07.12.1983
Efri deild: 26. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1470 í B-deild Alþingistíðinda. (1300)

133. mál, gjaldeyris- og viðskiptamál

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það er ekki oft á undanförnum vikum að ástæða hafi verið til þess að hrósa hæstv. ríkisstj. En ég tel það skref sem verið er að stíga með þessu frv. vera í rétta átt og hróss vert.

Frá því var greint hér í sumar í fréttatilkynningum og fjölmiðlum að nú væru gjaldeyrisviðskipti á Íslandi allt í einu orðin miklu frjálsari en áður var þegar nánast engin breyting hafði átt sér stað að því er snerti viðskipti almennings við þær stofnanir sem versla með gjaldeyri. Nú hafa hins vegar breytingar átt sér stað. Með þessu frv. er gert ráð fyrir breytingum sem ég tel sjálfsagðar og eðlilegar. Eðlilegt er að á hverjum þeim stað, þar sem þessi þjónusta er til staðar, sé hún það að öllu leyti, t.d. að íbúar einstakra staða úti á landi þurfi ekki, ef þeir óska eftir að sækja um gjaldeyri eða óska eftir gjaldeyri til eigin nota að sækja það um langan veg. Þess vegna eru skref í frjálsræðisátt í þessu efni af hinu góða. Sömuleiðis það að allir borgarar landsins skulu nú eiga þess kost, ef þeir kjósa, að fá til notkunar greiðslukort sem eins konar varasjóð á ferðalögum erlendis, þar sem ýmislegt óvænt getur upp á komið og menn kannske þurft að dveljast lengur en þeir gerðu ráð fyrir í upphafi. Ég þykist vita að þetta muni mælast vel fyrir hjá ferðafólki, enda sjálfsagt og eðlilegt.

Eitt er það þó sem eftir er að því er þessi gjaldeyrismál varðar. Enn mun það vera svo að til er einhvers konar miðstýrð skrá þar sem hver króna og hver eyrir, sem menn fá í erlendum gjaldeyri, hvort sem þeir eru að fara í ferðalag eða kaupa sér bækur, er skráð. Þetta er einhvers konar miðstýrð tölvuskrá yfir borgara landsins sem sækja um gjaldeyri. Ég held að þetta mætti leggja niður og fylgjast þá aðeins með því, þegar um óvenjulega eða óeðlilega háar upphæðir er að ræða, sem ekki eru beinn ferðakostnaður heldur ætlað til einhvers konar annarrar verðmætayfirfærslu.

Hæstv. ráðh. leiðréttir ef þetta er ekki rétt með farið. En eftir því sem ég best veit eru allar gjaldeyrisumsóknir, til ferðalaga og annars, skráðar niður á nafn hvers einstaklings. Mér sýnist þetta vera óþarft bókhald í nútíma þjóðfélagi og mætti sjálfsagt spara töluvert með því að leggja þessa skráningu niður og hafa þann háttinn á, sem ég hygg að sé í flestum nágrannalöndum okkar, að þetta er aðeins gert ef um er að ræða stærri upphæðir sem bankarnir gera einhverja aths. við eða telja ástæðu til að skoða málin sérstaklega, en ekki þegar um venjulegan ferðakostnað venjulegs fólks er að ræða. Sem sagt, ég lýsi stuðningi við þetta frv. og hefði það mátt vera fyrr á ferð.