09.12.1983
Neðri deild: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1605 í B-deild Alþingistíðinda. (1381)

Umræður utan dagskrár

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins nefna hér vegna umr. um orkusparnað, svo nauðsynlegt mál sem þar er á ferðinni og mál sem farið var að hreyfa hér fyrst að gagni 1978 eða 1979 með skipun nefnda og margháttuðum aðgerðum, að menn mega ekki skjóta sér undan því að taka á þeim gífurlega kostnaði sem leggst á notendur nú með stuðningi, lækkun á gjaldskrám eða niðurgreiðslum vegna þess að menn ætli að ná árangri í orkusparnaði. Þessi mál verða að fylgjast að og ekkert má draga af í sambandi við lækkun hitunarkostnaðarins strax á næsta ári umfram þá öfugþróun sem verið hefur í gangi á þessu ári vegna þess að menn eru að búa sig í það sem tekur auðvitað talsverðan tíma, að ganga betur frá húsnæði í landinu, bæði gömlu húsnæði og nýju. Ég dreg ekkert úr slíkum svo sjálfsögðum aðgerðum og hef mælt með þeim á árum áður. Þar þurfum við að sækja fram því að það er þjóðhagslega skynsamleg leið og til þess þarf fjármagn og greiðan aðgang að fjármagni fyrir það fólk sem ætlar að taka þar til hendi og láta vinna fyrir sig að bættum frágangi húsa.

Hæstv. iðnrh. var að bera saman orkuþörf í húsum á Íslandi og í Svíþjóð og nefndi tölur í því sambandi sem ég hef nú ekki fyrir framan mig, en á hans máli skildi ég að samkv. reglugerð notaði sami húseigandi á Íslandi talsvert meiri orku heldur en notandi í Svíþjóð. Ef þetta er rétt skilið hjá mér, þessi samanburður hæstv. ráðh., vil ég aðeins minna á að meðalhiti á Íslandi og í Svíþjóð er ekki hinn sami og áreiðanlega mun vera kostnaðarsamara að jafnaði á Íslandi að ná sama árangri í sambandi við hitun, orkumagn til hitunar en að meðaltali í Svíþjóð alveg á sama hátt og vegna náttúrlegra aðstæðna er kostnaðarsamara að hita upp sambærilegt húsnæði á Vestfjörðum og Norðausturlandi en hér í Reykjavík.