07.12.1982
Sameinað þing: 27. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1010 í B-deild Alþingistíðinda. (743)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég held að þessar umr., sem hér hafa orðið, séu ekki þess eðlis að ástæða sé til að lengja þær. Síst af öllu ætla ég að fara að þrátta við hv. þm. Geir Hallgrímsson um hversu margar einingar felast í fornafninu nokkur. Ég gæti trúað að ef við tækjum okkur góðan tíma til þess mundi teygjast úr þeim tíma talsvert og mætti færa fram mörg rök á báða bóga, enda veit ég ekki hvort það skiptir öllu í þessu sambandi. Ég vildi hins vegar benda á það, vegna þess sem hann sagði hér áðan, að það er ekki rétt að lánsfjáráætlun hafi tekið miklum breytingum á þingi í fyrra. Ég hygg að hún hafi tekið mjög óverulegum breytingum. En hins vegar voru í lánsfjárlögum allmargar heimildir, eins og verið hefur mörg undanfarin ár, til að takmarka fjárveitingar sem ákveðnar eru í sérlögum og ákveðnar höfðu þá þegar verið í fjárlagafrv. Þessar breytingar voru allmargar og viðamiklar og gera það að verkum að brtt. urðu nokkuð margar við frv. hér í þinginu. En sjálf lánsfjáráætlunin tók satt best að segja sáralitlum breytingum við meðferð Ed, og Nd. á málinu.

Að öðru leyti kom fram í umr. eitt atriði sem mér finnst nauðsynlegt að bæta við nokkrum orðum, en það voru þær upplýsingar, sem fram komu hjá hv. þm. Karvel Pálmasyni, að aukafjárveitingar á árinu næmu 5–600 millj. kr. Þetta er mjög há upphæð, eins og menn sjá, og ég get staðfest að talan er rétt, en ég vildi biðja menn að hafa í huga að inni í þessari tölu eru allar þær efnahagsráðstafanir sem ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um á grundvelli laga frá Alþingi. Þá er ég sérstaklega með í huga stórauknar niðurgreiðslur, sem ákveðnar voru í febrúarmánuði s.l., lækkun fjárveitinga til ýmissa mála, en svo aftur hækkun til annarra. Þarna var um að ræða breytingar á fjárlögum, sem sennilega hafa numið milli 300 og 350 millj. kr. og eru því meginþorrinn eða liðlega helmingur af tölunni sem var nefnd áðan. Ég vildi sem sagt ekki að þessi tala kæmist í loftið öðruvísi en þessi viðbótarskýring fylgdi með, því að upphæðin er auðvitað allhá ef menn hafa þetta ekki í huga.

Hins vegar hefur auðvitað orðið á þessu ári eins og endranær að veita allmargar aukafjárveitingar vegna mála sem upp hafa komið á árinu og einnig er það mikill munur á reiknitölunni, sem notuð var í fjárlögum, sem var 33% verðhækkun milli áranna 1981 og 1982, og svo raunverulegri verðbólguþróun milli þessara ára, að ekki hefur auðvitað verið hjá því komist að veita allflestum stofnunum ríkisins nokkrar aukafjárveitingar. Ég hygg að ef þær eru reiknaðar út sem t.d. hlutfall af heildartölu fjárlaga séu þær ekkert meiri á þessu ári en oft hefur áður verið, en þær væru auðvitað miklu meiri ef menn tækju ekki tillit til hinna sérstöku breytinga sem gerðar voru eftir að fjárlög voru afgreidd og vörðuðu stórauknar niðurgreiðslur á árinu.