06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1379 í B-deild Alþingistíðinda. (1205)

58. mál, eggjaeinkasala

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 63 leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. viðskrh. um fyrirhugaða eggjaeinkasölu eða einokunarverslun með egg. Fsp. mín er svohljóðandi:

„Eru fyrirætlanir um einkasölu á eggjum í samræmi við það sem segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. „að neytendur og atvinnulífið njóti hagkvæmni frjálsrar verðmyndunar þar sem samkeppni er næg“?“

Miklar umræður hafa átt sér stað í þjóðfélaginu um þetta mál að undanförnu og raunar harðar deilur og hefur þar sitt sýnst hverjum og eitthvað mun þetta mál hafa borið á góma hér í sölum Alþingis. Í Dagblaðinu í dag er m.a. um þetta mál fjallað og þar rætt við einn af eggjaframleiðendum. Einn þeirra er nokkuð stór í sniðum. Þarna er m.a. fjallað um Framleiðsluráð landbúnaðarins og segir þar, með leyfi forseta:

„„Framleiðsluráð segist ekki ætla að beita einokunarheimildinni en það er bara skrípaleikur“, segir Gunnar Jóhannsson á Ásmundarstöðum. „Í öllum bréfum sínum fram til þessa hefur Framleiðsluráðið vísað til þess að það ætli að veita Sambandi eggjaframleiðenda einkasöluleyfi og ég treysti ekki á að það muni ekki nýta sér lagaheimild sína til þess. Sambandið hefur ekki leitað eftir heildsöluleyfi til sölu á eggjum en samt er búið að veita því það. Hins vegar hafa fjögur eggjabú óskað eftir heildsöluleyfi, Vallá, Holtabúið, Reykjagarður og Nesbú. Af hverju sannar Framleiðsluráð ekki mál sitt með því að veita þessum búum heildsöluleyfi?“ sagði hann.

Gunnar sagði að Framleiðsluráð væri skipað sauðfjár- og kúabændum sem hefðu alltof mikið vald og hefðu kúgað aðrar búgreinar með því að leggja á þær kjarnfóðurskatt sem notaður væri til að hygla öðrum en þeim sem skattinn greiddu.“ Hér lýkur tilvitnun.

Í stefnuyfirlýsingu núv. hæstv. ríkisstj. segir orðrétt í kafla nr. 4 um verðlagsmál:

„Fyrst um sinn skal aðeins heimila þá hækkun á vörum og þjónustu sem nauðsynleg er til að standa undir óhjákvæmilegum kostnaðarhækkunum. Síðan verði dregið úr opinberum afskiptum, þannig að neytendur og atvinnulífið njóti hagkvæmni frjálsrar verðmyndunar, þar sem samkeppni er næg.“

Nú er það svo að eins og þessari verslun er háttað í dag með egg og eins og hún snýr að íslenskum neytendum er þar veruleg samkeppni sem ég tel að tvímælalaust komi neytendum til góða í lægra vöruverði en ella væri ef einokun væri. Nú veit ég það að sjálfsagt eru innan ríkisstj. mjög skiptar skoðanir um þetta mál vegna þess að ríkisstj. á sér stuðningsmenn sem vilja sem mesta einokunarverslun, einkum á sviði ýmiss konar landbúnaðarafurða. Við getum nefnt þar kartöflur sem dæmi og fleira. Ég veit að þessi sjónarmið eiga sér mjög harða talsmenn í báðum stjórnarflokkunum enda þótt Sjálfstfl. kenni sig til frjálsrar samkeppni.

Nú veit ég það líka að hæstv. viðskrh. er stuðningsmaður frjálsrar samkeppni og því beini ég þeirri fsp. til hans hvort þessar fyrirætlanir um einkasölu á eggjum samræmast því sem segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. og þá raunar í framhaldi af því hvort hæstv. viðskrh. er ekki reiðubúinn að lýsa því hér yfir á Alþingi að hann muni beita sér gegn öllum fyrirætlunum um að koma upp slíkri einkasölu þar sem hún muni tvímælalaust vera gegn hagsmunum íslenskra neytenda.