06.12.1983
Sameinað þing: 29. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1437 í B-deild Alþingistíðinda. (1274)

114. mál, stöðvun uppsetningar kjarnaflugvopna

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Fyrir Alþingi liggja þrjár till. til þál. sem allar fjalla um þetta alvarlega mál sem hér er til umr., það ástand sem hefur skapast með því kapphlaupi sem hefur nú að því er virðist aukist á milli stórveldanna um framleiðslu gjöreyðingarvopna. Allar lýsa þessar till. áhyggjum alþm. yfir þessari þróun og þeirri skoðun hv. alþm. að sporna beri þar á móti og okkur beri að leggja lóð okkar þannig á vogarskálina að að því stuðli.

Ég vil leggja á það áherslu hér að þær ríkisstj. sem ég þekki til, bæði þessi og sú sem áður sat, hafa gert það á alþjóðlegum vettvangi og lagt áherslu á að viðræður milli stórveldanna héldust og lýstu þeirri von að árangur af þeim næðist. Ég vil einnig segja að ég tek fullkomlega undir það sem hér hefur verið sagt og áhyggjur manna af þessu fáránlega kapphlaupi sem á sér stað. Ég hef líka lagt áherslu á að kynna mér þessi mál m.a. blaðað töluvert í þeirri bók sem hv. þm. minntist á áðan, Hjörleifur Guttormsson, í sambandi við fyrri till. Ég hef einnig tekið þátt í viðræðum forsrh. Norðurlanda um þessi mál, óformlegum viðræðum. Ég minni á mjög athyglisverðan sjónvarpsþátt sem var sýndur hér á s.l. ári frá norska sjónvarpinu, viðræður um kjarnorkukapphlaupið.

En ég verð að viðurkenna að eftir því sem ég kynni mér þessi mál sýnist mér nokkuð áberandi að enginn veit í raun og veru hvert stefnir. Og enginn gerir sér eiginlega grein fyrir því, finnst mér, hvað er að gerast. Þetta eru allt meira og minna getsakir. Segja má að nokkur atriði séu ljós, að þegar er til í heiminum hjá stórveldunum miklu meira en nóg af gjöreyðingarmætti til að eyða öllu lífi. Það þarf ekkert meira. Og það skiptir í raun og veru engu máli hvort það eru einhver hundruð fleiri eldflaugar í Evrópu eða ekki. Og mér skilst að í þessu sé þó líklega ekki metið það sem er í hafinu, það sem er í kafbátum o.s.frv.

Einnig virðist ljóst að því miður er þessum vopnum fjölgað. Rétt er sem fram hefur komið að menn óttast að því fleiri sem þau eru því auðveldar geti slys orðið. Stórveldin nota gjarnan sem átyllu að hitt veldið hafi náð eitthvað framar og jafnvæginu sé raskað, m.a. eins og nú blasir við að Sovétríkin hafi komið upp nokkur hundruð eldflaugum af nýrri gerð sín megin landamæra sem geti eytt því sem er nær og þurfi þá líklega ekki að nota enn stórtækari eldflaugar í því skyni. Og því sé nauðsynlegt að koma upp eldflaugum á móti til að halda enn þessu jafnvægi sem ég hef sjálfur lýst í ræðu að mér sýnist nú vera eins og jafnvægi á hárri línu án öryggisnets sem víða er nú bannað að því er mér skilst í fjölleikahúsum.

En ég vil með þessum orðum taka undir það að ég sé satt að segja ekki til hvers þetta leiðir og tek eindregið undir áhyggjur sem mér sýnast allra þm. af þessum málum.

Ég vil með þessum orðum leggja áherslu á að þessar till. þrjár komist allar til utanrmn. sem fyrst og verði þar teknar til meðferðar og leitað verði eftir samkomulagi með þm. um eina ályktun héðan sem lýsi áhyggjum okkar Íslendinga á þeirri þróun sem nú er. Það held ég að sé sú verðugasta málsmeðferð og sú eina rétta frekar en menn skiptist í hópa, kannske meira af óljósu orðalagi en öðru. Ég held að þingheimur ætti að geta náð saman um það mál sem hér er til umr.