14.12.1983
Efri deild: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1819 í B-deild Alþingistíðinda. (1517)

149. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir það tækifæri sem við fengum til að kynna okkur þetta mál. Það virðist sem hér sé ekki ýkja stórt mál um að ræða og gefur það því ekki tilefni til mikilla umr. Ég vil þó benda á eitt atriði sem er nokkuð algengt fyrirbæri í íslenskri löggjöf.

Við erum hér að afgreiða lög þar sem verið er að skammta sveitarstjórnum í þessu landi mjög lítið svigrúm til þess að ákveða sínar tekjur og þá um leið ráðstöfunarfé. Í næsta herbergi hérna við hliðina á okkur er verið að ræða um að afhenda einum manni nákvæmlega öll völd, gjörsamlega óbundið, um allt það sem varðar framtíð okkar í sjávarútvegi. Þetta misræmi gengur aftur og aftur í íslenskri löggjöf.

Hér fyrir nokkru lagði hæstv. félmrh. fram lög um Húsnæðisstofnun. Þar er líka í óhemju mörgum og margliðuðum greinum nákvæmlega kveðið á um hvernig eigi að fara með gjaldstofna og úthlutun þess fjár sem þar er um að ræða. Þar þykir eðlilegt og sjálfsagt að ekkert svigrúm sé til ákvarðanatöku ráðh. í því máli.

Það sem skýtur skökku við í mínum huga er að hér meðhöndla menn með ólíku hugarfari að því er virðist málefni sem eru söm að innihaldi og þá um leið alvöru. Þarna finnst mér gæta ákveðins ósamræmis og bendir það að mínu mati eindregið til þess að löggjafarsamkundan sé ekki að öllu leyti sjálfri sér samkvæm um það hvert hennar hlutverk er.