06.12.1983
Sameinað þing: 29. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1438 í B-deild Alþingistíðinda. (1275)

114. mál, stöðvun uppsetningar kjarnaflugvopna

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég kem upp til að styðja þessa till. en mig langar fyrst að þakka forsrh. orð hans. Það er kannske að bera í bakkafullan lækinn að ítreka enn frekar öll þau mörgu rök sem hníga gegn vígbúnaði en mig lagnar samt að ítreka og beina athygli hv. þm. að þeim blekkingum eða ranghugmyndum sem notaðar eru til að næra og viðhalda vígbúnaðarkapphlaupinu.

Fyrsta má nefna þá blekkingu að hægt sé að heyja takmarkað eða langvinnt kjarnorkustríð. Önnur er sú blekking að hægt sé að sýna yfirburði á sviði kjarnorkuvopna og sú þriðja er það tálsýndaröryggi sem byggt er á óstöðugleika sívaxandi kjarnorkuvopnasöfnunar.

Fyrsta og stærsta blekkingin um kjarnorkuvopn er sú ályktun að kjarnorkustyrjöld sé aðeins einn af mörgum óhjákvæmilegum möguleikum sem mannkynið horfist í augu við. Og ég held að í raun og veru sé nauðsynlegt að rekja þessa röksemdafærslu vegna þess að til eru valdhafar í heiminum sem halda þessu fram. Enn fremur að kjarnorkustyrjöld sé aðeins hefðbundin styrjöld en með margfölduðum afleiðingum. Í krafti þessara viðhorfa beita menn síðan hernaðarlist sem þróast hefur um hefðbundin vopn og halda að hún eigi við um kjarnorkuvopn sem eru í eðli sínu og áhrifum gjörólík. Því stendur veröld okkar á barmi hyldýpis þar sem mannkynið býr nú yfir tækniþekkingu til að tortíma sjálfu sér.

Óbeisluð kjarnorkustyrjöld mundi drepa hundruð milljóna manna á augabragði. Siðmenningin yrði lögð í rúst og framtíð þeirra sem kynnu að lifa af fyrstu hryðjuna væri ótrygg, ef nokkur. Heilbrigðisstéttirnar yrðu hjálparvana og gætu á engan hátt veitt nauðsynlega aðstoð. Þess vegna er hugmyndin um almannavarnir ekki nothæf.

Skyld blekking er sú skoðun að kjarnorkustyrjöld væri hægt að stjórna, bæði upphafi hennar og tímalengd. Ef kjarnorkustyrjöld væri hafin hér í Evrópu eða annars staðar er afar ólíklegt að hún yrði takmörkuð. Hún mundi næstum örugglega magnast hratt upp í óbeislaða styrjöld og heimsendi. Þessa ályktun má draga af þeirri vitneskju sem til er um áhrif kjarnorkusprenginga á líf og heilsu manna og enn fremur vitneskju um hvernig menn taka ákvarðanir undir álagi. Slík óbeisluð kjarnorkuátök yrðu ekki sambærileg við nein vistfræðileg áföll skráðrar sögu okkar og mundu skilja eftir valdbeittan lífheim, jörð eitraða af geislavirkni. Ef einhver börn yrðu til að erfa þessa jörð væru þau ekki öfundsverð því að langtímaáhrif kjarnorkusprenginganna mundu sjá til þess að menga þau með geislavirkni. Ef við lítum á allt sem við vitum og miklu fremur á allt sem við vitum ekki um áhrif margfaldra kjarnorkusprenginga er rík ástæða til að óttast um framtíð mannlífs á þessari jörð.

Enn önnur blekking er sú að hægt sé að hafa og nota yfirburði á sviði kjarnorkuvopna. Svonefnda yfirburði hvað varðar tölu eða gerð vopna er ekki hægt að nýta til hernaðarsigurs. Óvinur sem væri minni máttar kjarnorkuveldi gæti samt gjöreyðilagt andstæðing sinn sem hefði yfirburðina. Sú staðhæfing að annar hvor aðilinn geti verið undir eða ofan á, sé kominn fram úr eða hafi dregist aftur úr í kapphlaupinu um kjarnorkuvopnin hefur ekkert gildi lengur, enga skynsemi eða glóru. Kjarnorkuvopn eru ekki lengur nothæf sem tæki til að ná skynsamlegum pólitískum markmiðum. Eyðileggingarmáttur þeirra vopnabirgða sem Bandaríkin og sovétríkin eiga nú er langtum meiri en mögulegur fjöldi skotmarka beggja aðila. Því er það blekking að fleiri kjarnorkuvopn af hvaða gerð sem er gefi nokkra hernaðarlega eða pólitíska yfirburði. Þess vegna er engin réttlæting fyrir því að bæta við nýjum kjarnorkuvopnum í Evrópu eða á nokkru öðru svæði. Hvernig er það mögulegt að við leyfum kjarnorkuvopnum að hrannast upp undir því yfirskyni að þau tryggi öryggi okkar? Hvernig er hægt að leita friðar með því að daðra við möguleika á útrýmingu mannkyns? Þurfum við ekki að endurskoða rækilega þá hernaðarstefnu sem byggir á ógnarjafnvægi?

Á grundvelli ógnarjafnvægis leyfa stórveldin sér að halda stórum hlutum heimsbyggðarinnar í gíslingu. Og það sem meira er þau leyfa sér að halda öllu lífi þessarar jarðar í lófum sér. Eins og tröllin sitja þeir og leika sér að fjöreggi mannsins. Stefna ógnarjafnvægis hefur leitt til hratt vaxandi vopnakapphlaups sem ógnar framtíðarvonum barnanna okkar og það veikir baráttu okkar gegn fátækt, hungri og sjúkdómum. Það hefur alið á hernaðarhyggju sem jafnframt eykur hættuna á kjarnorkuátökum. Það sem við þurfum nú eru nýjar friðarumleitanir en ekki nýjar eldflaugar.

Kvennalistinn telur því að öll kjarnorkuveldi ættu að samþykkja ótvírætt að bera ekki kjarnorkuvopn að neinni deilu. Upphaf kjarnorkuátaka mundi leiða til sjálfsmorðs þjóða og mannkynsmorðs. Við teljum að allar þjóðir ættu að fallast á sannanlega frystingu á hönnun, tilraunum, framleiðslu og uppsetningu á kjarnorkuvopnum. Sú frysting ætti síðan að leiða til fækkunar og endanlegrar útrýmingar kjarnorkuvopna úr vopnabúrum þjóðanna. Vopnaeftirlit og fækkun vopna krefst endurnýjaðrar og alvarlegrar tilraunar til að ná samstöðu um allsherjarbann við tilraunum með kjarnorkuvopn. Þeim samningaviðræðum sem hafa verið í gangi ætti að halda áfram af kostgæfni og góðum ásetningi með tilliti til hagsmuna beggja aðila. Undangengnar afvopnunarviðræður sýna þó að samningar eru yfirleitt langt, langt á eftir hönnun og fjölgun kjarnorkuvopna.

Það er þess vegna vert að leggja áherslu á að til eru aðrar leiðir að markmiði friðar og sátta en hefðbundnar samningaviðræður. Bæði Bandaríkin og Sovétríkin hafa tækifæri til að taka sjálfstætt frumkvæði til að draga úr spennu, til að minnka hættuna á kjarnorkustríði og leiða samningaviðræðurnar út úr þeirri sjálfheldu sem þær eru komnar í. Á þennan hátt mætti breyta þeirri stefnu sem vopnakapphlaupið hefur tekið. Kvennalistinn telur að bæði bandaríska þjóðin og sovéska þjóðin verði að læra meira hvor um aðra, kynnast betur til að eyða hleypidómum og tortryggni. Hin staðlaða sýn sem þær hafa nú hvor á annarri torvelda öll samskipti þjóðanna. Þessar óvinaímynd verður að eyða.

Mér kemur í hug ungi maðurinn sem ég hitti í neðanjarðarlestinni í New York í sumar og ræddi opinskár og forvitinn við mig um friðarmál. „Það væri bara þetta með Rússana. Þeir eru allt öðruvísi en við. Þeir eru allir eins, klæða sig allir eins, eru alvarlegir, gráir, hafa enga kímnigáfu — þeir hlægja aldrei. Og svo eru þeir á móti okkur og ætla sér að ráða niðurlögum okkar.“

Hvaða upplýsingar og hugmyndir um Bandaríkjamenn skyldi svo hinn atmenni borgari í Sovétríkjunum hafa? Ætli sú mynd sé meira aðlaðandi eða líklegri til að örva friðsamleg samskipti? Nei, þessum viðhorfum væri hægt að breyta með því að auka verulega vísindaleg, tæknileg og menningarleg samskipti, skemmtiferðamennsku og verslun. Það er nauðsynlegt að auka þær upplýsingar sem þjóðirnar hafa hvor um aðra með notkun sjónvarps og annarra fjölmiðla.

Það eru meira en tveir áratugir síðan Albert Einstein sagði: „Við þörfnumst verulegrar hugarfarsbreytingar ef mannkynið á að lifa af.“ Við verðum að byrja að hugsa á nýjan hátt án þeirrar blekkingar að hægt sé að komast hjá kjarnorkustríði endalaust með því að beita stefnu ógnarjafnvægis, án þeirrar blekkingar að við getum lifað í öryggi að eilífu í skugga kjarnorkuvopna, án þeirrar blekkingar að hægt sé að takmarka eða lifa af kjarnorkustríð. Engin deila austurs og vesturs er jafn mikilvæg og gagnkvæm nauðsyn okkar til að forðast kjarnorkustyrjöld. Aðeins með samvinnu en ekki deilum getum við lært að lifa saman ef við viljum lifa. Og ég trúi því að þrá okkar til að lifa sé miklu sterkari en ótti okkar hvert við annað.

Því skora ég á ríkisstj. og sér í lagi utanrrh. að beita sér fyrir því á vettvangi Evrópuríkja að viðræðum um takmörkun kjarnavopna í Genf verði haldið áfram. Að frekari uppsetning kjarnorkueldflauga í löndum Atlantshafsbandalagsins og Varsjárbandalagsins verði stöðvuð og næstu sex mánuðir notaðir til alvarlegra tilrauna til að ná samkomulagi um fækkun kjarnorkuvopna í Evrópu.