29.11.1983
Sameinað þing: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að gefa mér tækifæri til að spyrja hæstv. sjútvrh. hér utan dagskrár. Ég hafði að vísu vænst þess að þær tvær aðrar till. um afvopnunarmál sem hér er ætlunin að ræða í dag hefðu fengið umr. áður og væntanlega verður einnig hægt að taka þær til umr. hér síðar í dag.

Tilefni þess að ég kveð mér hér hljóðs utan dagskrár eru þær yfirlýsingar sem hæstv. sjútvrh. hefur gefið utan Alþingis um veigamestu aðgerðir gagnvart íslenskri togaraútgerð sem nefndar hafa verið í áratugi. Þær hugmyndir sem ráðh. hefur þar reifað snerta atvinnuhorfur þúsunda manna, sérstaklega hér á suðvesturhorni landsins, og afkomu mikils fjölda þeirra fyrirtækja sem eru aðalburðarásinn í atvinnulífinu hér á þessu svæði.

Þegar yfirlýsingar af þessu tagi eru gefnar utan þings um væntanlega meginstefnu í afstöðu núv. hæstv. ríkisstj. gagnvart atvinnumálum, þá er óhjákvæmilegt að hér á Alþingi sé óskað eftir því að hæstv. ráðh. geri Alþingi Íslendinga grein fyrir því hvers konar stefnumótun er þarna á ferðinni og hvaða hugmyndir og till. það eru sem hann er að undirbúa jarðveginn fyrir. Það er ekki við hæfi að mínum dómi að slík meginumræða um höfuðatvinnuveg landsmanna sé hafin utan þings, á samkomum sem þar eru haldnar og í fjölmiðlum, án þess að Alþingi sé gerð grein fyrir þessum hugmyndum. Ég hefði frekar kosið að hæstv. ráðh. hefði sjálfur haft frumkvæði að því að kynna fyrir Alþingi þessar hugmyndir.

Ég hef orðið var við það að hundruð verkafólks og sjómanna hér á þessu svæði voru óttaslegin í gær og í dag þegar fréttir bárust af ummælum hæstv. ráðh., og forsvarsmenn í sjávarútvegi á því svæði þar sem sum stærstu og elstu fyrirtækin í sjávarútveginum eru starfandi hafa spurt sjálfa sig að því, hvað sé hér eiginlega á ferðinni. Þess vegna finnst mér óhjákvæmilegt að hæstv. sjútvrh. geri Alþingi hér og nú skýra grein fyrir því hvað er hér eiginlega á ferðinni.

Málgagn hæstv. ráðh. birti um það frétt fyrir fáeinum dögum að ákveðið hefði verið að leggja um 30 togurum. Hæstv. ráðh. hefur ekki viljað staðfesta þá tölu. Væri þess vegna fróðlegt að fá skýrt fram frá honum hér hver sú stærðargráða í fækkun togara er sem ráðh. er að leggja drög að.

Í öðru lagi hefur ráðh. lýst því yfir að þessi fækkun eigi að fara fram á þeim svæðum sem hann hefur kallað þéttbýlissvæði. Aðspurður hefur hann gefið til kynna að það væri einkum og sér í lagi suðvesturhorn landsins, Stór-Reykjavíkursvæðið, Suðurnes og önnur þau svæði sem í námunda eru við álverið í Straumsvík.

Það eru að vísu fjölmargir aðrir staðir á landinu sem gætu fallið undir þá skilgreiningu ráðh. að vera þéttbýlissvæði. Þess vegna væri mjög æskilegt að hæstv. ráðh. útskýrði nánar hér hvað hann á nákvæmlega við þegar hann er að tilkynna utan Alþingis að togurum á þéttbýlissvæðum verði lagt. Er það Akureyri, er það Neskaupstaður, er það Ísafjörður eða er það eingöngu Reykjavík, Hafnarfjörður og Suðurnes?

Í þriðja lagi hefur hæstv. ráðh. bent á það utan þings að ein meginrök fyrir því að velja slík svæði að hans dómi séu fólgin í því, að fólkið sem starfi nú við útgerð og fiskvinnslu á þessu svæði geti átt von í atvinnu í stækkuðu álveri. Stækkun álversins í Straumsvík er sú ábending sem ráðh. setur fram þegar hann kynnir þessar till. sínar og bendir á aðrar leiðir í atvinnumálum íbúa þéttbýlissvæðanna.

Hér er engin smáyfirlýsing á ferðinni heldur mun þetta vera í fyrsta sinn sem íslenskur sjútvrh. lýsir því yfir, að hann stefni beinlínis að því að flytja sjómenn og fiskverkunarfólk frá útgerð og fiskvinnslu yfir í álvinnslu í þágu erlendra auðfélaga. Er það virkilega sú atvinnustefna sem núv. hæstv. sjútvrh. ætlar að beita sér fyrir gagnvart því svæði þar sem meira en helmingur þjóðarinnar býr, að fólkið sem þar stundar nú störf við helsta atvinnuveg landsmanna eigi að sækja inn á atvinnumarkaðinn í stækkuðu álveri? Ég ætla að vona að þau ummæli sem ráðh. lét falla í ræðu sinni í gær — og ég hef fengið eintak af þeirri ræðu vegna þess að ég trúði varla að frásagnir fjölmiðla um þetta efni væru réttar ... (Gripið fram í: Þú hefur ekki lesið hana.) Það kemur alveg skýrt fram í þeirri ræðu, sem hæstv. ráðh. getur þá flutt hér á eftir, að hann bendir á að sá sé munurinn á Vestfjörðum og þeim þéttbýlissvæðum sem hann vísar til í sinni ræðu, að á þéttbýlissvæðunum sé m.a. álver sem eigi að stækka á næstunni og þess vegna sé réttlætanlegra að fækka togurum þar.

Það er svo önnur saga að það sýnir ekki mikil klókindi í samningum gagnvart Alusuisse að lýsa því yfir af hálfu ríkisstj., á meðan þeir samningar standa, að stækkun álversins sé orðin meiri háttar liður í lausn á vanda sjávarútvegsins og togaraflotans í landinu. Það gefur Alusuisse enn frekari viðspyrnu í þeim efnum.

Í fjórða lagi er rétt að spyrja hæstv. ráðh. að því hvernig hann hyggist vinna að þessari fækkun sem hann hefur nú reifað utan þings. Við hvaða aðila ætlar hann að ræða? Á hvern hátt ætlar hann að ræða við forsvarsmenn fyrirtækjanna sem nú spyrja sig í forundran eftir yfirlýsingar ráðh., sem birtar hafa verið í fjölmiðlum, hvað eigi að verða um þeirra fyrirtæki? Rétt er að nefna í þessu sambandi að ráðh. mælti hér í síðustu viku á Alþingi fyrir frv., þar sem ein af greinum þess fól honum vald, ótvírætt vald, til að stöðva rekstur sérhvers fyrirtækis í sjávarútvegi ef það fengi ekki tilskilið leyfi. Maður fer nú að skilja samhengið í því frv. sem þá var mælt fyrir og þeim yfirlýsingum sem gefnar hafa verið síðustu daga, að af hálfu þessarar ríkisstj. sé verið að leggja drög að því að sjútvrh. geti ráðskast algjörlega með rekstur togaraflotans og starfrækslu frystihúsanna.

Í fimmta lagi er nauðsynlegt að ráðh. upplýsi hér, vegna þess að hann hefur hvergi vikið að því í túlkun sinni á þessu máli utan þings, á rekstrarafkoma fyrirtækjanna og hagkvæmni í rekstri fyrirtækjanna engu að ráða um þetta efni, heldur eingöngu sú spurning hvar fyrirtækin eru staðsett? Á kannske að fara að stöðva rekstur margra elstu og traustustu fyrirtækjanna í sjávarútvegi, sem hér eru í Reykjavík og nágrannabyggðum, einfaldlega vegna þess að þau eru hér staðsett? Hvar á hagkvæmnin og æskilegur rekstrargrundvöllur í sjávarútvegi að koma inn í þessa mynd? Hver eiga að vera þau fjárhagslegu markmið sem þessi fækkun togaraflotans á að taka mið af?

Það er þess vegna óhjákvæmilegt í tilefni af yfirlýsingum ráðh. utan þings, sem hundruð verkafólks og fjöldi stjórnenda og eigenda fyrirtækja í sjávarútvegi hafa hrokkið við vegna síðustu sólarhringana, að ráðh. segi skýrt og skorinort hér á Alþingi hvernig hann ætlar að halda áfram með þetta mál. Hvernig á að ræða við fólkið í fyrirtækjunum og þá sem bera ábyrgð á fyrirtækjunum, hvaða aðferðum á að beita og með hvaða öðrum hætti ætlar ríkisstj. að koma þessari stefnu sinni í framkvæmd?

Herra forseti. Það mætti margt fleira segja um þetta mál. En ég vænti þess að hæstv. sjútvrh. gefi hér á Alþingi skýr og afdráttarlaus svör við þessum spurningum, svo að sú mikla óvissa sem hann hefur skapað utan þings verði ekki lengur við lýði.