17.11.1982
Efri deild: 10. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í B-deild Alþingistíðinda. (420)

76. mál, tollskrá

Helgi Seljan:

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af frv. þessu.

Mér þykir það fullrar athygli vert og vænti góðrar skoðunar þess í nefnd, jafnvel þó fjh.- og viðskn. sé, og jákvæðrar afgreiðslu þar, því þó að landbn. sé ágætis nefnd er fjh.- og viðskn. það ekki síður, þó hún fái kannske öllu flóknari mál og viðameiri til meðferðar.

Raunar vildi ég taka það fram í sambandi við þetta, að það er fjölmargt í tollalögum okkar sem þyrfti að endurskoða. Það er nú einu sinni svo, að ef maður fer að glugga í þau mál eitthvað er þar slíkur frumskógur á ferðinni að engu tali tekur. Sannast sagna rekur maður sig þar oft á margt undarlegt, sem áreiðanlega er í miklu innbyrðis ósamræmi og mótsagnakennt í hvívetna, þar sem hlið við hlið eru vörur, sem eru miklar nauðsynjavörur, undir sama tollskrárnúmeri og svo aftur vörur, sem hreinlega hljóta að teljast lúxusvörur. Ég geri mér grein fyrir því, að það er mikið verk og vandasamt að endurskoða þessi tollalög og það er erfitt að fullnægja öllu réttlæti þar þegar svo viðkvæm mál eru á ferðinni.

Hér í þinginu koma öðru hvoru upp mál af þessu tagi og þá er það kannske hending ein sem ræður því hvar niður er borið. Oftast nær held ég að ástæðan sé sú, að menn hafa rekið sig óþyrmilega á þetta, annaðhvort sjálfir eða fengið um það ábendingar frá ákveðnum félagasamtökum eða aðilum er hafa rekið sig þar á óhæfu. Ég bendi t.d. á, þó að það sé óskylt mál þessu út af fyrir sig, snertir það tollskrána, tolla á ýmis þau bráðnauðsynlegu tæki sem öryrkjar og eldra fólk þurfa sér í lagi á að halda. Þar hefur verið á mörgum sviðum um hátollavörur að ræða, sem auðvitað er óhæfa með öllu, en mál sem hafa komið inn á það hafa runnið í gegnum þingið og tollskráin fengið sína leiðréttingu sem betur fer því að þm. eru réttsýnir þegar á þetta er beinlínis bent og menn sjá þarna hrópandi ósamræmi.

Varðandi þetta sérstaka mál, sem hér er flutt og snertir eina atvinnugrein, er það auðvitað mála sannast að milli atvinnugreina er talsverður mismunur í tollamálum. Reyndar er líka oft illskiljanlegt ósamræmi innan sömu atvinnugreinar og sums staðar þannig ranglæti að illt er við að una og menn hafa á bent.

Hv. flm. er nú öðrum betur kunnugur þessu úr sínu starfi hvað landbúnaðinn varðar og ég vil gjarnan leggja honum lið með ákveðna leiðréttingu á þessu og mun leita eftir stuðningi ráðuneytis og ráðh. við að úrbætur fáist svo sem frekast er unnt. Ég ræddi þetta mál um svipað leyti og það kom fram á Alþingi í fyrra við hæstv. fjmrh., sem var nú rétt í lok þingsins þá eins og hv. flm. kom inn á, og þykist mega fullyrða að hann hefur á þessu fullan skilning, þó að ekki hafi verið þarna úr bætt. Ég vænti þess því, að fjh.- og viðskn., sú ágæta nefnd, fái nokkurt liðsinni til leiðréttinga, ef svo sýnist þeim góðu mönnum sem þangað koma frá fjmrn. við umfjöllun um málið, þó ég vilji ekki á þessu stigi fullyrða þar um of.

Ég get hins vegar tekið undir rökstuðninginn sem fylgir þessu máli og vænti þess að málið fái á einhvern hátt sem farsælastar lyktir, því að tekjutapið, eins og réttilega er á bent, er svo hverfandi að ekki ætti það að standa í vegi. Að vísu getur það verið nokkurt mál fyrir bændur að lagfæring verði gerð, en fyrst og fremst veldur þetta tollamál mönnum vissri gremju, því að bæði er tekjutapið fyrir ríkissjóð og eins flestir aðrir þættir málsins svo lítið mál að það er í raun og veru sjálfsagt að fá á því nauðsynlega leiðréttingu.