjum í Reykjavík raunar. Það er ekki í gegnum hefðbundna samningakerfið, það er með öðrum hætti. Venjulegur launamaður í Reykjavík hefur barn sitt í gæslu allan daginn. Hann borgar 3000 kr. fyrir það. Það eru allnokkrir peningar. Ef samið væri milli vinnuveitandans og starfsmannanna mundu menn semja um svona hluti. Og þetta eru ekki lítil réttindamál.

Við jafnaðarmenn höfum haft atvinnulýðræði á stefnuskrá okkar. Menn mundu semja sig til stjórnar í fyrirtækjunum. Það er auðvitað frjáls réttur beggja og þegar tveir semja hefur hvor um sig vald til að segja nei, hingað og ekki lengra. Þannig semja frjálsir menn. Ef menn vildu semja þannig, ef menn vildu semja sig til eignar að fyrirtæki eða hluta þess, af hverju mega menn það ekki? Oft er það efalítið eðlilegt rekstrarform að fyrirtækinu að launþegar eigi það að hluta. Og þetta fyrirkomulag gefur einmitt kost á því að menn semji annað til sín heldur en hreina krónutöluhækkun, sem jafnvel framleiðslan stendur ekki undir og fram gengur svo í rýrnandi mynd eins og við þekkjum.

Menn hafa haft það á móti hugmyndum af þessu tagi að þær feli í sér veikingu á samningsstöðu þess sem semur. Þetta er auðvitað fráleitt. Í fyrsta lagi vegna þess að samningsréttur og verkfallsréttur teljast til helgustu mannréttinda og það leikur sér enginn að þessum réttindum. Það dregur enginn úr slíkum réttindum sínum. Það er því fráleitt að gera ráð fyrir að menn muni fara gáleysislega með þennan rétt. Ég spái því að verði þetta frv. að lögum þá muni engir launþegar nota sér þessa heimild nema að mjög vel yfirveguðu ráði. Menn segja að í litlu fyrirtæki, 60 manna fyrirtæki, muni þetta þýða það að atvinnurekandinn muni níðast á fyrirtækinu. Er líklegt að það muni gerast'? Mundi starfsfólk í slíku fyrirtæki taka sér réttinn ef það væri hrætt um þetta? En svo er annað í þessu. Samningsréttur og verkfallsréttur og rétturinn til að haga málum sínum er frjáls á Íslandi. Ef menn óttast þetta þá geta menn myndað sambönd. Segjum svo að hér risu upp 100 vinnustaðafélög í Reykjavík sem hvert semdi með sínum hætti. Ég segi þetta út í loftið, ég veit ekkert hvaða tala hér gæti átt við. Segjum svo að mönnum fyndist skyndilega að samningsstaða þeirra hefði veikst. Hvað er þá auðveldara en að menn myndi bandalög vinnustaðanna, sambönd vinnustaðanna? Allir sem ynnu í fataframleiðslu eða bara öll fyrirtæki í Reykjavík, vinnustaðafélög og stéttarfélög í hinum eldri skilningi orðsins, tækju sig saman og mynduðu bandalag. Hvernig í ósköpunum er hægt að halda því fram, ef talað er af sanngirni, viti og þekkingu, að það muni veikja samningsstöðu? Mönnum er fullkomlega frjálst að mynda með sér samtök eins vinnustaðar, tveggja vinnustaða eða fleiri vinnustaða, 100 vinnustaða, alveg eins og mönnum sýnist og eftir því sem þeir telja samningsstöðu sinni best borgið. Í Reykjavík eru tvö meiri háttar flugfélög. Segjum sem svo að þau vildu bæði nota sér þennan rétt. Segjum sem svo að þau teldu samningsstöðu sinni betur borgið með því að semja í samfloti. Þau um það, það er þeirra réttur að hegða sér svo.

Mér hefur fundist að þeir sem tala gegn þessari hugmynd séu að verja einhverja aðra og annarlegri hagsmuni heldur en hagsmuni þessa fólks. Þetta er ekki mín uppáfinning, ég hef fyrir mér eina mína allra bestu heimild í þessum málum, sem er hv. 7. þm. Reykv., Guðmundur J. Guðmundsson, vegna þess að í nefndu viðtali við Rétt hafði einn maður þar, Sigurður Magnússon rafvirki, sagt: Það á að fara að sem ja á vinnustaðagrundvellinum. Já, sagði Guðmundur, það væri kannske miklu betra, en það verður ekki strax. En svo bætti hann við: Ætli það sé ekki einhver smákóngapólitík í þessu? Ég endurtek, ætli það sé ekki einhver smákóngapólitík í þessu? Þetta var hv. 7. þm. Reykv., Guðmundur J. Guðmundsson, á árinu 1976. Ég tek mér ekki svona orð í munn; vil ekki gera það, vil ekki setja umræðuna í hnotskurnina þá. En hér talar maður af nokkru viti og reynslu í samningamálum og hann sagði þetta: Ætli það sé ekki einhver smákóngapólitík í þessu? Ég vara við að umræðan fari mjög út á þær brautir — ég nefni þetta aðeins vegna þess að að því hefur oft verið vikið, m.a. í þessu langa viðtali — eða þetta voru prentaðar samræður raunar í tímaritinu Rétti, sem nú er orðið 6 ára gamalt.

Menn segja: Tillögumenn eru að þvinga einhverju upp á verkalýðshreyfinguna sem hún vill ekkert hafa með að gera. Ég segi: Þetta er rangt og hlýtur að vera mælt gegn betri vitund vegna þess að það er ekki verið að þvinga neinu upp á neinn þegar um er að ræða heimild sem menn ráða sjálfir hvort þeir nota og þurfa meira að segja til þess aukinn meiri hluta. Við gætum samþykkt þetta frv., gert það að lögum fyrir jól. Við gætum svo horft yfir sviðið eftir fimm ár og kannske hefði engin breyting átt sér stað vegna þess að þegar á átti að reyna og þegar fólk skynjaði þessi auknu réttindi sín og fór að ræða þetta á gólfinu hvert á sínum vinnustað, þá getur vel verið að allir kæmust að þeirri niðurstöðu að þetta hentaði þeim ekki. Það væri ekkert við því að gera. En mér er óskiljanlegt hvernig menn geta haft á móti því að fólk fái þessi réttindi og sagt síðan: Fólk mun misfara með þau, það mun ekki kunna að nota þau. Mér er óskiljanlegt, svo að ég noti þýskt orð, hvernig menn geta verið „Besserwisser“ af þessari tegund, hvernig menn geta endalaust þóst vera að hafa vit fyrir öðru fólki. Og varðandi þetta ákvæði um hinn aukna meiri hluta, 2/3, þá kann að vera líklegra til sigurs fyrir málið og samkomulags að hafa það með þessum hætti.

Ég vil skjóta því inn að á fundi í stjórnmálafélagi, sem ég var á fyrir nokkrum mánuðum í Reykjavík, barst þetta frv. í tal. Þar stóð upp maður, launamaður hér í Reykjavík, og sagði: „Sannleikurinn er sá að hér í Reykjavík þykir fleira fólki vænna um vinnustaðinn sinn heldur en verkalýðsfélagið sitt.“ Nú fullyrði ég ekkert um hvort þetta kunni að vera rétt, ég set þetta aðeins fram til umþenkingar að svona kann þetta að vera. Er það ekki skelfileg niðurstaða?

Menn hafa gjarnan sagt í umræðu um þetta að flm. þessa frv. væru að fjandskapast við verkalýðshreyfinguna. Engin mótrök þykja mér ósanngjarnari en þessi, að ég ekki segi ódrengilegri, því að fyrir mér er verkalýðshreyfingin fólkið sem er í henni en ekki fólkið sem stjórnar henni fyrst og fremst. Og ef einhver, þó ekki væri nema einn vinnustaður í Reykjavík vildi nota sér þessa heimild- ég endurtek: heimild-hvað með það? Af hverju má hann það ekki? Hvernig getur það verið fjandskapur við verkalýðshreyfinguna að flytja frv. til laga þó ekki nema aðeins brot, og kannske lítið brot af félagsmönnum í henni kynnu að vilja nota sér það? Kannske eru skiptar skoðanir um þetta meðal launþega. Þá ræða þeir það hver á sínum vinnustað og komast að niðurstöðu. En af hverju ætti að koma í veg fyrir það fyrir fram að slíkar umræður geti farið fram? Og ég endurtek það sem ég hef áður sagt: Ef enginn vill nota sér þessa heimild, segjum sem svo að það verði reynslan þegar við lítum yfir sviðið eftir fimm ár að þessum lögum samþykktum, nú gott og vel, þá nær það ekki lengra. Þá hefur fólk rætt sín mál, komist að skynsamlegri niðurstöðu, metið það svo að það væru ekki sínir hagsmunir að gera þetta svona, telur það veikja samningsstöðu sína. Við því er auðvitað ekkert að segja, það er ekki mitt mál. Ég vil aðeins ekki loka fyrir það að menn geti samið með þessum hætti.

En menn hafa nefnt það, gerðu það aðallega fyrir tveimur árum, m.a. í skelfilegum ræðum sem hér voru fluttar á hv. Alþingi, að hér væri verið að fjandskapast við verkalýðshreyfinguna. Ég tel þetta ósanngjörn rök og ég vil aðeins útskýra það með einni lítilli staðreynd. Ef við lítum til síðasta aldarfjórðungs þá er ein staðreynd alveg ljós og við blasandi hverju barni. Hún er sú að það hafa orðið tækniframfarir á Íslandi, miklar tækniframfarir. Alveg sama hvert við lítum, á verksmiðjur, uppskipun, hvert sem við lítum. Það er af hinu góða. Þetta er ekki iðnbylting en þetta er hröð iðnþróun. Ef við svo lítum yfir launasvæðið íslenska þá er annað alveg ljóst. Það er það að fólkið, sem við frumframleiðsluna vinnur, hefur borið skarðan hlut frá borði. Það hefur fengið minni hlutdeild í þessum tækniframförum heldur en því hefur borið. Það stendur hlutfallslega verr að vígi í dag, miðað við þá aukningu á heildartekjum sem orðið hefur vegna tækniframfaranna, heldur en það gerði fyrir 25 árum. Þetta veit ég að t.d. hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson — og því nefni ég hann að hann er formaður stærsta verkamannafélagsins hér í Reykjavík — þetta veit ég að hann tekur undir með mér og hefur margsinnis gert. En sé þetta svona þá spyr ég líka: Hverju sætir þetta? Og er ekki eðlilegt að svarið sé að það er eitthvað rangt í því kerfi hvernig samið er um kaup og kjör? Eða hverju sætir það að þegar verið er að gera svokallaða heildarsamninga veturinn 1977, eða hvenær sem er, þá er ævinlega sest niður og sagt: Nú ætlum við að stefna að meiri launajöfnuði. Svo er staðið upp tveimur mánuðum seinna — og því miður, bilið er orðið meira en það var. Það gerist alltaf eins. Láglaunafólkið dró vagninn, hinir komu á eftir og sömdu um heldur meira. Þetta hefur gerst aftur og aftur í aldarfjórðung. Og úr því að þetta er svona er þá ekki eðlilegt svar að menn spyrji: Er ekki eitthvað rangt við skipulagið sjálft? Auðvitað er eitthvað rangt við skipulagið sjálft. Og af hverju koma verkalýðsforingjar, sem vitaskuld vinna vel og mikið og langan vinnudag að hagsmunum síns fólks, og enginn skilji orð mín svo að ég sé að gera lítið úr því starfi, — en af hverju standa þeir í fyrsta lagi svo iðulega sem blokk á móti breytingum, en í öðru lagi upp að loknum hverjum kjarasamningum og segja: Okkur mistókst. Okkar fólk bar minna úr býtum en hinir sem eru um miðbik launaskalans og þar fyrir ofan. — Hvað er að? Ég segi: Það er eitthvað að í skipulagsmálunum, en af hverju er eitthvað að í skipulagsmálunum? Af því að skipulagið er lögþvingað. Skipulag íslenskra alþýðusamtaka er lögþvingað. Það er það sem er t.d. munurinn á okkur og Noregi. Það er bundið með lögum hvað má og hvað má ekki, og svo koma menn þegar lagt er til að rýmkuð sé heimild, ekkert skyldað heldur rýmkuð sé heimild, og gefið tækifæri til þess að samið sé með öðrum hætti og öðru fyrirkomulagi, ef menn svo kjósa að 2/3 meiri hluta og uppfylltum öðrum skilyrðum og þá segja menn: Þetta er árás á verkalýðssamtökin. Og ég spyr: Hvernig má þetta vera árás á verkalýðssamtökin? Ég finn ekkert svar við þeirri fullyrðingu, nema hið ívitnaða úr Rétti 1976.

Íslenskt þjóðfélag er þjóðfélag ábyrgðarleysis. Það ber ekki nokkur maður ábyrgð á því, og þá er ég auðvitað að tala um hið opinbera þ jóðfélag, sem hann er að gera. Við vitum að menn semja um fiskverð. Menn bera enga ábyrgð á niðurstöðunni. Það er alveg sama um hvað menn semja. Enginn maður verður að hætta rekstri. Því er öllu hleypt út í gengið og gengið fellt til þess að leiðrétta vitleysuna sem menn komast að. Það ber heldur enginn ábyrgð á kjarasamningum. Ef menn hafa samið um meira en fyrirtækin geta staðið við, — og það er hygg ég nokkuð sem við þurfum að fara að endurskilgreina í þessu þjóðfélagi, þ.e. ábyrgð fyrirtækjanna, sem engin er í dag, — þá er öllu hleypt út á rýrnandi mynt. Það er hið ábyrgðarlausa kerfi sem hefur leitt okkur þangað sem við erum, þar sem sennilega þriðjungur launþega býr við ósæmilega lág laun. Ef menn færu að semja á þeim grundvelli að þeir bæði tækju tillit til hags þeirrar starfsemi sem þeir vinna við og fengju fljótt og vel arð þegar vel gengur, þá bera menn ábyrgð á því sem þeir eru að gera. Ég sé fyrir mér þjóðfélag þar sem valdinu er dreift út um allt land, út um alla borg, þar sem menn starfa saman í smærri einingum frekar en stærri og þar sem menn og samtök þeirra bera ábyrgð á því sem þeir eru að gera.

Það er lenska að ráðast að forustufólki í verkalýðshreyfingunni og segja að það beri enga ábyrgð. Þetta er auðvitað hreinn dónaskapur, og ég skal undirstrika það rækilega. Vitaskuld gildir það sama um rekendur fyrirtækjanna og það í miklu ríkara mæli en um hina sem eru talsmenn fólks með ósæmilega lág laun. Látum vera þó að þeir sýni svokallað ábyrgðarleysi á stundum vegna þess hverjir umbjóðendur þeirra eru, en málið er auðvitað það að fyrirtækin eru rekin með súrrandi neðanjarðarhagkerfi, eins og við vitum, með rosalegum upphæðum sem hvergi koma fram á skýrslum þar sem dregið er út úr þeim til einkaneyslu svokallaðra eigenda og allt þetta, sem allir vita að er svo, og menn eru farnir að tala um ævintýralegar upphæðir í hinu óskráða íslenska hagkerfi. En hvað svo? Þessi fyrirtækjarekstur semur síðan um laun sem framleiðsla hans mun aldrei geta staðið undir og af hverju? Af því að því er hleypt út í verðlag með einhverjum ríkisreknum meðaltalstölum. Vandinn er að minni hyggju ekki fyrst og fremst fólkið sem er í forsvari fyrir launþegahreyfinguna, því það er auðvitað að vinna sín störf, en við hin bágu og takmarkandi skilyrði, einkum úr þessum lögum sem við erum nú að leggja til að verði breytt, en ábyrgðin er miklu frekar hjá óhæfu fólki sem er að reka fyrirtæki. Við eigum að fara að beina athyglinni miklu meira þangað. Fólk er að reka fyrirtæki í stórum stíl sem ræður ekki við slíkt verkefni. En ég er sannfærður um að verði þetta frv. að lögum og muni ákveðinn hluti launþega nota sér heimildir þess muni ein stórkostleg breyting fylgja í kjölfarið. Hún er sú, að þeir sem reka fyrirtækin verði kallaðir til ábyrgðar og það er ekki lítil breyting. Og fyrir áhugamenn um skipulagsmál verkalýðshreyfingarinnar, og ég vil ekki gera lítið úr því sem þeir hafa um þetta mál að segja, vil ég undirstrika rækilega hvaða breytingu það hefði í för með sér ef rekendur fyrirtækjanna væru kallaðir til ábyrgðar í ríkari mæli en nú er gert, því sá mælir er varla nokkur, hvað sem menn segja í þjóðfélagi, sem þjóðnýtir nánast allt tap, eins og menn þekkja. Hvað halda menn að þetta ábyrgðarleysi rekenda fyrirtækjanna kosti okkur á ári hverju og mánuði hverjum og degi hverjum?

Herra forseti. Um þetta frv. mætti vitaskuld hafa miklu lengra mál. Í grg. með því er í fyrsta lagi rakin mjög rækilega saga vinnulöggjafarinnar frá 1938; hverjir voru með henni og hvers vegna, hverjir voru á móti henni og hvers vegna. Þeir sem voru á móti henni voru fyrst og fremst flokkur sem þá hét Kommúnistaflokkur Íslands, síðar Sósíalistaflokkur og enn síðar Alþýðubandalag, svo og Héðinn Valdimarsson, sem í þann mund var á útleið úr Alþýðuflokknum eins og menn þekkja. Það vantar gjarnan inn í sögulega röksemdafærslu um þetta mál, að ástæða fyrir því að forustumenn jafnaðarmanna í þann tíð voru svo ákafir í að setja lög um stéttarfélög og vinnudeilur var auðvitað sú, að það var sótt að þeim úr báðum áttum. Kommúnistar, sem þá kölluðu sig svo, og sjálfstæðismenn, sem höfðu myndað t.d. félagið Óðinn í Reykjavík, sóttu að jafnaðarmönnum úr báðum áttum, tóku saman höndum, reyndu að mynda meiri hluta og riðla þeim út úr verkalýðshreyfingunni. Þetta voru feikileg átök, sem fram fóru í skjóli heimsatburða einnig. Þetta eru kreppuár og það verða menn að skilja. Jafnaðarmenn höfðu um það forustu að setja þessi lög. Höfundur þessara laga var fyrst og fremst Guðmundur Í. Guðmundsson þá lögfræðingur í Reykjavík, en þrír aðrir sátu með honum í nefndinni, og þetta voru varnarlög gegn ásókn. Þess vegna var þetta svo rígbundið sem það er og rígbundnara en í nokkru öðru landi. Þetta voru varnarlög gegn ásókn annars vegar kommúnista og hins vegar Sjálfstæðisflokksmanna, sem þá kölluðu sig svo. Þetta bandalag kommúnista og íhaldsmanna varð miklu víðtækara stundum í kosningum hér í Reykjavík. Í Hlíf í Hafnarfirði urðu fræg átök og miklu víðar. Satt að segja er. einn kafli Íslandssögunnar enn þá óskráður, en ætti að skrá, en það er bandalag íhaldsins og kommúnista á árunum fyrir stríð, þegar þeir voru að ryðja jafnaðarmönnum út úr verkalýðshreyfingunni. Þessi lög, sem voru auðvitað stórkostlegt inngrip í frjáls félagasamtök, eru sett af þessum ástæðum. Og það vil ég segja sögulega, að ég hef mikla samúð með jafnaðarmönnum að hafa beitt sér fyrir þessari lagasetningu á þessum tíma, þó að mér finnist hins vegar að þessi takmarkandi lög séu orðin úrelt í dag, og ég reyni að setja mig í spor þeirra manna sem sáu að liðssveitir Stalíns annars vegar og liðssveitir atvinnurekenda hins vegar sóttu að þeim úr báðum áttum. Þeir vernduðu hagsmuni sína með lögum.

Gott og vel. Það er út af fyrir sig skiljanlegt, þó að það sé frekleg árás á frjáls félagasamtök. (GJG: Þeir hafa ekki einir getað komið þessum lögum í gegn.) Þeir voru studdir af framsóknarmönnum, kæri vinur, það er nú heila málið. Það voru jafnaðarmenn og framsóknarmenn, sem þá mynduðu ríkisstjórn á Íslandi, sem þessi lög settu. Og ég sé, þó að þetta sé þriðja árið sem þetta frv. er flutt, að hv. 7. þm. Reykv. hefur enn ekki lesið greinargerðina með því, en hún er veigamikið plagg og fróðleg lesning, einnig fyrir hann.

En m.ö.o.: Sögulegar aðstæður geta breyst. Nú eru 44 ár síðan þetta frv. til 1., sem þá var, varð að lögum og 44 ár eru langur tími í sögu þjóðar. Og af hverju eru menn núna að leggja til að þessum lögum sé breytt? Það er ekki þannig að menn séu að skipta sér af skipulagi alþýðusamtakanna í sjálfu sér, heldur aðeins að opna leiðir fyrir nýjar hugmyndir vegna þess að það er viðurkennt af öllum sem að þessu stóðu á sínum tíma, höfundum laganna, að þetta voru takmarkandi lög, inngrip í frjáls félagasamtök á sínum tíma, en sett af ákveðnum pólitískum ástæðum. Í þessum skilningi er verkalýðshreyfingin á Íslandi ekki frjáls félagasamtök. Það er það sem er misskilningur. Hún væri það ef engin lög væru til. Þá gætu menn skipulagt sig bara eftir hendinni. En það er ekki. Það eru lög í landinu sem leyfa sumt, leyfa t.d. stéttarfélög í kreppuskilningi orðsins, verkamenn sér, iðnaðarmenn sér, skrifstofufólk sér o.s.frv., en þau leyfa ekki annað. Þau leyfa ekki þessi þveru félög, eins og kallað er.

Herra forseti. Þetta er um sögu málsins.

Í annan stað er í grg. fyrir þessu frv. mjög ítarlega fjallað um tillögur Alþýðusambands Íslands, sem fram komu á árunum 1960–1962 að mig minnir, en í þann tíð var mikil umræða um skipulagsmál alþýðusamtakanna innan Alþýðusambands Íslands, þó að ekkert kæmi út úr því og er þó aldarfjórðungur síðan. Þá töluðu menn um að skipuleggja sig sem sambönd. Ég vil leggja á það ríka áherslu að hér er ekki um að ræða sömu hugmyndina. Hér er um að ræða að gengið er skrefinu lengra og heimilað að menn myndi með sér félag á vinnustaðnum. Ef menn vilja hins vegar mynda með sér sambönd í skyldum atvinnugreinum eða óskyldum, bara eftir hvað menn vil ja, þá er það auðvitað heimilt eins og hver önnur myndun félaga og sambanda þeirra er heimil ef menn svo kjósa. Því er ekki stjórnað að ofan eða úr neinni átt að menn skipuleggi sig með þeim hætti. Ef þeir vilja það, þá geri þeir svo vel. M.ö.o.: það er ekkert sem kemur í veg fyrir að menn skipuleggi sig eins og Alþýðusamband Íslands var að tala um eða menn sem fjölluðu um þetta hjá þeim á sinum tíma, skipuleggi sig með þeim hætti ef þeir svo kjósa. M.ö.o., herra forseti, það sem er að öðru leytinu til meginuppistaða í langri grg. með þessu frv. er lýsing á umræðum sem fram fóru innan Alþýðusambands Íslands. Og ég undirstrika þetta: Hér er um að ræða í grundvelli mínum sömu hugmyndina, en þó aðeins öðruvísi útfærða.

Í þriðja lagi, herra forseti, er ein grundvallarspurning sem mig langar mikið til að ræða í þessu sambandi. Menn hafa sagt svo: Þarna má engu breyta nema breytingin komi frá verkalýðshreyfingunni sjálfri, eins og það er kallað, og menn setja upp prestlegan svip þegar þeir taka sér þetta hugtak í munn. Ég spyr aftur, herra forseti: Hvað er verkalýðshreyfingin? Að minni hyggju er hún ekki nokkrir tugir forystumanna, heldur fólkið sem er í henni. Ég vek athygli á því að innan vébanda Alþýðusambands Íslands munu vera á fimmta tug þúsunda. (Gripið fram í: Sjötta tug.) Sjötta tug nú orðið. Því er svo oft ranglega haldið fram, að alþýðusamtökin hér séu frjáls félagasamtök í heimspekilegum skilningi orðsins, á þeim séu engar þvinganir nær eða fjær. Þetta er rangt. 2. gr. laganna frá 1938 leyfir sumt og hún bannar sumt. Það eru engin lög um íþróttahreyfinguna á Íslandi. Það eru engin lög um bindindishreyfinguna, ekki um skipulag. Það eru lög sem hún setur sjálf, eru þá landslög raunar. Það er þetta sem átt er við þegar menn tala um frjáls félagasamtök. Það eru félagasamtök sem skipuleggja sig sjálf og geta breytt skipulagi sínu sjálf, ef þau svo kjósa. En launþegahreyfingin í landinu er ekki frjáls félagahreyfing í þessum skilningi orðsins. Það eru til lög sem leyfa sumt og banna sumt. Hér er aðeins verið að leggja til að það sem nú er bannað verði leyft ef svo og svo margir launþegar við gefnar kringumstæður svo kjósa. Og það er þetta sem er kjarni málsins.

Ég er búinn að heyra margar hvellar yfirlýsingar um það, að hér sé um að ræða atlögu að launþegahreyfingunni. Hvernig í ósköpunum má það vera atlaga að launþegahreyfingunni að rétturinn til að ákveða það hvort menn semja sem vinnustaður eða sem ja sem hefðbundið stéttarfélag sé færður inn á gólfið ef 2/3 hlutar launafólks á þessum vinnustað segja já? Mér er sagt, — til að nefna eitt fyrirtæki hér í Reykjavík, það eru Flugleiðir, — að í dag semji 38 eða 39 stéttarfélög við Flugleiðir. Þetta getur ekki verið æskilegt. Það er þó út af fyrir sig, ef menn vilja hafa það svoleiðis, þeirra frjálsi réttur.

Menn segja líka: Ef svona breyting kemst á þýðir það þá ekki að það sé óánægður minni hluti? Setjum svo að það færu fram umræður hjá Flugleiðum, langar umræður, þær stæðu í heilt ár, svona eins og heilbrigt félagslíf á að vera, og úr yrði vönduð niðurstaða. Segjum svo að allir launþegar hjá Flugleiðum kysu að fara þessa leið nema flugmenn. Þeir vildu hafa sitt sérvald og gætu það einhvern veginn svona. Þá er spurt: Eru ekki 97% að kúga 3%? Ja, gott og vel. Þetta kann að vera svona. Og ég spyr: Hvað með það? En svo hafa menn sagt líka að þetta væri ægilegt og tala í nafni verkalýðshreyfingarinnar. Ég spyr: Halda menn að þessir hlutir séu einhvern veginn öðruvísi núna? Tökum samninga hjá verkamannafélaginu Dagsbrún í Reykjavík. Eru ekki sumir sem vinna hin óbreyttu störf, eru ekki sumir á krönum, eru ekki sumir við ákveðna tæknilega vinnu í uppskipun? Og hvað semur Dagsbrún um marga taxta og eru allir ánægðir þegar heildarsamningar liggja fyrir? Er kranamaðurinn ánægður með hvað hann fær miklu meira en hinn óbreytti? Er maðurinn sem vinnur þetta starfið ánægður með það hvað hann ber úr býtum miðað við hinn, sem vinnur hitt starfið? Auðvitað ekki. Auðvitað felst ekki nein meginbreyting í frv. að því er þetta varðar. Launþegar hafa ætíð borið sig saman innbyrðis og munu ætíð gera. Ég segi aðeins, að það eru meiri líkur til þess að slík samskipti launþega innbyrðis fari friðsamlega fram og með skilningi á högum hvers annars við sumar kringumstæður þegar samið er með þessum hætti.

Hins vegar segi ég enn og aftur: Hér er aðeins verið að leggja til heimild, enga skyldu, enga nauðung, og þetta verða menn að gera upp við sig með hverjum hætti gert er. En hitt skal ég viðurkenna, að ég hef stundum fyllst skelfingin þegar ég hef hlustað á þaulvana samningamenn og verkalýðsforystumenn fyrri ára og áratuga tala gegn þessari hugmynd. Þeir láta eins og allt hafi verið í lagi. Þeir láta bara eins og þetta sé býsna gott eins og það er og standa upp og belgja sig út um hvaða skelfingu mundi af leiða. Og hvað er það sem er býsna gott? Það er sú einfalda staðreynd, að í tækniframförum undanfarinna ára hefur hið ófaglærða fólk í landinu borið miklu minna úr býtum en því hefur borið. Það er margviðurkennt af helstu talsmönnum verkalýðshreyfingarinnar. Og í öðru lagi: Ævinlega setjast þeir niður í stórum samflotum, viðamiklum samningum, og segja: Nú skal samið um jöfn kjör eða jafnari kjör. Ævinlega standa þeir upp og segja: Okkur mistókst. (HBI: Er þetta nú satt?) Ójá, hv. þm. Þetta er því miður hárrétt. Og hvernig má þá vera að menn standi upp og segi: Við þessu kerfi skal ekki hróflað, þetta kerfi er heilagt.

Að lokum, herra forseti, vil ég vara við einu og það er þetta: Menn segja: Þessu má ekki breyta nema alþýðusamtökin sjálf geri um það tillögu. Að minni hyggju, þegar menn tala svo um alþýðusamtökin, eru þeir að meina aðeins örfámennan topp á pýramídanum. Og eins og ég hef margsagt: Í mínum huga eru alþýðusamtökin annað og meira en þessi fámenni toppur. Og menn hafa sagt: Þessu má ekki breyta nema alþýðusamtökin geri það sjálf. Svarið er, að alþýðusamtökin geta ekki gert það vegna þess að launþegahreyfing okkar er bundin með lógum, henni verður aðeins breytt með lögum í þessa veru. En málið er það, herra forseti, að vitaskuld er til þess ætlast að þegar umr. um þetta mál lýkur og það hefur verið sent til hv. allshn. verði það þaðan sent út sem víðast til umsagnar. Ég trúi því að það sé vilji allra hv. þm. að menn ræði um þetta og menn skoði það vandlega. Alþingi á auðvitað ekki að böðlast að neinu og það hefur aldrei staðið til. Það er ekki vilji flm. En vilji flm. stendur til þess að brjóta leið nýrri umræðu um þessi skipulagsmál að því er varðar samnings- og verkfallsrétt vegna þess að gamla skipulagið hefur ekki dugað. Það er alveg ljóst að gamla skipulagið hefur ekki dugað.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, segja það, sem mér er mikið alvörumál, að í lögunum frá 1938 var njörvaður niður skilningur ekki bara á stéttarfélögum heldur á stétt. Það er lögbundið að verkamenn, bláflibbafólkið, sé ein stétt og skrifstofufólkið, hvítflibbafólkið, sé önnur stétt. Og ég spyr, herra forseti: Getur það verið rétt að lögbinda stéttaskilning eins og hér er raunverulega gert? Ef fólkið, sem vinnur að frumframleiðslunni og skrifstofustörfunum og tölvufræðslunni og hverju sem er, vill vera saman í félagi og rjúfa þennan vítahring stéttaskilningsins, af hverju má það ekki? Af hverju bönnum við það í lögum? Og er það víst í fyrsta lagi að hagsmunamálum sé sinnt í stéttaskilningi áreiðanlega milli ‘30 og ‘40? Og í öðru lagi: Er það víst, að félagslegum þörfum sé sinnt, því að það vitum við að fyrir aldarhelmingi voru verkalýðsfélög líka miðstöðvar félagsins? Þau eru það ekki lengur nema í mjög takmörkuðum skilningi. Og ég spyr: Af hverju? Jú, jú, á því eru auðvitað margar ytri skýringar. En gengum við ekki of langt, þrátt fyrir allan sögulegan skilning og sögulega samúð á sinum tíma, í að njörva þetta skipulag niður með lögum? Gengum við ekki of langt og er ekki tímabært að breyta nákvæmlega þessu?

Ég byrjaði á því, herra forseti, að segja að tölunni 25 launþegar, sem við látum standa í þessu frv. eftir miklar umræður og athuganir, má auðveldlega breyta. Í öðru lagi tölum við um að við atkvgr. taki 2/3 hlutar launþega þátt. Þessu má líka breyta og það er vitaskuld til umr. Í þriðja lagi, herra forseti, er í 1. gr. þessa frv. kveðið á um að félmrn. setji reglugerð um framkvæmd atkvgr. Þetta á sér sínar eðlilegu skýringar. Það geta t.d. vaknað spurningar um menn í hlutastörfum, í hálfu starfi, í 2/3 starfs og fleiri spurningar af því tagi, og eðlilegast þykir, að sama reglan gildi fyrir alla og að þar með sé það ráðuneytið sem með þetta hafi að gera. Þetta er skýrt í skýringum við einstakar greinar frv., sem er að finna aftast í grg.

Að lokum, herra forseti, geri ég till. um að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.