07.12.1982
Sameinað þing: 27. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 998 í B-deild Alþingistíðinda. (737)

Umræður utan dagskrár

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að kveðja mér hljóðs utan dagskrár og þakka forseta fyrir að hann hefur gefið mér tækifæri til þess, vegna þess að mig langar að koma þeirri fsp. á framfæri við hæstv. fjmrh. hvenær búast megi við því að lánsfjáráætlun verði lögð fyrir Alþingi og hvort búast megi við því að það verði áður en af jólaleyfi alþm. verður. En um leið og ég kem með þessa fsp. utan dagskrár hlýt ég að eyða nokkrum mínútum Alþingis í að vekja athygli á með hvaða hætti að þessum málum hefur verið staðið á undanförnum árum því að nú þegar aðeins ein vika er til 2. umr. fjárl. — það er gert ráð fyrir að hún verði eftir næstu helgi — hefur lánsfjáráætlun ekki enn séð dagsins ljós á borðum þm. og eftir því sem ég best veit hefur ekki verið gerð grein fyrir lánsfjáráætlun í fjvn.

Það eru sjö ár liðin síðan lánsfjáráætlun var fyrst lögð fyrir Alþingi í þeirri gerð sem nú er gert og þá þótti þm. sem þá voru í stjórnarandstöðu að það skjal væri allt of seint lagt fram. Með lánsfjáráætlun var lagt fram frv. að lánsfjárlögum, en frv. var samþykkt sem lög frá Alþingi samtímis því að fjárlög voru samþykkt haustið 1975, haustið 1976 og haustið 1977. Það var vissulega ætlunin að haga þessum málum örlitið öðruvísi. Það tókst þó ekki. En við 2. umr. fjárl. var lánsfjáráætlun lögð fram og áður en fjárlög voru samþykkt höfðu verið samþ. heimildarlög til lántöku samkv. þeirri áætlun.

Þeim sem settust í ráðherrastólana í sept. 1978 fannst rétt að láta nú ekki þetta endurtaka sig, eins og þeir orðuðu það, og inn í lög nr. 13 frá 1979 var sett ákvæði, í 14. gr. þar, um að ríkisstj. skyldi leggja fyrir Alþingi fjárfestingar- og lánsfjáráætlanir fyrir eitt ár í senn og skyldu þær fylgja fjárlagafrv. Í 15. gr. þessara laga er síðan tekið fram hvað í þessari lánsfjáráætlun skuli vera, sem var nánast það sama og verið hafði frá því að hún var fyrst samin, en áður hafði framkvæmdaáætlun verið lögð fyrir Alþingi allt frá árinu 1963.

Þessum málum hefur svo verið háttað síðan, að lánsfjáráætlun og lánsfjárlög hafa aldrei verið samþ. samtímis fjárl. Í fyrra voru að vísu drög lögð fram með frv., en gjarnan hefur verið komið fram á fjárlagaárið þegar lánsfjárlög hafa verið samþykkt og lánsfjáráætlunin lögð fram. Vitaskuld liggur það í hlutarins eðli að með slíkri áætlun og með slíkri löggjöf er ætlast til þess að Alþingi fái tækifæri til þess, þegar fjárlög eru samþykki, að hafa heildaryfirsýn yfir fjármál ríkisins, yfir lánsfjármarkaðinn og yfir lántökur yfirleitt, hvort heldur hjá ríkinu, hjá fyrirtækjum ríkisins eða hjá einstaklingum. Framkvæmdin hefur verið með þeim hætti sem ég gat um áðan. Í aprílmánuði hefur samþykktin átt sér stað og það sem meira er: þegar fjárlagafrv. er til umr. fást ekki upplýsingar um hvernig framkvæmdin hefur átt sér stað og hversu langt komið er að framkvæma þá áætlun sem samþykkt hefur verið.

Það hefur ekki heldur verið farið eftir 12. gr. laganna sem ég vék að áðan, þar sem segir að Ríkisendurskoðun skuli fylgjast með framkvæmd fjárlaga í umboði Alþingis og þá að sjálfsögðu gera Alþingi grein fyrir hvernig framkvæmd fjárlaga yfirstandandi árs hafi farið fram. Á síðasta þingi var slík skýrsla gerð og lögð fyrir Alþingi, en hún hefur ekki komið fram á þessu ári.

Þá vil ég ennfremur benda á að ríkisreikningurinn fyrir árið 1981 var lagður fram þegar Alþingi kom saman í haust, en það hafði þó tekist í mörg ár að leggja ríkisreikninginn, A-hlutann, óendurskoðaðan fram þremur mánuðum eftir áramót svo að alþm. fengju tækifæri til þess áður en Alþingi lyki að líta yfir hann og hafa hann undir höndum yfir sumarið þar til nýtt fjárlagafrv. kæmi til umfjöllunar á Alþingi.

Um framkvæmd lánsfjáráætlunar ársins 1982 vita þm. ekki. Ég efast ekki um að fjvn.-menn hafa fengið þær upplýsingar sem þeir hafa beðið um, en á borð alþm. hefur ekki komið fram sú skýrsla sem a.m.k. á s.l. ári var lögð fyrir Alþingi. Ég geri ekki ráð fyrir að hv. alþm. hafi hugmynd um að nú þegar mun vera búið að taka erlend lán fyrir á 4. milljarð, en aðeins er heimild fyrir 2 milljörðum 250 millj. kr. Um þetta hefur Alþingi enga vitneskju. Vaninn hefur verið sá, að hafi verið hafið fram úr áætlun með samþykki ríkisstj. og þeirra flokka sem ríkisstj. styðja hefur frv. gjarnan verið lagt fram í árslok og fengin staðfesting á því að heimildir væru fyrir hendi.

Ég vík að þessu hér til að sýna fram á með hvaða hætti að þessum málum hefur verið staðið. Ég vitna þá til greinar sem einn af hagfræðingum Seðlabankans ritar í Fjármálatíðindin, en þar segir hann, með leyfi forseta:

„Á þessu síðasta tímabili frá 1975 hófst gerð almennra lánsfjáráætlana í framhaldi af fyrri framkvæmda- og fjáröflunaráætlunum allt frá árinu 1963, og gilti hin fyrsta þessa.a nýju áætlana um árið 1976. Var vandamál erlendrar skuldasöfnunar í fyrstu tekið mjög alvarlega og það sett sem eitt helstu markmiða áætlananna að hafa hemil á henni. Bar það nokkurn árangur í fyrstu, en síðan hefur þessi viðleitni snúist í vonlitla varnarbaráttu, svo sem eftirfarandi talnaraðir sýna.“

Þá sýnir hagfræðingurinn hvernig hlutfall erlendra lána hefur þróast úr 31% upp í nærri 45% á árinu 1982. Þessi orð eru ekki orð stjórnmálamanns í stjórnarandstöðu, heldur sérfræðings þeirrar stofnunar sem fjallar um þessi mál fyrir hönd ríkissjóðs. Þetta er dæmi þess með hvaða hætti landinu er stjórnað í dag.

Auk þessa er hægt að benda á að á Alþingi er fjallað nú um brbl. þau sem ríkisstj. gaf út á s.l. sumri. Frv. hefur verið til meðferðar í fjh.- og viðskn. á mörgum fundum þar og það verður ekki hægt að segja um þá sem þar hafa forustu að þar hafi ekki verið unnið að málum, enda vissulega ástæða til að upplýsa öll þau óvissuatriði sem þar eru á ferðinni.

Ég vil til rökstuðnings því hvernig ég álit landinu raunverulega stjórnað leyfa mér að benda á að á fjh.- og viðskn.-fund í morgun var til kvaddur prófessor frá lagadeildinni, Sigurður Líndal, og hann spurður álits á áhrifum þess ef brbl. yrðu ekki samþykkt. Skoðun hans er öndverð við þá skoðun sem fram kom hjá hæstv. utanrrh. í Morgunblaðinu 30. nóv. s.l. (Gripið fram í.) þar sem hæstv. utanrrh. lýsti því yfir að það skipti engu máli með greiðslu launa frá og með 1. des. hvernig færi um afgreiðslu þessa máls. Prófessorinn, sem kom á fundinn í morgun, hafði aðra skoðun. Hann sagði þar skýrt, að ef brbl. yrðu felld yrði vísitölugreiðsla að sjálfsögðu eftir þeim útreikningi sem kauplagsnefnd hefur þegar gert en frá þeirri vísitölu hefur verið dreginn samkv. brbl. helmingur þeirrar hækkunar sem átti sér stað 1. des. s.l. Mér finnst eðlilegt og rétt að þetta komi hér fram þegar verið er að ræða hvernig staðið er að afgreiðslu mála á Alþingi.

Á það má benda líka, að samkv. 2. gr. brbl. er ríkisstj. heimilað að ákveða í sérstakar láglaunabætur 50 millj. kr. Það er þegar farið að greiða þær samkv. reglugerð sem rn. setur. Í greininni segir að tilhögun þessara bóta verði ákveðin í samráði við samtök launafólks, en það var upplýst jafnframt á fundi nefndarinnar að samþykki þeirra væri ekki fyrir hendi. Hér er verið að útdeila peningum samkv. lögum sem mjög hafa verið umdeild, svo að meira sé ekki sagt, og það er fjmrn. eitt sem útdeilir þeim 50 millj. kr. sem um getur í þessari ákveðnu grein.

Það kom meira að segja fram á fundinum í morgun að það væri mjög mikið vafaatriði hvernig bæri að skilja 1. gr. þessa frv. með tilliti til þess hvað gerðist 1. mars á næsta ári. Sá lagaprófessor, sem kom til fundar við n., lét þau orð falla, að samkv. greininni eins og hún lítur út þegar hún er lesin verði ekki aðeins um að ræða að fella niður helming verðbóta 1. des., heldur gildi það líka um verðbætur 1. mars o.s.frv., verði þetta frv. samþykkt. Ég minnist þess, að einn af verkalýðsleiðtogum og stuðningsmaður núv. ríkisstj. orðaði það svo, þegar hann var spurður að því hvernig hann gæti staðið að slíkum lögum, að það væri mikill munur á því hvernig brbl. væru úr garði gerð og á þeirri löggjöf sem ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar stóð fyrir, því að hér væri aðeins um að ræða að fella skyldi einu sinni niður helming verðbóta á laun, en ekki oftar. Mér sýnist að með því sem þarna var sagt sé fallin forsenda þessa hv. þm. fyrir stuðningi við það frv. sem er til umr. í Ed.

Ég vildi láta þetta koma hér fram um leið og ég gagnrýni mjög hvernig unnið er í sambandi við lánsfjáráætlun. Alþingi fær ekki tækifæri til að fjalla um þessa hluti og ég spyr því ráðh.: Má búast við að lánsfjáráætlun verði lögð fyrir Alþingi fyrir jól? Má gera ráð fyrir að hún verði afgreidd á sama tíma og fjárlagafrv.?