15.12.1983
Sameinað þing: 33. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1855 í B-deild Alþingistíðinda. (1559)

139. mál, frysting kjarnorkuvopna

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem getið hefur verið um, að um það var rætt að standa þannig að málum að sú till. sem hér er á dagskrá verði send til n. til þess að hún geti fengið þar sem besta umfjöllun í tengslum við aðrar till. um afvopnunar- og friðarmál sem eru til meðferðar í hv. utanrmn.

Vegna þess að hér var af hæstv. utanrrh. hafin umr. um utanrmn.-fund í morgun og hv. 8. þm. Reykv. nefndi þann fund og í sínu máli verður að láta það koma fram að það ber að harma og ég læt það koma fram sem mína skoðun að ég tel það afleitt, að ekki sé meira sagt, að hv. Alþingi Íslendinga skuli vera eina þjóðþingið í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku sem ekki hefur á síðustu vikum vígbúnaðarbrjálæðisins fengið að fjalla sem skyldi um þau mál sem mestu ráða um örlög alls mannkyns og framtíð um þessar mundir.

Hér hefur ekki verið tekin afstaða til till. um uppsetningu meðaldrægra eldflauga. Hér hefur ekki verið tekin afstaða til till. um frystingu kjarnorkuvopna. Hér hefur ekki verið tekin afstaða til till. frá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni og Birgi Ísl. Gunnarssyni um afvopnunar- og friðarmál. Þessar till. hafa verið ræddar hér og þeim hefur verið vísað til n. en ekki hefur fengist afgreiðsla á þeim hér. Ég tel ákaflega slæmt að þannig skuli hátta til með tilliti til þess hvað hér eru gífurlega stór mál á ferðinni sem ráða úrslitum um framtíð alls mannkyns, eins og ég komst að orði hér áðan.

Í umr. um þinghaldið núna að undanförnu hefur verið lögð á það áhersla af fulltrúum nokkurra stjórnarandstöðuflokka að utanríkismálin fengju afgreiðslu fyrir hátíðarnar. Það er ekki ljóst hvort af því verður. Enn eru nokkrir dagar þar til þingi lýkur, þannig að hugsanlegt er að einhver afgreiðsla fáist á þessum málum áður en þingi lýkur fyrir jól. Í utanrmn. í morgun var rætt um að halda störfum þar áfram á fleiri fundum fram að hátíðunum ef nokkur leið væri að koma slíku við í þeim önnum sem þingið er í núna.

Engu að síður er greinilegt að Alþingi Íslendinga mun ekki taka afstöðu til till. Mexíkó og Svíþjóðar um stöðvun á framleiðslu og uppsetningu kjarnorkuvopna sem liggur fyrir Allsherjarþinginu vegna þess að atkvgr. um þessa till. fer fram í dag. Þannig hefur það gerst að ekki hefur náðst að fá formlega niðurstöðu á Alþingi Íslendinga í þessu máli. Samt sem áður hefur hæstv. ríkisstj. kosið að fara fram með sína afstöðu án þess að spyrja þingið þó að ríkisstj. hafi auðvitað haft nógan tíma til að ráðgast við þingið um þetta mál. Þessi vinnubrögð ríkisstj. gagnvart hv. Alþingi ber auðvitað að harma og gagnrýna. Og það geri ég hér. Þess vegna taldi ég óhjákvæmilegt að kveðja mér hljóðs.