25.11.1983
Neðri deild: 17. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1163 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

101. mál, frestun byggingaframkvæmda við Seðlabanka Íslands

Flm. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Það sem af er yfirstandandi þingi hafa átt sér stað miklar umr. um bankamál, starfsemi bankanna og ýmislegt sem að því lýtur. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt, ekki síst á þeim tíma sem við nú upplifum þegar ríkisstj., hæstv. stjórnendur þessa lands, benda almenningi á að herða sultarólina í ljósi þeirrar uggvænlegu þróunar sem átt hefur sér stað í efnahagsmálum, efnahagsstjórn og efnahagslífi og í ljósi þeirra nýju upplýsinga sem fram hafa komið varðandi minnkandi þorskstofn og að sjálfsögðu erfiðari lífskjör í ljósi þess.

Hér hefur m.a. verið flutt á Alþingi þáltill. um frestun eða stöðvun á byggingarframkvæmdum við Seðlabankahúsið. Hér hafa verið uppi margs konar fyrirspurnir um starfsháttu og starfsemi bankastofnana í landinu. Ekki alls fyrir löngu var upplýst hér af hæstv. viðskrh. að á síðasta ári, í tíð fyrrv. hæstv. ríkisstj. hafi verið gefið leyfi til opnunar 11 nýrra bankaútibúa á landinu sem hafa í för með sér kostnað sem er rösklega helmingur þess fjármagns alls sem á að leggja samkv. fjárlagafrv. til allra hafnarframkvæmda í landinu á árinu 1984. Ég er á engan hátt hissa þó að mönnum hrjósi hugur við slíkri útþenslu bankakerfisins, ekki síst í ljósi þeirra staðreynda efnahagslífsins sem við nú stöndum frammi fyrir.

Ég hygg að hvað sem hv. alþm. segja upphátt séu menn almennt um það sammála, ekki síst hæstv. núv. fjmrh., að það þarf að koma tökum á bankakerfið í landinu. Vissulega þarf að beita þar miklu meira aðhaldi og meiri festu þannig að sá þáttur einn tröllríði ekki öllu efnahagslífinu í landinu eins og allt bendir til að hann geri ef fram heldur sem horfir.

Það er í ljósi þessarar þróunar og þeirrar stöðu sem þjóðmálin eru í, og þá ekki hvað síst efnahagsmálin, að ég ásamt hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Jóni Baldvin Hannibalssyni hef leyft mér að flytja frv. til l. sem er á þskj. 122, um frestun byggingarframkvæmda Seðlabanka Íslands og bann við fjölgun bankaútibúa ríkisbankanna. Í ljósi þessarar fyrirsagnar er rétt að rifja upp að hæstv. viðskrh. hefur ekki einu sinni, heldur oftar talið að engin löggjöf í landinu væri þannig að hann eða stjórnvöld almennt hefðu lagalegt vald til að fresta eða stöðva byggingu Seðlabankahússins eða takmarka með einum eða öðrum hætti þá útþenslu bankakerfisins sem gerð hefur verið að umræðuefni.

Það á ekki síður vel við að ræða þetta frv. hér í áframhaldi af því máli sem var á undan þessu á dagskrá, þ.e. um innienda lánsfjáröflun til handa húsnæðiskerfinu í landinu. Það þarf ekki að rifja upp að það kerfi er meira og minna hrunið, hrunið vegna þess að fyrrv. hæstv. ríkisstj. tók ekki á því máli sem skyldi. Í raun og veru liggur ljóst fyrir að verði þar ekki alvarlega tekið til hendi er það kerfi tómt peningalega séð og þess ekki að vænta að íbúðaeigendur sem hvað erfiðast eiga nú uppdráttar fái þar hjálparhönd rétta á næstunni ef fram heldur sem horfir.

Það fer afskaplega lítið fyrir því frv. sem nú er til umr. Það er stutt, aðeins tvær greinar, en gæti þó, ef samþykkt yrði og að lögum gert, haft að minni hyggju æði mikil áhrif til a.m.k. að stöðva þá þróun sem átt hefur sér stað og á sér enn stað í útþenslu bankakerfisins, a.m.k. meðan Alþingi áttar sig á hvernig æskilegast er að skipa þessum málum þannig að Alþingi og stjórnvöld geti þar haft hönd í bagga og einhver ítök í.

Ég hygg að flestir hv. alþm. séu mér sammála um að sú þróun sem átt hefur sér stað í þessum málum er óeðlileg og óæskileg, ekki síst miðað við ríkjandi aðstæður. Það er vissulega tími til kominn að festa hönd á því mikla fjármagni sem allt bendir til að sé til staðar í landinu innan bankakerfisins og beina því fjármagni á aðrar arðvænlegri og betri brautir til hagsældar fyrir þjóðarbúið sem heild og einstaklingana þá um leið í stað þess að þenja út allt bankakerfið í landinu eins og nú standa sakir. Það væri vissulega ástæða til að beina því mikla fjármagni sem mönnum sýnist ekki óeðlilega vera til staðar í bankakerfinu í uppbyggingu til húsnæðismála til að létta byrðar þeirra sem núna eru að sligast undan fargi þeirrar kjaraskerðingar og kreppu að því er varðar fyrirgreiðstu í húsnæðislánakerfinu, beina þessu fjármagni inn á þær brautir fremur en að verja því til útþenslu í bankakerfinu víðs vegar um landið, ekki bara hér á þessu svæði þó að vissulega beri hvað mest á því.

Eins og ég sagði áðan er þetta frv. einungis tvær greinar. 1. gr. hljóðar svo:

„Framkvæmdir við hús Seðlabanka Íslands við Ingólfsstræti í Reykjavík skulu stöðvaðar frá og með gildistöku laga þessara. Sama gildir um aðrar byggingarframkvæmdir á vegum ríkisbanka og stofnun útibúa á þeirra vegum.“

Hér er ljóst að ef þessi mgr. 1. gr. yrði samþykkt er hæstv. viðskrh. búinn að fá það vald sem hann hefur óbeint óskað eftir, en ekki talið sig hafa til að stöðva eða a.m.k. fresta um sinn meðan menn eru að ná áttum þeirri gífurlegu útþenslu sem bankakerfið hefur staðið að og virðist ætla að halda áfram því að það liggja fyrir a.m.k. 32 umsóknir um ný útibú víðs vegar um landið á vegum bankanna. Þessi 11 sem leyfi hefur verið veitt fyrir kosta á bilinu 50–60 millj. þannig að hér er um gífurlegar fjárupphæðir að ræða ef hæstv. ráðh. eða ráðherrum dytti nú í hug að verða við óskum þessara 32 og reisa eða bæta við öllum þeim útibúum til viðbótar því sem fyrir er í landinu. Það er auðvitað ótækt í alla staði að slíkt sé látið afskipta- og átölulaust þegar meiri hl. Alþingis og ríkisstj. beitir í fjárlagafrv. miskunnarlaust hnífnum til niðurskurðar á mörgum brýnum þjóðfélagslega nauðsynlegum framkvæmdum víðs vegar um landið, en ætla sér að halda áfram að láta bankakerfið í landinu þenjast út með þessum hætti.

Áfram með 1. gr.:

„Ríkisstjórnin getur þó heimilað framangreindum aðilum að halda áfram framkvæmdum samkvæmt þegar gerðum verksamningum, sé ótvírætt að riftun eða breyting verksamninga vegna laga þessara leiði til verulegra bótagreiðslna til verktaka.“

Hér er auðvitað gert ráð fyrir að búið sé að semja um einhverjar framkvæmdir í framhaldi af því sem þegar hefur verið gert. Að sjálfsögðu er gert ráð fyrir að stjórnvöld hafi til þess heimild sé það ótvírætt að stöðvun framkvæmdanna þýddi verulegar skaðabótagreiðslur til verktaka. Hér er því á engan hátt farið harkalega í málið. Eins og að sjálfsögðu er ljóst af nöfnum þeirra hv. þm. sem þetta mál flytja eru þeir hógværir, raunsæir og vilja taka tillit til staðreynda. Og það er einmitt þetta sem þarna fram kemur. Það er á engan hátt verið að stofna til neinna óeðlilegra útgjalda vegna stöðvunar þeirra verkframkvæmda sem þegar er búið að semja um og þannig gæti orðið til að gera viðkomandi aðila bótaskylda gagnvart verktaka. En auðvitað verður það að vera á valdi hæstv. ríkisstj. hvernig hún metur slíkt og fyrir því er ráð gert.

Ákvæði laga þessara gilda þar til annað verður ákveðið á Alþingi. Og 2. greinin: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“ Það fer afskaplega lítið fyrir þessu frv. En ég hygg að ef eftir því yrði farið til að stöðva þetta, þó ekki væri nema um sinn meðan menn eygðu frekar ljós í því skammdegi efnahagskreppu sem nú ríður yfir, meðan menn reyndu að koma tökum á þetta kerfi í landinu, væri það búið að þjóna allverulega tilgangi sínum. Ég tala nú ekki um ef menn vildu fallast á þá meginforsendu sem er að baki þessa frv. að veita því fjármagni sem þarna er um að ræða og kann að verða til ráðstöfunar á vegum bankakerfisins til annarrar og nauðsynlegri uppbyggingar en að festa það í steinsteypu Seðlabankahússins eða annarra bygginga á vegum bankanna í landinu. Meira að segja mundi ég vilja ganga svo langt að taka ýmislegt af þeim kannske hálfköruðu eða nánast fullgerðu útibúum, t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu, til annarra nytsamlegri hluta en að reka þar bankastarfsemi. Það eru nánast óþrjótandi verkefni og dæmi sem hægt væri að benda á sem væru hagstæðari þjóðfélagslega séð og væri nær að nýta þetta húsnæði til en til að útþenja bankakerfið frá því sem það nú þegar er.

Ýmsir tala um að ekki sé ýkja mikið fjármagn sem hér er á ferðinni. Samkvæmt beiðni frá fjvn. á haustinu 1982 þá var óskað eftir af hálfu Seðlabankans að fengnar yrðu upplýsingar um hugsanlegan fyrirhugaðan kostnað við þessa byggingu. Í ljós kom samkvæmt bréfi sem sjálfur seðlabankastjórinn undirritar eftir eftirgangsmuni 21. sept. 1982 að þar er gert ráð fyrir að heildarkostnaður á verðlagi þess árs mundi nema um 114,3 millj. kr. að því er varðar bygginguna sjálfa. Sé þetta framreiknað til núgildandi verðlags er hér um að ræða a.m.k. 230 millj. kr. sem þessi bygging kostar að óbreyttum aðstæðum. Það kom hér fram í umr. um daginn að um 67 millj., ef ég man rétt, sé búið að verja til byggingarframkvæmda við Seðlabankahúsið. Og um 18 eða 19 millj. ca. er gert ráð fyrir að verja á næsta ári, þ.e. sem búið er að binda í samningum. Þannig að hér er kannske um 80–90 millj. kr. að ræða sem búið er að byggja fyrir eða vinna fyrir og búið að taka bindandi ákvörðun um að unnið verði fyrir á næsta ári. Eftir eru þá a.m.k. 140–150 millj. sem enn á eftir að láta í þessa framkvæmd a.m.k., vægt í sakir farið. 140–150 millj. sem þarna er um að ræða og Seðlabankinn virðist eiga til og ég hygg því að nær væri að setja þessa fjármuni í aðrar og arðbærari, nauðsynlegri byggingarframkvæmdir á meðal landsmanna en þetta, a.m.k. meðan svo illa árar sem nú er. Því þetta eru ekki svo litlir fjármunir, 140–150 millj. sem væru betur komnir í ýmsum t.d. nauðsynlegum framkvæmdum heilbrigðisþjónustu, hafnarframkvæmdum, skólabyggingum, samgöngumálum almennt talað og svo mætti lengi telja víðs vegar úti á landsbyggðinni, í stað þess að setja þessa fjármuni til viðbótar í steinkassa hér í Reykjavík sem sjálfsagt kann að eiga rétt á sér við eðlilegar kringumstæður í þjóðfélaginu, en á engan hátt á rétt á sér að njóta forgangs í því ástandi sem við nú búum við.

Ég vek einnig athygli á því í sambandi við þetta mál og efnahagsstöðuna almennt að væntanlega hefur ekki farið fram hjá neinum hv. þm. hversu gífurleg kjaraskerðing hefur átt sér stað. Launafólk hefur fært fórnir, meira að segja það verst setta hefur fært gífurlegar fórnir í launaskerðingu og áfram er gert ráð fyrir því af hálfu hæstv. ríkisstj. að kjaraskerðing verði viðloðandi a.m.k. á næsta ári. Það er því ekki til of mikils mælst eftir að launafólk í landinu hefur tekið á sig gífurlegar byrðar vegna versnandi þjóðarafkomu en að þeir stjórnendur sem lagt hafa þessar byrðar á launafólk sjái svo um að aðrir þjóðfélagsþegnar, aðrir aðilar í landinu hagi málum sínum á þann veg að það sé a.m.k. reynt eftir því sem hægt er að létta þær byrðar sem um er að ræða, þeim sé dreift réttlátlega og það sé enginn og allra síst sá aðili í landinu sem hvað mest fjármagnið hefur handa í milli látinn sleppa.

Það á að taka þau ráð af bankakerfinu í landinu að ráðskast á þann hátt sem það hefur gert og gerir enn með þá fjármuni sem hér er um að ræða. Auðvitað eru þetta fjármunir allrar þjóðarinnar og fengnir frá henni og því á að taka í taumana hjá þessum aðilum þegar svo illa árar sem nú. Það er engin hemja að seðlabankastjóri, bankastjóri eða hver sem er í kerfinu hjá bönkum geti ráðskast með svo hundruðum eða jafnvel þúsundum milljóna skiptir án þess að ríkjandi stjórnvöld í landinu geti gripið þar í taumana. Það nær auðvitað engri átt.

Hafi neyðarrétturinn átt rétt á sér gagnvart launafólki vegna slæmrar stöðu efnahagsmála þá á neyðarrétturinn gagnvart bankavaldinu í landinu ekki síður rétt á sér undir þessum kringumstæðum. Og með þessu frv. er verið í raun og veru að verða við óskum hæstv. viðskrh. um að hann fái lagalega heimild til að grípa inn í, stöðva framkvæmdir við Seðlabankann, stöðva alla frekari útþenslu bankakerfisins með uppbyggingu útibúa hvar sem er meðan menn ná áttum í að koma á eðlilegri skipan og eðlilegri löggjöf þar sem stjórnvöld geta, að því er þennan þátt efnahagsmála varðar, gripið inn í til að beina fjármagni og sjónum manna oft á tíðum á réttari brautir en a.m.k: mér og okkur sem að þessu frv. stöndum sýnist að gert hafi verið í þessum efnum á undangengnum árum.

Ég er sannfærður um að ef hv. þm. hér á Alþingi fylgdu sannfæringunni eins og menn hafa undirskrifað með eiðstaf mundu svo til flestir a.m.k. mikill meiri hluti hér á Alþingi vera samþykkir því undir þessum kringumstæðum að grípa inn í með þessum hætti. Hitt er svo alltaf spurningin hvað flokksfjötrarnir halda, hversu margir af hv. þm., sem skrifað hafa undir eiðstaf um að fylgja sannfæringu, láta handjárn flokksþrælanna halda hér um, þó að menn sjái yfirgnæfandi að hér beri brýna nauðsyn til að grípa inn í.

Ég get ekki stillt mig um að víkja aðeins að því sem hæstv. viðskrh. sagði hér í ræðu um daginn þegar verið var að ræða einmitt bankamál og kostnaðinn af þeim. Þegar hæstv. ráðh. vildi ekki tjá sig um það hvort hann væri hlynntur því frv. sem hér er nú til umr. og vildi stuðla að því að það næði fram að ganga, en svaraði eitthvað á þá leið efnislega að þessum málaþætti væri best borgið í þeim höndum sem hann er nú, þ.e. hans sjálfs. Ég er nú þeirrar skoðunar að málum sé best borgið í höndum einstaklings sem hefur skoðun á málinu, þorir að setja hana fram og segja hana og þorir að framkvæma hana þegar hann hefur aðstöðuna og valdið til þess. Með þessu frv. er valdið lagt upp í hendur hæstv. viðskrh. til að grípa inn í og stöðva alla þessa vitleysu sem átt hefur sér stað og heldur áfram að eiga sér stað í útþenslu bankakerfisins verði ekki að gert.

Auðvitað má segja að það á ekki að vera sérstakt verkefni okkar stjórnarandstæðinga eða Alþfl.-manna að leggja hæstv. ríkisstj. gögnin í hendurnar. En þrátt fyrir það leggjum við hæstv. viðskrh. hér málið upp í hendur, bjóðumst til að hafa frumkvæði í því að styðja hann til að ná þessum hugsjónum sínum, að ég vona, í framgang af því hann er ábyggilega um það sannfærður eins og fleiri hv. þm. hér inni að óbreytt ástand getur ekki haldið áfram við ríkjandi aðstæður í efnahagsmálum. Og hvað sem bankaráðsmenn úr hinni eða þessari áttinni segja um að hér hafi verið rétt gert á undanförnu ári með opnun 11 útibúa er a.m.k. almenningur í landinu þeirrar skoðunar að hér beri að grípa inn í og beina þeim fjármunum sem þarna eru til í aðrar og farsætti áttir, til annarra nauðsynlegri og jákvæðari þjóðhagslegri framkvæmda en byggingu Seðlabankahúss og fjölgun útibúa vítt og breitt um landið.

Ég vænti þess því að hv. Alþingi, bæði hv. þm. í þessari deild og hv. Ed. geti verið okkur flm. þessa frv. um það sammála að hér er virkilega réttlætis- og þjóðþrifamál á ferðinni sem ætti að eiga greiða göngu í gegnum þingið og ætti ekki að þurfa að taka langan tíma í ljósi þess sem gerst hefur, í ljósi allra þeirra upplýsinga sem fengist hafa í umr. um bankamál hér á Alþingi, ekki síst það sem af er yfirstandandi þingi. Málið liggur svo ljóst fyrir að allir ættu að geta svo að segja á stundinni tekið afstöðu til mátsins. Þannig að allur dráttur, ég tala nú ekki um ef salta á málið í nefnd, er vísvitandi gerður vegna þess að þeir sem að því standa vita að fái málið eðlilega meðferð í gegnum þingið og komi þá úr nefnd þá óttast þeir sem ráða ferðinni í að salta það, ef það verður gert sem ég vona að ekki verði, að málið sé svo vinsælt að þeir treysti ekki á að láta málið fara til atkvgr.

Ég vona svo sannarlega að menn séu það víðsýnir og raunsæir að þeir sjái að hér er á ferðinni mál sem vissulega á að taka föstum tökum. Það á að stöðva þetta a.m.k. meðan menn eru að endurskipuleggja löggjöf um bankastarfsemi í landinu sem allir eru sammála um að verður að gerast. Ég, herra forseti, læt það í þitt vald til hvaða n. sem þú vilt vísa þessu máli. Það gæti að mínu viti farið hér áfram án þess að fara til n. svo augljóst er það. Á engan hátt þyrfti það skoðunar eftir allt það sem á undan hefur farið, en ég læt hæstv. forseta það í hendur að ákvarða til hvaða n. það fer, geri ekki till. um neina n., en fari það svo þá legg ég að sjálfsögðu til að það fari til 2. umr.