22.11.1982
Neðri deild: 11. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (497)

9. mál, atvinnulýðræði

Flm.(Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Eins og síðasti ræðumaður sagði snýst umræðan á Norðurlöndum, þar sem menn hafa haft meðákvörðunarréttinn í mörg ár, nú mjög um með hvaða hætti megi tryggja launþegum aukin efnahagsleg áhrif. Auðvitað er þetta ekki nýtt mál. Þetta er mál jafngamalt sósíalismanum þ.e. með hvaða hætti eigi að tryggja það að fyrirtæki séu rekin í þágu almannaheilla og að launþegarnir njóti réttmæts arðs af vinnu sinni. Fyrst var niðurstaðan sú, eins og menn muna, að þessi réttindi ættu menn að öðlast með þjóðnýtingu atvinnufyrirtækjanna. Frá því hefur almennt verið horfið m.a. út frá þeirri einföldu staðreynd að það er í raun svo um flest fyrirtæki að það eru ekki hinir skráðu eigendur, sem raunverulega skipta öllu máli, heldur þeir sem með stjórnina fara. Það eru stjórnendur fyrirtækjanna sem raunverulega ráða ferðinni og þeir þurfa ekki endilega að vera um leið eigendur fyrirtækjanna. Dæmi um þetta eru t.d. almenningshlutafélögin í öllum hinum vestræna heimi, þar sem almenningur er kannske skráður eigandi að 50–70% hlutafjár, en það eru hinir raunverulegu stjórnendur fyrirtækjanna sem ráða ferðinni en ekki skráðir eigendur þeirra. Slík dæmi þekkjum við að sjálfsögðu líka úr íslenskum rekstri, bæði hlutafélagarekstri og samvinnufélagarekstri. Þó viðkomandi félög séu formlega skráð eign jafnvel þjóðarinnar eins og oft er sagt, þá eru það ekki eigendurnir sem endilega ráða ferðinni, heldur stjórnendurnir sem e.t.v. eru ekki stærri eigendur en Jón Jónsson á götunni sem fær þó aldrei nálægt viðkomandi fyrirtæki að koma.

Hugmyndirnar um launþegasjóð og efnahagslýðræði eru gamlar. Þetta eru hugmyndir sem fyrst komu upp og voru settar fram í tillöguformi af danska málmiðnaðarsambandinu. Voru þá kenndar við Viggo Kampman. Um þetta var mjög fjallað í Danmörku á síðustu árum sjöunda áratugarins. Ég man eftir að ég skrifaði greinaflokk í Alþýðublaðið veturinn 1970–1971 þar sem ég reyndi að gera grein fyrir tillögum um efnahagslýðræði og launþegasjóði sem þá voru kenndar við Kampman og danska málmiðnaðarsambandið. Tillögurnar sem nú eru væntanlegar í framkvæmd í Svíþjóð eru byggðar á þessum hugmyndum. Um þessar hugmyndir er einnig fjallað í þeirri ítarlegu skýrslu, þeirri bláu bók sem gefin var út á vegum breska þingsins árið 1977.

Framkvæmd hins svokallaða efnahagslýðræðis er aðallega með tvennum hætti. Í Þýskalandi er framkvæmdin á þann veg að starfsmenn fyrirtækja fá hlutdeild í arði þeirra. Sú framkvæmd hefur ekki reynst nægilega vel og m.a. var tekin afstaða gegn henni af öllum aðilum sem um málið fjölluðu á vegum breska þingsins. Skýringin var sú, að starfsmenn, sem eiga langan starfsaldur að baki t.d. við stóriðnfyrirtæki, eru farnir að hafa mjög verulegan hluta tekna sinna í formi arðgreiðslna af hlutabréfum sem þeir hafa fengið í áranna rás. Þessir starfsmenn hafa oft og tíðum tekið afstöðu í kaup- og kjaramálum gegn yngri starfsmönnum sem hafa minni fjárhagsleg tengsl við fyrirtækið, þannig að hægt hefur verið að tefla eldri starfsmönnunum gegn kauphækkunarkröfum hinna yngri út frá þeim forsendum að verði látið eftir kröfum yngra fólksins um hækkuð laun, þá skerðist arðgreiðslur hinna eldri starfsmanna. Þannig er raunverulega hægt að tefla einum starfsmanni gegn öðrum. Þetta var ástæðan fyrir því að t.d. í fyrrnefndri skýrslu frá breska þinginu er lagst gegn því að efnahagslýðræði af þessu tagi verði tekið upp í Bretlandi með löggjöf.

Hin hugmyndin er sú sem menn eru nú að framkvæma í Svíþjóð varðandi launþegasjóðina. En á henni er líka ákveðinn galli. Á henni er t.d. sá galli að með því er ekki endilega verið að veita hinum almenna launþega nein aukin réttindi. Með því er fyrst og fremst verið að styrkja verkalýðshreyfinguna sem stofnun og þá e.t.v. stjórnendur hennar. Menn geta út af fyrir sig velt vöngum yfir því frá sjónarmiði vinstra fólks, sem vill auka almenn mannréttindi í þjóðfélaginu, hvort það sé líkleg leið til að auka hin almennu mannréttindi að fela hinum fáu útvöldu í verkalýðshreyfingunni, sem þar hafa forustuhlutverk með höndum, hversu góðir sem þeir nú eru, þau stórauknu völd sem felast í launþegasjóðunum sem Svíarnir eru að tala um. Á yfirborðinu virðist þetta vera mjög mikil aukning á réttindum hins almenna manns, en það er ekki víst að svo verði í framkvæmdinni. Málin eru að snúast þannig í Svíþjóð, t.d. í sambandi við meðákvörðunarréttinn og hugmyndirnar um stjórnaraðild almennings, að verkalýðshreyfingin í Svíþjóð er að koma sér upp atvinnustjórnarmönnum, þ.e. mönnum sem bókstaflega fást við að sitja í stjórnum atvinnufyrirtækja, kjörnir þangað af verkalýðshreyfingunni. Og þá fer nú að muna ákaflega litlu á því fyrirkomulagi og því sem fyrir var út frá sjónarmiði hins almenna launþega. Hann stendur e.t.v. ekkert nær þeim atvinnustjórnarmönnum verkalýðshreyfingarinnar, sem á þann hátt eru settir inn í stjórnir atvinnufyrirtækja, heldur en þeim stjórnunarmönnum sem kjörnir eru af viðkomandi eigendum. Allt þetta þarf því að sjálfsögðu að athuga. Markmið okkar flutningsmanna þessa frv. er að reyna að tryggja að þau auknu mannréttindi, sem í frv. er lagt til að veitt verði, skili sér til almennings en stöðvist ekki á leiðinni hjá einhverjum stofnunum, t.d. verkalýðsfélögum, sem vissulega eru þarfar og góðar stofnanir. Menn skyldu gæta þess að gera greinarmun á því annars vegar að styrkja völd og aðstöðu þeirra stofnana og hins vegar að styrkja réttindi almenna launafólksins. Það þarf ekki alltaf endilega að fylgjast að þó að það gerist oft og tíðum. Sem sé, ég vísa mönnum á þá ítarlegu og greinargóðu skýrslu sem var sérstaklega útgefin af breska þinginu nákvæmlega um efnahags- og atvinnulýðræði. Hún er mjög forvitnileg til íhugunar því að þar koma fram bæði kostir og gallar allra þeirra framkvæmdaatriða sem ég hef hér nefnt.

Hæstv. ráðh. ræddi um framleiðslusamvinnufélögin. Það er alveg rétt, þau eru þörf nýbreytni í íslensku atvinnulífi og í íslenskum atvinnurekstri. En það er aðeins nýtt eignarform á atvinnufyrirtækjum. Það lagfærir ekkert stöðu þeirra launþega sem fyrir eru í öðrum tegundum atvinnurekstrar. Framleiðslusamvinnufélögin eru góð út af fyrir sig gagnvart þeim sem þar starfa. En þau hafa engu breytt varðandi aðstöðu þess fólks t.d. sem starfar hjá einkafyrirtækjum, hlutafélögum, samvinnufélögum eða öðrum slíkum. Þá hefur samvinnuhreyfingin t.d. veitt starfsmönnum sínum réttindi til að kjósa að mig minnir tvo starfsmenn samvinnufélagsskaparins til setu í stjórn SÍS. En þessir fulltrúar sitja þar við takmörkuð réttindi. Þeir hafa málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt. Þeir sitja þar ekki jafn réttháir og aðrir stjórnarmenn.

Hæstv. ráðh. kom einnig sérstaklega inn á það með réttu að ASÍ hefði ekki rætt þessi mál nægilega. Það er út af fyrir sig alveg rétt. Hins vegar hefur Alþýðusambandið sett á stofn nefnd innan sinna vébanda til að fjalla um atvinnulýðræðismálin og stefnu Alþýðusambandsins í þeim efnum, í kjölfar þeirrar samþykktar 34. þings ASÍ sem hæstv. ráðh. vitnaði í hér áðan og er raunar prentuð sem fylgiskjal með frv. mínu. Ég hef rætt við nokkra fulltrúa í þeirri nefnd og komið á framfæri þeim upplýsingum sem ég hef um þessi mál. Eftir viðræður mínar við þá veit ég að a.m.k. þeir fulltrúar eru allir af vilja gerðir til þess að fá fram ákvarðanir fyrir hönd Alþýðusambandsins í því máli. Því það er einnig rétt hjá hæstv. félmrh. að nokkur ágreiningur er uppi innan Alþýðusambandsins um hvort rétt sé að leggja jafnmikla áherslu á atvinnulýðræðismálið og t.d. við Alþfl.-menn viljum gera.

Þá minntist hæstv. félmrh. á örtölvubyltinguna sem allt of lítil umræða hefur orðið um í samfélaginu. Ég vil taka undir þau viðvörunarorð sem hann lét falla í sambandi við þau mál. Ég óttast að menn fljóti sofandi að feigðarósi í þeim efnum. Þegar menn tala um tölvubyltingu hér á Íslandi er sú bylting í flestra hugum eitthvað í sambandi við almenn skrifstofustörf, bankastörf og annað þess háttar, vinnusparandi tæki á þeim vettvangi. Mesta byltingin í örtölvugerð hefur hins vegar úti í heimi orðið í sambandi við rekstur stórfyrirtækja, við stóriðju og alls konar fjöldaframleiðslu. Við höfum stóriðju hér á Íslandi þar sem er okkar fiskiðnaður. Það skyldi nú ekki vera að það yrðu ekki ýkja mörg ár þangað til örtölvubyltingin heldur innreið sína í íslenska stóriðju. Menn, sem eru fróðir um þessi mál, hafa gengið á fund þingflokks Alþfl. til að ræða sérstaklega við okkur um þessi mal og vara okkur við þeirri þróun sem þeir telja að sé á næsta leiti. Þeir töldu að það væri e.t.v. ekki miklu lengra en 5–6 ár þangað til örtölvur tækju við ýmsum viðfangsefnum í fiskiðnaði, sem mannshöndin vinnur nú, t.d. við úrskurð á fiskflökum. Þeir töldu að ekki mundi líða á löngu þar til það gæti gerst. Og ég óttast að verkalýðshreyfingin og samfélagið í heild séu alls ekki við því búin að mæta þeirri fyrirsjáanlegu þróun, hvort sem sú umrædda bylting verður eftir 5 ár, 4 ár eða 6 ár. Hins vegar held ég að það sé svo stórt mál sem hæstv. félmrh. kom inn á að mjög vafasamt sé að það geti átt heima í þeirri löggjöf sem við erum að ræða um og takmarkast við meðákvörðunarrétt starfsfólks. Það er nauðsynlegt að hæstv. ráðh. beiti sér fyrir því að menn fari að hugleiða viðbrögð okkar Íslendinga við þeim gífurlegu breytingum sem eru í aðsigi vegna örtölvubyltingarinnar. En ég er ekki sannfærður um að það stóra mál eigi að verða til að tefja frumvarpssmíði um meðákvörðunarrétt starfsfólks í fyrirtækjum. Þar er um að ræða málefni sem liggur nokkuð ljóst fyrir og hefur fengið mikla umfjöllun í samfélaginu og ætti ekki að taka mikinn tíma að ganga þannig frá að Alþingi geti lagt blessun sína yfir það.

Að lokum herra forseti, vil ég aðeins leyfa mér að þakka hæstv. félmrh. sérstaklega fyrir mjög jákvæðar undirtektir hans við þetta frv. Ég hygg að ég geti lýst því yfir fyrir hönd míns flokks að við séum mjög ánægð með það, ef hæstv. ráðh. vill verða við þeirri áskorun okkar að beita sér fyrir því að fela nefnd, eins og hann sagði sjálfur, ekki bara að fjalla um atvinnulýðræðismálin og reyna að ná samkomulagi um lausn þeirra, heldur að semja frumvarp um þau efni til að leggja fyrir hv. Alþingi.

Ég fagna því mjög að hæstv. félmrh. skuli fallast á þá niðurstöðu sem við óskuðum eftir í umræðum um málið á Alþingi hér í fyrra. Ég held að mér sé óhætt að lýsa því yfir fyrir hönd míns flokks að Alþfl. er reiðubúinn til samstarfs um slíka lausn á málinu.