16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (391)

40. mál, Kvikmyndasjóður Íslands

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég sagðist ekki mundu hafa neinar efnislegar umr. um þetta og mun ekki gera það reyndar. En ég verð að taka það fram í sambandi við nál., sem berast rn., að ég held að það sé nú lágmarkið, ef nefndir skila af sér álitum, að þau séu þannig úr garði gerð að efni til og orðfæri og öllum búningi að það sé fært að flytja þau. Og ég verð að segja það um þetta frv., úr því að farið er að tala efnislega um þessi mál, að það er síður en svo að þetta frv. hafi verið þannig úr garði gert, að það hafi verið fært að taka við því eins og það var, því miður. Það þurfti að gera á því ýmsar breytingar áður en hægt var að leggja það fram. Þess vegna hefur það tekið svo langan tíma að koma þessu í höfn. Því miður getur það ekki orðið fyrr en eftir nokkra daga eða svo, að hægt verði að sýna frv. í nokkurn veginn sæmilegum búningi. Ef það kemur í minn hlut að flytja þetta frv., sem líklega verður nú, þá vil ég að það sé þannig úr garði gert, að ég geti raunverulega talað máli þess.

Það er engin spurning um að það er mikil þörf á því að efla Kvikmyndasjóð. Kvikmyndagerð í okkar landi hefur eflst mjög á síðustu árum og kvikmyndagerðarmenn margir hverjir hafa ótvírætt sýnt það að þeir eru vel að því komnir að fá góðan stuðning frá opinberum aðilum og þurfa á því að halda. Þess vegna er vissulega nauðsynlegt að þetta sé gert. En við verðum þó að gera frv. þannig úr garði að það sé nokkurn veginn þinglegt og sómasamlega búið og hægt sé að standa að því. Þannig hef ég verið að reyna að vinna að þessu máli. Ég varð að reyna að bæta úr ágöllum sem voru í vinnu nefndarinnar. Ég vona sem sagt að þeir ágallar verði færri og minni þegar frv. loksins kemur fram.

Að þetta mál hafi verið rætt á milli okkar ráðh., það er hverju orði sannara. Það er langt síðan þessi mál komu til umr. innan ríkisstj., og ekki síst milli okkar fjmrh. Það gerist auðvitað strax um það bil sem þetta frv. kom fram og siðar og það var alltaf meiningin að þetta frv. yrði lagt fram á þessum vetri, enda lýsti ég yfir því að svo skyldi vera. Og þó að þess hafi ekki verið getið í löngu rollunni, sem birt hefur verið í blöðum, um væntanleg frv., þá eru það auðvitað hrein mistök. Er sjálfsagt að leiðrétta það, enda hefur það þegar komið fram nú að frv. um þetta efni verður flutt. En ég vil taka það fram sem almennt efni, úr því að farið er að ræða málin á þessum grundvelli, að það er algert lágmark, þegar þingkjörnar nefndir taka sig til og semja frv. eða álit, að það sé gert sómasamlega.