25.11.1982
Sameinað þing: 21. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 859 í B-deild Alþingistíðinda. (567)

44. mál, endurreisn Reykholtsstaðar

Tryggvi Gunnarsson:

Herra forseti. Ég tek það strax skýrt fram að ég er ekki á móti endurreisn Reykholts á nokkurn máta, en ef það á að koma fjárveiting frá Alþingi til Reykholtsstaðar vil ég benda á það um leið í þessu sambandi að víða um land eru sögustaðir sem eru kannske ekki jafnhátt skrifaðir, en fordæmið væri fyrir hendi ef verður veitt fjármagn til þessarar endurreisnar. Þar sem ég er gamall íhaldsmaður held ég að þetta sé örlítið varhugavert. Ég tek það skýrt fram að ég hef ekkert á móti Reykholti eða nokkrum sögustöðum, en ég vil að frumkvæðið komi úr hverri heimabyggð og þeir jafnvel borgi sem vilja fá sinn stað og sína sveit dregin fram í sviðsljósið öðrum fremur. Þarna er ekki verið að álasa á nokkurn hátt þm. Vesturlands. Þetta er bara áminning til okkar allra í þessu sambandi.

Við getum bent á sögustaði sem eru jafnvel ekki minna frægir en staðurinn sem Snorri Sturluson var veginn á. Við getum bent á svo margt og margt.