22.11.1982
Neðri deild: 11. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (496)

9. mál, atvinnulýðræði

Baldur Óskarsson:

Herra forseti. Ég fagna því að sjálfsögðu að atvinnulýðræðismál og réttur starfsfólks í fyrirtækjum sé hér til umr. Sannleikurinn er sá, eins og hér hefur komið fram, að mjög lítil umræða hefur átt sér stað í íslenska þjóðfélaginu um þessi mál. Sérstaklega ber að harma að verkalýðshreyfingin skuli ekki hafa tekið þetta mál upp á sína arma af meiri þrótti en við höfum orðið vör við undanfarið.

Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar í fyrirtækjum hér, bæði hlutafélögum og samvinnufélögum. Í kaupfélögunum flestum kjósa starfsmenn í stjórnir félaganna, sömuleiðis í ríkisverksmiðjunum, til að tryggja meðákvörðunarrétt verkafólksins, þrátt fyrir það hygg ég að ekki hafi orðið ýkja mikil breyting á stjórnun fyrirtækjanna. Sannleikurinn er sá, að íslenskt atvinnulíf er líka þannig að það er að ýmsu leyti erfiðara að koma þessu við hér en t.d. í nágrannalöndunum. En hjá nágrönnum okkar hafa lög um meðákvörðunarrétt verið í gildi um mjög langan tíma og af því verið nokkuð góð reynsla þar. Fyrirtækin hér eru aftur á móti mjög smá og mörg og þess vegna að ýmsu leyti erfiðara að koma þessu fyrir í atvinnulífinu hér en á Norðurlöndum. Sannleikurinn er líka sá, að verkalýðshreyfingin í nágrannalöndunum beinir augum sínum nú fremur að því sem kallast mætti efnahagslýðræði. Það eru mjög athyglisverðar tilraunir sem verið er að gera í Svíþjóð með hina svokölluðu launþegasjóði og ég er sannfærður um að það er einmitt sú hlið málsins sem verkalýðshreyfingin hér mun hafa áhuga fyrir.

Ég tel að það sé mjög vænlegt að fara að með þeim hætti sem hæstv. félmrh. Svavar Gestsson var að gera grein fyrir áðan, að leitað yrði til verkalýðshreyfingarinnar og aðila vinnumarkaðarins um það með hvaða hætti þeir óska að skipa þessum málum og þau skref sem stigin verði í löggjafarátt hér varðandi þetta taki mið af vilja þessara aðila, og þá auðvitað sérstaklega sjónarmiðum verkalýðshreyfingarinnar.

Ég vil sérstaklega taka undir það sem hæstv. ráðh. Svavar Gestsson sagði um örtölvubyltinguna og þá hættu sem launamönnum getur verið búin af því að hún haldi innreið sína í íslenskt atvinnulíf, að hún leiði það af sér að mönnum verði sagt upp störfum í stórum stíl. Ef við innleiðum þessar nefndir sem hér er verið að gera till. um, samstarfsnefndir í fyrirtækjum, þá er eitt það þýðingarmesta sem þessar samstarfsnefndir ættu að fjalla um einmitt uppsagnir starfsfólks. Ég held að ef lög verða innleidd um þessi mál á annað borð þá sé nauðsynlegt að veita þessum nefndum sérstakan rétt til að fjalla um allar uppsagnir í fyrirtækjunum áður en þær koma til framkvæmda. Ég held sömuleiðis að ekki væri óeðlilegt að samstarfsnefndirnar fengju líka rétt til að fjalla um ráðningu forstjóra fyrirtækjanna. Það er áreiðanlega mikið hagsmunaatriði fyrir hvert fyrirtæki að það séu góðir menn sem stjórni þeim og þeir stjórni í samvinnu við fólkið og gott samstarf sé milli stjórnenda fyrirtækjanna og starfsfólksins. Það er fyllilega eðlilegt að starfsfólkið fái að ræða um og hafa áhrif á hverjir ráðast til að stjórna fyrirtækjunum. En auðvitað er meginatriðið að þessar nefndir verði settar á laggirnar og eins og hér er gert ráð fyrir þá fjalli þær sérstaklega um uppsagnir starfsfólks. Það mætti hugsa sér að óheimilt væri að segja fólki upp störfum nema um það hafi verið fjallað í þessum samstarfsnefndum.

Mér sýnist full ástæða til að löggjafarvaldið láti atvinnulýðræði til sína taka og beini því sérstaklega til verkalýðshreyfingarinnar að samstarf náist milli hennar og löggjafarvaldsins um að skipa þessum málum þannig að verkalýðshreyfingin telji sér hag af því. En ég vil sérstaklega undirstrika varðandi umræðu um atvinnulýðræði og meðákvörðunarrétt að það þarf að leggja ríka áherslu á að verkafólkið sjálft eignist fyrirtækin. Ég held að við eigum að stíga stórt skref í þessum efnum á næstu árum og mér finnst sérstaklega athugandi að kanna þá þessa sjóðaleið sem nú er stefnt að í Svíþjóð.

Í sumum fyrirtækjum þar sem starfsfólkið hefur rétt til þess að kjósa menn í stjórn hefur það sannarlega haft ýmislegt gott í för með sér. En því miður hefur reynslan af því, t.d. í kaupfélögunum og annars staðar, og eins af þeim samstarfsnefndum, sem þegar hafa verið settar á fót í fyrirtækjum á Íslandi, verið sú að það hefur verið heldur lítið gagn af þeim. Og ég hygg að ástæðan sé einmitt sú sem hæstv. ráðh. Svavar Gestsson benti hér á áðan, að það hefur ekki farið fram nógu mikil umræða í verkalýðshreyfingunni á vinnustöðunum og í þjóðfélaginu um þessi mál og alls ekki nægilega mikil fræðsla. Við skulum gera okkur alveg grein fyrir því að þau réttindi sem verkafólkið fengi með því sem hér er lagt til eru harla lítils virði ef ekki fylgir í kjölfarið mjög mikil fræðslustarfsemi um fyrirtækin og það jafnframt, að fólkið hafi aðgang að öllum upplýsingum sem varða rekstur fyrirtækjanna.