12.12.1983
Efri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1632 í B-deild Alþingistíðinda. (1408)

43. mál, lagmetisiðnaður

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Hv. 6. landsk. þm. beindi til mín spurningu sem hann veit að erfitt er að svara. Ég geri ráð fyrir að hann beini henni til mín sérstaklega vegna þessa en ekki eins og eðlilegt hefði verið til iðnrh., en þetta heyrir ekki undir mitt rn. Ég held að það fyrirkomulag sem hefur átt sér stað um samskipti í þessari iðngrein hafi þó orðið til að byggja upp verulegan útflutning í greininni sem áður hafði reynst erfitt að gera. Þó að ég svari spurningunni þannig: „á móti einokun í hvaða formi sem er“ eru ákaflega afbrigðileg viðskipti við austantjaldslönd á öllum sviðum. Það er ekki bara á þeim sviðum sem hér greinir, heldur líka í peningamálum hér innanlands. Í bankaafgreiðslu vegna þessara viðskipta eru afbrigðileg tilfelli sem ekki þekkjast í hinum frjálsa heimi. Þannig að spursmálið getur verið: Eigum við að rækta þessi sambönd og flytja út — og með því að flytja út og framleiða í litlum byggðarlögum þar sem þessi framleiðsla getur stundum verið undirstaða velmegunar? Ég held að nauðsynlegt sé að brjóta ekki þær brýr að baki sem þarna eru með því að gera kröfur til að ráða skipulagi í viðskiptunum, að þau verði eins og við viljum en ekki eins og kaupendur í þessu tilfelli.

Við búum í einhverju frjálsasta lýðræðislandi sem til er í veröldinni og erum að skipta við kannske hin lokuðustu lönd sem eru fjarlægust lýðræðinu. Ég held því að við ættum að gera þennan samning, ekki bara til 12 mánaða, heldur þeirra 24 mánaða sem hér um ræðir. 24 mánuðir eru ekki langur tími og 12 mánuðir eru helmingi styttri tími. Við gætum kannske aukið meira viðskiptin á þessum 24 mánuðum en á 12 mánuðum þannig að ég er hér meira að tala frá viðskiptalegu sjónarmiði. Ég hef staðið í viðskiptum við þessi austantjaldslönd f. h. skipafélags og veit hvað það þýðir og ég veit hvað ég er að tala um þegar ég tala um afbrigðileg peningaviðskipti sem bankaráðsformaður í Útvegsbanka Íslands.