09.12.1983
Neðri deild: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1600 í B-deild Alþingistíðinda. (1376)

Umræður utan dagskrár

Forseti (Ingvar Gíslason):

Ég get nú fullvissað hæstv. ráðh. um að það er lítill tími, enda erum við áreiðanlega öll sammála um það. Þess vegna er það sem ég vil leyfa mér að fara fram á það við hv. þdm., um leið og ég vil ekki þverskallast við því að menn fái að bera upp mál sem þeir telja mikilvæg utan dagskrár, eins og venja hefur orðið hin allra síðustu ár, að hv. þdm. átti sig á að við erum í tímaþröng. Ég vona að menn, sem beðið hafa um orðið, taki tillit til þeirra orða minna og reyni að vera stuttorðir. Það eru aðeins tveir hv. þm. sem beðið hafa um orðið að lokinni ræðu hæstv. iðnrh. Það er hv. 5. þm. Austurl., sem ég mun nú gefa orðið, en ég vænti jafnframt að hann verði við þeim tilmælum mínum að tala stutt og fara ekki út í langar efnislegar umr. um þetta mál, sem ég vil líka leggja áherslu á, og reyndar hef ég bent á það í einkaviðtölum mínum við hv. fyrirspyrjanda hér í dag, að er fjárlagaumræðumál. En ég leyfi mér nú að gefa orðið hv. 5. þm. Austurl. og þar næst hv. 3. þm. Vestf.