29.11.1983
Sameinað þing: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1241 í B-deild Alþingistíðinda. (1098)

6. mál, afvopnun og takmörkun vígbúnaðar

Flm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Á þskj. 6 liggur fyrir till. til þál. um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar. Þessi till. er flutt í nafni þingflokks sjálfstæðismanna, þannig að allur þingflokkurinn stendur að flutningi till. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að brýna nauðsyn beri til að þjóðir heims, og ekki síst kjarnorkuveldin, sameinist um raunhæfa stefnu í afvopnunarmálum, sem leitt geti til samninga um gagnkvæma og alhliða afvopnun þar sem framkvæmd verði tryggð með alþjóðlegu eftirliti.

Jafnframt ályktar Alþingi að fela utanrrh. að láta gera úttekt á þeim hugmyndum, sem nú eru uppi um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar, með sérstöku tilliti til legu Íslands og aðildar þjóðarinnar að alþjóðlegu samstarfi. Á grundvelli slíkrar skýrslu verði síðan leitað samstöðu meðal stjórnmálaflokkanna um sameiginlega stefnu í þessum málum.“

Þessi till. er tvíþætt eins og menn sjá. Fyrri mgr. er almenn yfirlýsing um nauðsyn samkomulags um afvopnun, eins konar hvatning til þjóða heims, og þá ekki síst kjarnorkuveldanna, að þær sameinist um raunhæfa stefnu í afvopnunarmálum sem geti leitt til samninga um gagnkvæma og alhliða afvopnun. Síðari hlutinn snýr sérstaklega að Íslandi. Þar er sérstakur kafli um hagsmuni Íslands í þessu efni, að gerð sé úttekt á þeim hugmyndum sem nú eru uppi um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar með sérstöku tilliti til legu Íslands og aðildar okkar að alþjóðlegu samstarfi.

Ég hygg að till. í þessum dúr sé algert nýmæli í tillöguflutningi um afvopnunarmál og takmörkun vígbúnaðar hér á hv. Alþingi. Það hafa verið miklar umræður um þessi mál undanfarna mánuði og reyndar undanfarin ár. Það sést m.a. á því, að hér liggja nú fyrir þrjár þáltill. sem tengjast afvopnunarmálum. Það er enginn vafi á að það hefur verið vaxandi ótti meðal almennings við hið gífurlega vígbúnaðarkapphlaup og mikill ótti meðal almennings um allan heim við þær auknu birgðir kjarnorkuvopna sem hlaðast upp og enginn virðist fá rönd við reist. Þessar hugmyndir hafa leitt til mikilla umræðna um friðar- og afvopnunarmál. Þessi till. er hér flutt til að varpa nokkuð öðru ljósi á þessi mál en hingað til hefur verið gert í umr., bæði hér á hv. Alþingi og reyndar annars staðar í þjóðfélaginu.

Stefnan í öryggismálum Íslands, sem nýtur stuðnings mikils meiri hluta þjóðarinnar, er ljós. Höfuðþættir hennar eru aðildin að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamstarfið við Bandaríkin. Gegn þessari stefnu hefur að vísu einn stjórnmálaflokkur, Alþb., barist og ýmislegt bendir til þess að hann hafi nú fundið liðsinni í Kvennalistanum að því er þá stefnu varðar, en aðrir íslenskir stjórnmálaflokkar hafa staðið dyggan vörð um þessa grundvallarþætti íslenskrar utanríkisstefnu og segja má að fylgi þjóðarinnar við hana hafi verið staðfest í mörgum kosningum allar götur frá 1949, er Ísland gerðist aðili að Atlantshafsbandalaginu.

Það hafa komið fram á undanförnum árum hugmyndir um aukna þátttöku Íslands í eigin vörnum og aukna þátttöku Íslands í ákvörðunum sem lúta að varnaraðgerðum hér á landi. Þó að ágreiningur hafi verið um aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og ágreiningur hafi verið um dvöl varnarliðsins hér á landi bendir ýmislegt til að hægt væri að ná samstöðu meðal stjórnmálaflokka um þennan þátt málsins, þ.e. að við Íslendingar reynum að afla okkur meiri þekkingar í þessum efnum og að við séum reiðubúnir að leggja sjálfir mat á einstakar aðgerðir í öryggismálum sem til greina kemur að hafa uppi hér á landi. Þetta hefur nokkuð komið til umræðu á Alþingi síðustu vikur og mér hefur virst vera mjög vaxandi skilningur á þessu etni á hv. Alþingi. Ég bendi í þessu sambandi á að á síðasta þingi fluttu fulltrúar þriggja flokka þáltill. um sérstakan ráðgjafa í öryggismálum, en sú till. varð ekki útrædd.

Það má segja að tvær hliðar séu á öryggismálum þjóðarinnar. Annars vegar er sú hlið sem lýtur að því að tryggja öryggi okkar með varnarviðbúnaði og hins vegar sú sem lýtur að afvopnun og takmörkun vígbúnaðar. Þessir þættir eru mjög nátengdir. Það má m.a. sjá á því, að þegar utanríkisráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins þann 12. des. 1979 tók ákvörðun um endurnýjun á meðallangdrægum kjarnorkueldflaugum á vegum bandalagsins í Evrópu var jafnframt í þeirri ályktun ákveðið að taka upp viðræður um niðurskurð slíkra vopna í álfunni. Þær viðræður hafa nú staðið yfir alllengi og verið mikið í fréttum undanfarna daga. Ég skal koma nánar að þeim á eftir.

Umræður hér á landi um afvopnunarmál og takmörkun vígbúnaðar einkennast of mikið af óskhyggju frekar en raunsæju mati á vænlegum leiðum. Flestar þær tillögur sem fluttar hafa verið um þessi mál á hv. Alþingi, og reyndar á ýmsum öðrum vettvangi í þjóðfélaginu, hafa ekki beinlínis tekið mið af innlendu mati eða íslenskum öryggishagsmunum, heldur hefur oft verið um að ræða að teknar yrðu upp erlendar hugmyndir og erlendar tillögur. Þær hafa t.d. gengið eins og rauður þráður í gegnum starfsemi friðarhreyfinganna. Þar nefni ég t.d. hugmyndina um frystingu kjarnorkuvopna, sem upphaflega kom upp í Bandaríkjunum, en hefur verið mikið á dagskrá friðarhreyfinganna bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum. Ég held að menn hljóti að geta sameinast um að það sé ekki vænlegt að láta óskhyggju ráða ferðinni í umr. um jafnalvarlegt málefni og stríð og frið. Eftir því sem innlend þekking á herfræðilegum þáttum hefur aukist, og mun vonandi aukast, hefur það komið í ljós að það er vaxandi skilningur meðal landsmanna á stefnu þjóðarinnar í öryggismálum og að samstaða hefur aukist innanlands um ýmsa þætti þeirrar stefnu. Ég held að það sé mjög æskilegt að sams konar þróun geti einnig orðið að því er snertir afstöðuna til afvopnunarmála. Á því sviði þurfa að liggja fyrir hjá íslenskum stjórnvöldum skýrir og þaulhugsaðir kostir. Það er á fáum sviðum stjórnmálanna eins auðvelt að láta umræðuna stjórnast af tilfinningum einum saman og einmitt á þessu mikilvæga sviði. Tilfinningarnar eiga mjög greiða leið inn í alla umræðu um friðar- og afvopnunarmál.

Friðarumræðurnar hafa sett verulegan svip á stjórnmálalíf á Vesturlöndum undanfarin misseri. Þessi umræða snýst í rauninni um það, með hvaða hætti á að takmarka vígbúnað og skera niður vopnakerfið. Um þessi mál er hvarvetna rætt á alþjóðavettvangi nú, þar sem stjórnmálamenn og stjórnarerindrekar hittast. Þessi umræða hefur verið mjög fyrirferðarmikil í þjóðfélagi okkar að undanförnu. Það hefur ríkt viss ágreiningur í þeim efnum. Það hefur t.d. verið lagt mismunandi mat á starfsemi friðarhreyfinganna. Það hefur líka verið lagt nokkuð mismunandi mat á vopnabúnað og vígbúnað stórveldanna eftir því hvaða stjórnmálaflokkum menn hafa fylgt. En ég skal ekki ýfa upp þær umr. í framsöguræðu fyrir þessari till. Grundvöllur till. er fyrst og fremst að reyna að skapa grundvöll þess að hægt sé að ná sem víðtækastri samstöðu hér innanlands í þessum mikilvæga málaflokki.

Við Íslendingar höfum lítið látið að okkur kveða á alþjóðavettvangi í þessu efni. Það er e.t.v. eðlilegt. Við erum lítil þjóð, sem er ekki fjölmenn á alþjóðasamkomum. Ég held hins vegar að smáþjóðir hafi verulegt erindi í þessa umræðu og í þá tillögugerð sem nauðsynlegt er að fram fari á alþjóðavettvangi í þessu efni. Við látum okkur venjulegast nægja að benda á að við séum vopnlaus þjóð og við séum þess vegna meiri afvopnunarsinnar en flestir aðrir. Ég held að svo einfaldar röksemdir dugi ekki lengur, hvorki í umræðum innanlands né utan. Það er skoðun flm. þessarar tillögu, að það þurfi að móta markvissa og samræmda stefnu Íslands í afvopnunarmálum þar sem tekið sé mið af íslenskum hagsmunum. Forsenda þess að slík stefna verði mörkuð er sú alhliða úttekt sem hér er hvatt til að gerð verði.

Menn spyrja e.t.v.: Eru til einhverjir íslenskir sérhagsmunir í þessu efni? Fara ekki hagsmunir alls heimsins saman þegar óttinn við kjarnorkustyrjöld er annars vegar? Víst má það til sanns vegar færa. Ef svo hörmulega skyldi til takast að kjarnorkustríð brytist út kemba menn sennilega ekki hærurnar, hvorki á Íslandi né í þeim heimshlutum sem fjarlægir eru. Ef við hins vegar skoðum þá umræðu sem fram fer og tillögugerðina er alveg ljóst að þær tillögur sem uppi eru snerta íslenska hagsmuni á mismunandi hátt. Það er einmitt tilgangur þessarar till. og úttektarinnar sem till. gerir ráð fyrir, að við reynum að átta okkur á því hvernig hinar einstöku tillögur sem uppi eru á alþjóðavettvangi snerta íslenska hagsmuni fyrst og fremst.

Árið 1978 var skipuð sérstök öryggismálanefnd, sem var skipuð á grundvelli samkomulags milli Alþb., Alþfl. og Framsfl. í kjölfar stjórnarmyndunar það haust. Það er athyglisvert að þegar erindisbréf hennar er lesið sést þar hvergi vikið beint að afvopnunarmálum, þótt nefndinni sé að vísu falið að fjalla um hugmyndir um friðlýsingu, friðargæslu og eftirlit á Norður-Atlantshafi. Starfsemi öryggismálanefndar hefur verið til góðs. Sú upplýsingastarfsemi sem fram hefur farið á vegum hennar hefur aukið skilning manna á þessari umræðu. Þau rit sem hún hefur látið frá sér fara hafa varpað ljósi á þá þætti sem fjallað er um í þeim ritum. Hins vegar fjalla afvopnunarmálin um miklu víðtækara svið en bara friðlýsingu, friðargæslu og eftirlit á Norður-Atlantshafi. Það má glöggt sjá m.a. af þeim umr. sem fram fóru á aukaallsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sumarið 1982 um friðar- og afvopnunarmál og þingflokkarnir áttu fulltrúa á. Það má enn fremur sjá á þeim umr, sem átt hafa sér stað á Madrid-ráðstefnunni um öryggismál og samvinnu í Evrópu. En á hvorugum þessum vettvangi hafa Íslendingar kynnt sínar hugmyndir um afvopnun eða takmörkun vígbúnaðar, sem byggðar væru á þeirra eigin mati og eigin niðurstöðum.

Til að bregða nokkru ljósi á hvað hér er um víðtæka tillögugerð að ræða og hve þessar umræður fara fram á mörgum stöðum er rétt að rekja aðeins nokkra þætti sem fram hafa farið.

Í fyrsta lagi er rétt að minna á að í Genf starfar afvopnunarnefnd Sameinuðu þjóðanna. Sú nefnd hefur fyrst og fremst haft það verkefni að reyna að hrinda í framkvæmd ályktunum fyrsta aukaallsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um friðar- og afvopnunarmál, sem haldið var 1978. Menn voru nokkuð bjartsýnir eftir það þing, því að samkomufag náðist um ákveðna tillögugerð og afvopnunarnefndin í Genf átti síðan að reyna að hrinda þeim tillögum í framkvæmd, en því miður hefur lítill árangur orðið í því enn og starf nefndarinnar orðið til lítils.

Í öðru lagi má minna á svokallaðar SALT-viðræður, sem hófust 1969. Á þeim vettvangi hafa verið undirrituð tvö samkomulög. Annars vegar er samkomulag sem fjallar um takmörkun langdrægra kjarnorkuvopna og hinn samningurinn, svokallaður SALT-2 samningur, var um takmarkanir á langdrægum eldflaugum svo og eldflaugum sem skotið væri frá kafbátum. Síðari samningurinn hefur ekki verið staðfestur, en aðildarríkin, þ.e. Sovétríkin og Bandaríkin, hafa a.m.k. í orði kveðnu viljað standa við þennan samning þó að staðfesting hafi ekki átt sér stað. En á grundvelli þess samnings og reyndar á víðtækara sviði hófust síðan viðræður á ný í júní 1982, svokallaðar START-viðræður, en í þeim viðræðum hafa stórveldin skipst á tillögum og hugmyndum um niðurskurð langdrægra kjarnorkuvopna.

Í þriðja lagi má minna á þær umræður sem nú ber hvað hæst í fréttum, þ.e. umræður um meðaldræg kjarnorkuvopn í Evrópu, svokallaðar INF-viðræður í Genf. Þær viðræður hófust á grundvelli samþykktar utanríkisráðherrafundar Atlantshafsbandalagsríkjanna 1979, þegar tekin var ákvörðun um að setja niður meðaldrægar eldflaugar í Evrópu í des. 1983 ef ekki tækist fyrir þann tíma að ná samkomulagi um takmörkun meðaldrægra kjarnorkuvopna í Evrópu.

Í fjórða lagi er rétt að minna á Madrid-ráðstefnuna, sem er tiltölulega nýlokið. Sú ráðstefna var haldin í framhaldi af Helsinki-sáttmálanum. Nú hefur verið ákveðið eins konar framhald þeirrar ráðstefnu í Stokkhólmi, sem hefjast mun eftir áramót, en þar er fyrst og fremst fjallað um öryggismál og samvinnu ríkja í Evrópu.

Í fimmta lagi má minna á að árið 1973 hófust í Vínarborg viðræður fulltrúa Atlantshafsbandalagsríkjanna og Varsjárbandalagsríkjanna um samdrátt herafla í Mið-Evrópu, þ.e. svokallaðar MBFR-viðræður. Þær hafa ekki leitt til samkomulags og reyndar deila menn enn um viss grundvallaratriði — atriði sem ættu að geta verið óumdeildar staðreyndir, eins og t.d. það hversu fjölmennur herafli Varsjárbandalagsríkjanna sé í dag á samningssvæðinu.

Í sjötta lagi er rétt að minna á samning frá 1968, sem tók gildi árið 1970, um bann við frekari dreifingu kjarnorkuvopna. Í þeim samningi er gerð tilraun til að stöðva dreifingu kjarnorkuvopna til fleiri landa. Með þessum samningi tókust kjarnorkuveldin þá skyldu á herðar að dreifa hvorki vopnum né tækni, sem gæti komið að gagni við kjarnorkuvopnasmíði, til ríkja sem ekki hefðu kjarnorkuvopn. Því miður hafa mörg ríki neitað að undirrita þennan samning. Síðast þegar ég vissi til höfðu um 45 ríki ekki undirritað hann og þar á meðal ríki sem talið er að séu mjög nálægt því að geta smíðað kjarnorkuvopn. Má þar nefna Indland, Ísrael, Pakistan og Suður-Afríku. Það er talið að sumar þessar þjóðir hafi jafnvel kjarnorkuvopn nú, eins og t.d. Indland, en hinar gætu auðveldlega smíðað þau með stuttum fyrirvara. Þá er vitað að fleiri þjóðir hafa í huga að smíða kjarnorkuvopn. Þar má nefna Argentínu, Brasilíu, Írak, Suður-Kóreu og Taiwan — svo að ekki sé minnst á Lýbíu svo þokkalegt sem það er nú að vita af slíkum vopnum í höndum Ghaddafi Lýbíuforseta. Þessi samningur hefur sem sagt ekki náð þeim tilgangi sem upphaflega var ætlast til, en að því er að sjálfsögðu unnið á alþjóðavettvangi að fá fleiri ríki til að undirrita. Rétt er að benda á að Kína hefur ekki heldur undirritað þennan samning þó það teljist eitt af kjarnorkuveldunum í dag.

Í sjöunda lagi er rétt að minna á hugmyndir sem uppi hafa verið um takmörkun vígbúnaðar í hafinu. Ríkisstjórn Íslands er reyndar á vettvangi sameinuðu þjóðanna þátttakandi í flutningi slíkrar till. ásamt fleiri þjóðum.

Í áttunda lagi má nefna hugmyndir um kjarnorkuvopnalaus svæði t.d. á Norðurlöndum, í Mið-Evrópu og reyndar víðar. Við höfum haft tilhneigingu til að grípa slíkar hugmyndir á lofti án þess að kanna betur og nánar hvað í þeim felist, en auðvitað er nauðsynlegt að slíkar hugmyndir séu skoðaðar beint út frá íslenskum hagsmunum.

Alls staðar í þeim átta liðum sem ég hef rakið fara fram ítarlegar umræður um afvopnunar- og friðarmál á hinum ýmsu stöðum. Á mörgum þessum stöðum er fjallað um hugmyndir og tillögur sem beint snerta Ísland án þess að við gerum nokkuð til að láta okkar rödd heyrast á þessum vettvangi og jafnvel án þess að við kynnum okkur til hlítar hvað þarna er um að vera.

Till. sem hér er flutt hefur fyrst og fremst þann tilgang að við gerum nákvæma úttekt á þeim hugmyndum sem uppi eru og reynum að ná sem víðtækastri samstöðu hér innanlands um sameiginlega stefnu í þessum málum. Í till. er gagngert sagt, að leitað verði á grundvelli slíkrar úttektar samstöðu meðal stjórnmálaflokkanna um sameiginlega stefnu í þessum málum.

Í öryggismálanefndinni, sem ég gat um áðan og sett var á stofn 1978, sitja fulltrúar allra þingflokka, nema þeirra nýju flokka sem tóku sæti á Alþingi eftir síðustu kosningar, og þarf að sjálfsögðu að kanna aðild þeirra að öryggismálanefndinni. Nefndin hefur ekki tillögurétt samkv. erindisbréfi sínu, heldur á hún fyrst og fremst að afla gagna og gefa út álitsgerðir um öryggismál íslenska lýðveldisins. Það væri ekki óeðlilegt, og á það er bent í grg. með þessari till., ef þessi till. næði fram að ganga, að hæstv. utanrrh. fengi öryggismálanefnd til að semja þá skýrslu sem í till. er getið. Við það starf mundi einnig reyna á samstöðu stjórnmálaflokkanna og stuðning þeirra við frekari framgang málsins.

Herra forseti. Ég hef nú í stórum dráttum gert grein fyrir því hver sé grundvöllur þessarar till. Ég hef ekki viljað gera að umtalsefni í þessari ræðu það sem skilur flokkana að í umræðum um friðar- og afvopnunarmál, heldur leitast við að benda á leiðir sem gætu sameinað íslenska stjórnmálaflokka í þessum mikilvægu málum. Sannleikurinn er sá, að afvopnunarmálin eru flókin og erfið og reyndar fáir sem hafa yfir þau fullkomna yfirsýn, en enginn vafi er á að á alþjóðavettvangi eru þetta þau mál sem hljóta að verða mjög til umræðu á næstu árum og allar þjóðir þurfa að móta sér stefnu í.

Ég vil, herra forseti, gera þá till. að þegar þessum hluta umr. lýkur verði till. vísað til meðferðar utanrmn.