16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í B-deild Alþingistíðinda. (405)

270. mál, endurbygging Egilsstaðaflugvallar

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vona að mér fyrirgefist þó að ég biðji um orðið í annað skipti, því að þetta er í fyrsta skipti sem ég leyfi mér að opna munninn á þessari samkomu og hef oft þurft að þegja hér í öðrum herbergjum í húsinu. Þetta eru svo sannarlega bjartsýnismenn og djarfhuga, Austfirðingar. Ætla ég ekki að gera grín að því, því að ég er dálítið tengdur Austfirðingum. En þegar menn koma hér upp og segjast vilja fá þotuflugvöll til þess að geta flutt út landbúnaðarafurðir, þá setja þeir hér um bil met. Ég veit ekki til þess að menn flytji fiskinn á milli landa nema helst í afgömlum druslum, sem ekkert kosta, því að það má ekki kosta allt of mikið að fara heimsálfanna á milli með fiskinn. Hann er nú mest fluttur með skipum. Þetta er sem sagt alveg hámark bjartsýninnar. Þessi maður ætti að fá dönsku orðuna — eða voru það peningar — út á að geta talað svona. Ég á bágt með að trúa því að það verði svo mikil sóknin að eða frá Austfjörðum að menn þurfi að fá Boeing 727, þó ekki væri um stærri flugvélar að tefla, vegna þess að þarna er bara um 180 manna flugvél að ræða, og þó að hæstv. ráðh. Hjörleifur Guttormsson ætli sér að gera mikið í iðnaðarmálum á Austfjörðum, t.d. að reisa þar stórkostlega tapverksmiðju til þess að framleiða málm sem enginn vill kaupa, og hafi marga menn á sínum snærum og þyrfti að fara með eins og fimm starfshópa með sér austur, þá trúi ég ekki að það sé svo oft á ári að hann þurfi að hafa þotu undir þá.

Það eru auðvitað mjög gild rök að Austfirðir eru nær meginlandinu. Það munar líklega í þotuflugi svona ca. 20 mínútum. Ég held að það vegi nú ekkert hvort menn eru 20 mínútunum lengur eða skemur í loftinu á þessu strandflugi sem Evrópuflugið er, varla hægt að kalla það millilandaflug. En að það sé framtíðin í flugmálum á Íslandi að menn ætli sér að fara að miða við þá þróun að hér verði teknar upp þotur í innanlandsflugi, það er mikill misskilningur. Ég er alveg viss um að þróunin verður þveröfug, að við verðum aðallega með vélar sem þurfa stuttar brautir og geta notað þá flugvelli sem við höfum þegar, því að við höfum litla peninga til að gera stóra og dýra flugvelli. Þarna hugsa menn því í þveröfuga átt. Þegar menn eru að tala um hluti eins og flug, þá eiga þeir að keyra áfram en ekki nota bakkgírinn.

Það getur hugsast að það þurfi að senda mjög mikilvæga menn í skyndingu að kanna iðnaðarmálin fyrir austan, og þá nefndi hv. þm. litla þotu. Þær þurfa miklu ódýrari flugvelli heldur en svona stórar vöruflutningavélar með landbúnaðarvörurnar. Það þarf mismikinn styrkleika brauta eftir þunga. Ætti verkfræðingurinn að vita það og ég vona að frændi minn, sem á að fara að kanna þetta, hann Sveinn fyrir austan, þekki þetta aðeins betur.