25.11.1982
Sameinað þing: 21. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (558)

102. mál, fjárhagsstaða láglaunafólks og lífeyrisþega

Helgi Seljan:

Herra forseti. Sem einn af flm. þessarar till. þarf ég ekki að tala um hana efnislega, enda hafa henni verið gerð fyllilega góð skil í máli hv. 1. flm. Það var aðeins í sambandi við orð hv. 4. þm. Vesturl. sem ég kom hér upp. Ég vildi aðeins rétt minna á það, að enda þótt litið hafi verið gert varðandi skipulag fólks- og vöruflutninga þá var þó gerð ein heiðarleg tilraun til þess arna. Frá henni vildi ég gjarnan greina hér.

Þegar Ragnar Arnalds varð samgrh. setti hann nefnd á laggirnar til þess að vinna sérstaklega að því að samhæfa og samræma sem allra best allt skipulag fólks- og vöruflutninga í landinu. Til þessarar nefndar kallaði hann bæði stjórnmálamenn og ýmsa fulltrúa hagsmunaaðila, sem hlut ættu að þessu, fulltrúa Pósts og síma, fulltrúa flugfélaga, fulltrúa Skipaútgerðar ríkisins, fulltrúa sérleyfishafa og aðra fulltrúa þeirra sem þarna áttu hagsmuna að gæta. Þetta nefndarstarf fór allvel af stað og því var sérstaklega beint að því markmiði sem hér er um talað, þ.e. að huga að umferðarmiðstöðvum. Það var tiltölulega gott samkomulag í þessari nefnd, sem ég get sagt hér af því ég átti sæti í henni. Mér þótti vel unnið þar og menn lögðu sig mjög verulega í líma við að ná endum saman, vegna þess að þarna eru allt of margir lausir endar. Við vorum rétt í þann veginn að ganga til viðræðna við fulltrúa landshlutasamtakanna um það fyrirkomulag sem best gæti þjónað hverjum landshluta fyrir sig þegar skyndileg stjórnarskipti urðu og menn fóru í kosningafrí árið 1979. Síðan kom einhver lægð í þetta og allt í einu fengum við nefndarmenn svo bréf um það að við værum vinsamlegast leystir frá störfum af hæstv. núverandi samgrh. Steingrími Hermannssyni og þetta yrði hins vegar unnið af nefnd á vegum rn. sem mundi taka málið til svipaðrar umfjöllunar.

Af því að mikil vinna hafði verið í þetta lögð og miklum gögnum safnað frá hinum ýmsu aðilum, þá vona ég svo sannarlega að þessi vinna sé til staðar einhvers staðar uppi í ráðuneytinu, þó að ég hafi ekki orðið var við neinn árangur frá þeirri nefnd sem hæstv. samgrh. núverandi hlýtur að hafa skipað í framhaldi af þessu. Það læðist hins vegar að mér sá grunur, að ekki muni mikill vinnuhraði í þeirri nefnd og menn hafi ekki mikla von um árangur. Ég sé ekki betur en að fjórir hv. samflokksmenn hæstv. samgrh. séu búnir að flytja till. hér um skipulag fólks- og vöruflutninga, þeir hv. þm. Davíð Aðalsteinsson, Páll Pétursson, Sigurgeir Bóasson og Alexander Stefánsson. Sýnir það glögglega að þeim þykir ekki af veita að ýta við sínum ráðh. með þetta mál. Ber að þakka þeim fyrir það ef hann hefur sofnað Þyrnirósarsvefni í þessum efnum.