25.11.1982
Sameinað þing: 21. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í B-deild Alþingistíðinda. (569)

44. mál, endurreisn Reykholtsstaðar

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að blanda mér í þessar umr., en tvær síðustu ræður, sem hér hafa verið fluttar, urðu þess valdandi að mér finnst nauðsynlegt að bæta nokkrum orðum við þessa umr.

Í fyrsta lagi vegna þeirrar ræðu sem hér var síðast flutt og hv. 5. þm. Norðurl. v. flutti, þá held ég að það verði að gera þá kröfu að menn lesi þskj. og fari rétt með þegar þeir koma í ræðustól. Þessi till. fjallar ekki um uppbyggingu Reykholtsskóla, hún fjallar um uppbyggingu Reykholtsstaðar. Mál Reykholtsskóla er allt annars eðlis og allt öðruvísi. (Gripið fram í.) Ég held að Reykholtsskóli hafi í rauninni, ef við tölum um hann sérstaklega, verið settur hjá um langa hríð í fjárveitingum meðan kappkostað hefur verið að ljúka öðrum verkefnum við aðra héraðsskóla. Það er þess vegna bæði eðlilegt og sanngjarnt að röðin sé nú að koma að þeim skóla. Það hefur verið sá háttur hafður á með héraðsskólana að einn skóli hefur verið látinn njóta forgangs að jafnaði hverju sinni um fjárveitingar þannig að þar væri eitthvað hægt að gera sem um munaði. Þessi þáltill., sem allir þm. Vestlendinga flytja, fjallar um endurreisn og uppbyggingu Reykholtsstaðar, ekki Reykholtsskóla. Skólinn er hluti staðarins, ekki staðurinn allur.

Auðvitað er það svo, að það eru ýmsir fleiri sögustaðir í okkar ágæta landi sem sýna ber sóma og það er ekki þar með sagt að það eigi ógert að láta þó að þessi till. sé flutt. Það bið ég menn að hafa í huga. Það er vissulega til vansa, hvernig aðbúnaður hefur verið og er í Reykholti, fyrir alla þá sem þangað koma og fyrir okkur sem þjóð. Þessi sögustaður hefur verið þannig og er að þar er ýmislegt sem er okkur til háborinnar skammar, því miður.