02.12.1982
Sameinað þing: 24. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 928 í B-deild Alþingistíðinda. (639)

83. mál, nýting á smokkfiskstofninum

Fyrirspyrjandi (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 85 að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. sjútvrh.:

„1. Hefur verið fylgst með göngu smokkfisks á Íslandsmið nú í sumar og undanfarin sumur?

2. Hafa verið gerðar tilraunir hér á landi til veiða á smokkfiski með veiðarfærum sem vitað er að notuð eru af fiskimönnum annarra þjóða við veiðar á þessum fiski, t.d. flotvörpu?

3. Hver eru framtíðaráform um nýtingu smokkfisksins hér við land?

4. Hve mikið var flutt inn af Smokkfiski til beitu á hverju ári árin 1979, 1980, 1981 — magn og verðmæti óskast tilgreint?“

Þessar fsp. eru tilkomnar vegna óska sjómanna við Breiðafjörð. Þeir hafa tjáð mér að s.l. sumar og undanfarin sumur hafi borið allmikið á því að þessi fisktegund hafi verið þar á miðunum, en það hefur ekki verið lagt í að veiða hana og engar tilraunir gerðar með ný veiðarfæri. Gamla og hefðbundna aðferðin við veiðar á þessum fiski var sú, að þetta var dregið á öngul, eitt og eitt kvikindi í einu, en það er varla arðbær veiðiaðferð við þessa fisktegund lengur.

2. liður fsp. er um það hvort gerðar hafi verið tilraunir með smokkfiskveiðar. Ef ég man rétt var gerð einhver samþykkt um að slíkt skyldi gera og ég hef vissan grun um það, þó að ég viti ekki, að einhverjar tilraunir hafi farið fram á að reyna öll veiðarfæri við smokkinn. Ég hef áhuga á því, og veit að fleiri hafa áhuga á því, að fá upplýsingar um hvernig þessar tilraunir hafa gengið, ef gerðar hafa verið.

3. liður spurningarinnar er um hver séu framtíðaráform um nýtingu smokkfisksins. Það gefur náttúrlega auga leið að okkur ber að nýta þennan fisk, ef það er möguleiki, og það byggist á því að við náum valdi tæknilega séð á veiðinni. Það er vitað að aðrar þjóðir nýta þennan fisk. Við höfum keypt þó nokkurt magn af smokkfiski frá Kanada, Noregi, Póllandi og Sovét á undanförnum árum til beitu. Ekki er gott til þess að vita ef svo skyldi vera að þessi fisktegund væri hér jafnvel í miklu magni við landið og hún væri ekki veidd.

Ég hjó eftir því, sem sagt var í fréttum fyrir nokkru í sambandi við það að Sovétmenn og Norðmenn voru að gera fiskveiðisamning um veiðar hér norðaustur af landinu við Jan Mayen, að Norðmenn hefðu leyft Sovétmönnum að fiska smokkfisk við Jan Mayen. Það væri skrýtið ef nágrannar okkar Norðmenn færu nú að leyfa Rússum að veiða smokkfisk í næsta nágrenni við okkur og okkur tækist ekki að veiða þessa fisktegund, en í staðinn keyptum við þennan fisk af Rússum, sem við höfum gert í allríkum mæli á undanförnum árum.

Ég held að ég orðlengi þetta ekki frekar.