29.11.1982
Neðri deild: 13. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (585)

25. mál, almannatryggingar

Flm. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr. um breyt. á lögum nr. 67 frá 1971 um almannatryggingar, er auk mín flutt af hv. þm. Árna Gunnarssyni, Jóhönnu Sigurðardóttur, Jóni Baldvin Hannibalssyni, Karvel Pálmasyni og Sighvati Björgvinssyni.

Frv. er einfalt í sniðum, en hefur þó, ef samþykki verður, áhrif til hagsbóta fyrir þá rúmlega 1740 elli- og örorkulífeyrisþega sem úr minnstu hafa að spila, án þess að kosta mjög mikið ef miðað er við aðrar greiðslur almannatrygginga.

Frv. gengur út á að heimila Tryggingastofnun ríkisins að tvöfalda svokallaða vasapeninga, sem þeir einir fá greidda sem eru algjörlega tekjulausir og eru langdvölum á dvalarheimilum aldraðra, hjúkrunarheimilum, sjúkrahúsum og öðrum stofnunum þar sem almannatryggingar greiða vistunarkostnaðinn beint eða óbeint að miklu eða öllu leyti.

Í núgildandi lögum segir að þessar greiðslur megi nema allt að 25% af lágmarksbótum. Þetta ákvæði var sett í lög þegar lítill munur var á lágmarksbótum og hámarksbótum, þ.e. áður en tekjutrygging var tekin upp. Nú er þessi munur mikill.

Frv. gerir ráð fyrir að í stað „allt að 25% af lágmarksbótum“ komi: allt að 40% af hámarksbótum. Þetta heimilar tvöföldun „vasapeninganna“ frá því sem nú er og vel það.

Í ágústmánuði s.l. voru það 1742 sem fengu „vasapeninga“ greidda, 1080 ellilífeyrisþegar og 662 örorkulífeyrisþegar. Þetta fólk hefur, eins og áður segir, alls engar aðrar tekjur og á engan rétt í lífeyrissjóðum eða neitt í þá áttina. Stofnun almennra lífeyrissjóða árið 1970, lögin um eftirlaun til aldraðra árið 1979 og í framhaldi af þeim lögin um skylduaðild að lífeyrissjóði valda því, að því fólki fer ört fækkandi, sem betur fer, sem kemst á eftirlaunaaldur og alls engar tekjur hefur aðrar en bætur almannatrygginga. Umræddum bótaþegum má skipta í tvo hópa: Annars vegar eru þeir sem lokið hafa langri starfsævi án þess að hafa óðlast neins konar réttindi í lífeyrissjóðum. Hins vegar eru þeir sem vegna sjúkdóma eða örorku hafa ekki getað unnið á hinum almenna vinnumarkaði og því ekki haft tækifæri til að vinna sér réttindi í lífeyrissjóðum.

„Vasapeningarnir“ eru frá 1. sept. s.l. 742 kr. á mánuði. Sjá allir að það dugar skammt til greiðslu á ýmsum nauðsynjum, svo sem fatnaði og tóbaki þar sem um það er að ræða, að ekki sé talað um ýmis áhugamál sem margt af þessu fólki að sjálfsögðu hefur. Nú hefur verið tilkynnt að „vasapeningar“ muni hækka 1. des. um 7.72%, þegar verðbólgan hækkar um 17.51%. Nú á að skerða greiðslu til þessa fólks um 10%. Þetta fólk, sem hefur 742 kr. á mánuði, er látið sitja í sama báti og venjulegir launþegar. Það á að skerða í reynd um 10% þessar smánargreiðslur.

Það er skoðun flm. þessa frv. að „vasapeningana“ þurfi að tvöfalda og það fljótt. Heildarkostnaður á ári miðað við verðlag í dag vegna „vasapeninganna“ er 15.6 millj. kr. eða liðlega 1/2% af greiðslum almannatrygginga. Tvöföldun þeirra kostar þá auðvitað sömu upphæð eða 15.6 millj. kr. Þessi upphæð fer hlutfallslega verulega lækkandi á næstu árum vegna þess, eins og áður segir, að þeim fækkar nú ört sem komast á eftirlaunaaldur án þess að eiga einhvern rétt í lífeyrissjóðum.

Það er varla vansalaust fyrir þjóðfélagið að huga ekki betur en nú er gert að kjörum þessa fólks, sem ýmist hefur unnið langan vinnudag án þess að öðlast neins konar réttindi í lífeyrissjóðum eða hefur ekki vegna sjúkdóma eða örorku haft tækifæri til að vinna sér inn slík réttindi. Þessu frv. er ætlað að bæta nokkuð þar úr.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til heilbr.- og trn. þessarar hv. deildar og til 2. umr.