13.12.1982
Efri deild: 16. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1097 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

104. mál, Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Flm. (Egill Jónsson) (frh.):

Herra forseti. Þar var komið sögu að ég var að gera nokkrar aths. við ræðu hæstv. landbrh. Ég tel mikla þörf á að fá fram með skýrari hætti hans sjónarmið í þessu máli og ekki síst vegna þess að mér virtist sem hæstv. ráðh. hefði ekki eytt allt of miklum tíma í að fara yfir þessi mál. Er raunar óskiljanlegt hvað ráðh. var illa að sér í þessari löggjöf allri, þegar á heildina er litið. Það má vel vera að í því felist nokkur skýring á því hvernig honum hefur gengið að vinna sig áfram í þeim málum meðan hann hefur haft þau mál með höndum sem landbrh.

Það er út af fyrir sig rétt, sem hæstv. ráðh. tilgreindi í upphafi síns máls, að texti laganna um Framleiðnisjóð er æðirúmur. Eins og ég gat um voru lögin sett í þeim ákveðna tilgangi að færa fjármagn frá ríkisvaldinu yfir til vinnslustöðva landbúnaðarins og þannig hafa þau verið framkvæmd alla tíð. Þar er að vísu getið fleiri heimilda, en lög sem voru sett á áratugnum milli 1960 og 1970 geta að sjálfsögðu með engum hætti tekið til þeirra aðstæðna sem nú eru uppi í íslenskum landbúnaði og af þeirri ástæðu er textinn varðandi markmið Framleiðnisjóðs endursaminn og skilgreindur miklu nánar en áður var.

Þá taldi hæstv. ráðh. líka að breytingin á skipun stjórnar sjóðsins væri óþörf og tilgreindi í því sambandi að þá tvo nm. sem ég vildi láta bændasamtökin útnefna, en ekki Stofnlánadeild og Framkvæmdastofnun, ætti áfram að útnefna eins og nú er vegna tengsla Framleiðnisjóðs við þær stofnanir. Þetta var út af fyrir sig eðlilegt þegar lögin voru upphaflega samþykkt, vegna þess að Framleiðnisjóðurinn átti að fjármagna á vissan hátt sömu framkvæmdir og hinir sjóðirnir tveir, Byggðasjóður og Stofnlánadeild. Nú er Framleiðnisjóðnum hins vegar ætlað miklu víðtækara hlutverk, m.a. að gera skipulagða áætlun um uppbyggingu nýrra viðfangsefna í sveitum landsins og hafa þar ákveðna forgöngu um. Það er fyrst og fremst af þeirri ástæðu sem á það er lögð áhersla að þetta verkefni verði í höndum bændasamtakanna að meginhluta, þó með því fyrirkomulagi sem felst í því að formaðurinn sé skipaður af landbrh. og þannig séu tengd saman áhrif og áform bændasamtakanna og ríkisvaldsins í þessum efnum.

Þetta hvort tveggja má í raun segja að skipti minna máli. En svo fjallar hæstv. landbrh. í nokkuð löngu máli um breytingar, sem voru gerðar á lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins fyrir einu ári, og ber fyrir sig að það sé óeðlilegt að gera breytingar núna á þeirri löggjöf vegna þess að um þær breytingar, sem gerðar voru fyrir ári, hafi tekist víðtæk samstaða. Það er þá fyrst á að líta í hverju sú samstaða fólst og er sannarlega undravert að hæstv. landbrh. skuli vera að tala um það hér að menn skuli ekki rjúfa samkomulag. Sannleikurinn er sá, að ég veit ekki um nema einn mann sem hefur rofið það samkomulag og það er hæstv. landbrh. sjálfur. Það liggur fyrir um það bókun frá Búnaðarþingi með hvaða skilyrðum bændasamtökin féllust á þessa breytingu. Búnaðarþing bókaði fjóra fyrirvara varðandi sína afstöðu til málsins. Einn þessara fyrirvara var sá, að ekki skyldi gengið á opinber framlög til Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Það frv., sem ég hef flutt um það efni og verður rætt hér á eftir, gefur til kynna með hvaða hætti ríkisstj. og hæstv. landbrh. hafa staðið við það samkomulag.

Það er alveg ljóst að samkomulagið hefur einmitt verið rofið af hæstv. landbrh. og engum öðrum og það er líka alveg ljóst að það sem kemur fram í frv. um Framleiðnisjóð gengur ekki á nokkurn hátt gegn þeim fyrirvörum sem bændasamtökin settu þegar þau féllust á að breyta lögunum um Stofnlánadeild landbúnaðarins.

Hæstv. landbrh. klykkir svo út með því að tala um að hæpið sé að viðhafa hér flutning á till. um þreföldun á venjulegu, eins og hæstv. ráðh. orðar það, gjaldi til Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Ég spyr hæstv. landbrh. úr þessum ræðustól: Hver er að flytja þær tillögur, hæstv. landbrh.? Hver er að flytja um það tillögur hér á Alþingi að þrefalda þetta venjulega stofnlánadeildarsjóðsgjald? Í tillögum um Framleiðnisjóð landbúnaðarins, sem ég er hér að mæla fyrir, er ekki gert ráð fyrir að þessi gjöld hækki um eina einustu krónu, ekki einn einasta eyri. Það er hins vegar gert ráð fyrir að skipta stofnlánasjóðsgjaldinu, eins og það er nú í lögum, og færa helminginn af því yfir í Framleiðnisjóð landbúnaðarins. Það er vitanlega allt annað en að þrefalda gjaldið, eins og hæstv. landbrh. talar um.

Það væri hægt að hafa hér miklu fleiri orð um stofnlánasjóðsgjaldið og afstöðu bændasamtakanna til þess gjalds. Það vill svo vel til að tæpt ár er síðan Búnaðarþing setti fram sínar skoðanir í þeim efnum. Eru þær í raun mjög í samræmi við þann tillöguflutning sem hér á sér stað, þ.e. að stofnlánasjóðsgjaldið verði fellt niður í áföngum og það verði algerlega fellt niður árið 1986, þegar niður falla skyldur Stofnlánadeildar landbúnaðarins til greiðslu á lífeyrissjóðsframlagi til bænda.

Það voru hér til viðbótar fleiri atriði, sem að sjálfsögðu eru ekki eins þýðingarmikil og það sem ég hef nú fjallað um.

Hæstv. landbrh. segir að í þeirri breytingu sem var gerð á jarðræktarlögunum 1979 sé kveðið svo á, að árlegt framlag samkvæmt verðtryggingarákvæði þeirra laga eigi að vera sem næst meðaltali áranna 1978 og 1979. Þetta er rangt. Það er alveg skýrt kveðið á um að það eigi á fjárlögum hvers árs að setja inn með verðtryggingu þá upphæð sem kom inn á fjárlög árið 1978 og 1979 í gegnum jarðræktarlögin. Það eru engir fyrirvarar á. Ég hef aldrei heyrt nokkurn einasta mann, sem hefur fjallað um þessi mál, fyrr en hæstv. landbrh. núna, túlka það þannig að þarna væru fyrirvarar á. Getur vel verið að í því felist nokkur skýring á því hvernig staðið hefur verið við þetta ákvæði í hans ráðherratíð.

Hæstv. ráðh. viðurkennir hins vegar, svo að það sé notað hans eigið orðalag, að nokkuð hafi skort á að fjármagn til hagræðingar í landbúnaði og nýrra búgreina hafi skilað sér. En það sem vekur þó alveg sérstaka furðu er það, að landbrh. segir að það framlag hafi skekkst í meðförum Alþingis. Sannleikurinn er hins vegar sá, að þó að hlutur Alþingis í þessum efnum sé ekki merkilegur hefur það þó gerst við afgreiðslu fjárlaga öll þau ár síðan þetta ákvæði komst inn í jarðræktarlög, að það fjármagn, sem hefur verið til staðar og verið lagt til landbúnaðarins í gegnum þetta lagaákvæði, hefur í meginatriðum komið inn við meðferð þessara mála á Alþingi. Ríkisstj. hefur ekki skilað um það tillögum í fjárlagafrv. að þetta fjármagn ætti að vera til staðar. Hæstv. landbrh. hefur sem aðili að ríkisstj. samþykkt hvert fjárlagafrv. á fætur öðru án þess að þetta fjármagn væri til staðar. Og ég endurtek, að þótt hlutur Alþingis í þessum efnum sé ekki merkilegur er það harður dómur hjá hæstv. landbrh. að bera það á Alþingi að það hafi skert þetta fjármagn. Það verður betur vikið að því í sambandi við frv. um breytingar á jarðræktarlögum hvernig við þetta hefur verið staðið. Það væri fróðlegt að fá vitneskju um það núna, af því að fjárlagaafgreiðslu er ekki lokið og vegna þess að það fer að draga til úrslita í þessum efnum, hvaða upphæð hæstv. landbrh. ætlar að hafa til þessara mála í fjárlögunum sem nú eru til umr. og meðferðar á Alþingi. Eins og hæstv. landbrh. skilaði þessu frá sér til Alþingis er ekki einu sinni ætlað nægilegt fjármagn til að framkvæma jarðræktarlögin sjálf. Meira að segja er ekki nægilegt fjármagn þó að skerðingu sé beitt. En hér gefst hæstv. landbrh., og á vissan hátt hefur hann kastað þeim teningi sjálfur, kærkomið tækifæri til að skýra frá því hvaða fjármagn hann ætlar til þessara verkefna á næsta ári.

Hæstv. landbrh. sagði að ég hefði farið rangt með tölur þar sem ég tilgreindi hve mikið fjármagn hefði komið í gegnum verðtryggingarákvæði jarðræktarlaganna til nýrra búgreina og nýrra viðfangsefna í landbúnaði á s.l. ári. Það sem ég sagði var alveg rétt, — ekki upp á krónu, heldur upp á eyri, ef þeir hefðu verið tilgreindir. Hæstv. ráðh. sagði að það hefðu komið 7.6 millj. Þetta er ekki rétt. Svo mikið fjármagn var ekki veitt til þessara viðfangsefna. Það komu 2.44 millj. í gegnum verðtryggingarákvæðið og í rauninni kom ekki einu sinni það fjármagn til skila þar sem stór hluti af því fór svo beint yfir til Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Þaðan var það svo aftur lánað með venjulegum stofnlánadeildarkjörum. Hins vegar skilaði skerðingin sér að sjálfsögðu yfir í þessi verkefni, en það er fjármagnið sem bændurnir í þessu landi afsöluðu sér og gerðu það að sjálfsögðu með þeim fyrirvara og í þeirri góðu trú að það yrði staðið við það samkomulag sem var gert árið 1979.

Herra forseti. Ég fagna því að hafa átt þess kost að koma þessum leiðréttingum hér á framfæri. Ég er að vísu þakklátur hæstv. landbrh. fyrir það sem hann sagði í niðurlagi ræðu sinnar, að hann virti áhuga flm. fyrir umbótum í þessu máli. Það er að sjálfsögðu góðra gjalda vert að gefa slíkar yfirlýsingar, en heldur vildi ég þiggja stuðning hans, þótt ekki væri nema í litlum mæli, til þess að leiðrétta þessi mál og til þess að unnt væri að hefjast handa um skipulegt átak og skipuleg viðfangsefni til að treysta byggð í íslenskum sveitum. Það væri að sjálfsögðu meira virði fyrir bændurna í þessu landi og raunar fyrir þjóðina alla en fáein viðurkenningarorð um áhuga og vilja flm. Það bætir ekki stöðu þessara mála sérstaklega þegar á hitt er litið, að svo virðist sem hæstv. landbrh. ætli að beita sér gegn því að þessi mikilvæga breyting, þessi mikilvæga stefnumótun í íslenskri landbúnaðarlöggjöf, sem hér er gert ráð fyrir, nái fram að ganga.