15.12.1983
Sameinað þing: 33. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1856 í B-deild Alþingistíðinda. (1561)

139. mál, frysting kjarnorkuvopna

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð: Það er auðvitað rétt sem komið hefur fram hér, að mjög æskilegt hefði verið að þessi mál hefðu verið lengra komin í umr. og Alþingi hefði mótað afstöðu í þeim fyrr. En ég tel það engu síður aðalatriði þessa máls að gengið verði nú til verka.

Eins og kom fram í máli hæstv. utanrrh. hefur það verið ætlun utanrmn., m.a. fyrir tilmæli hæstv. forsrh., að samræma sjónarmið, að leita eftir samstöðu eins langt og hún getur gengið. Og ég verð að segja það, þó ekki sé til siðs að fjalla um efnisleg atriði á fundum utanrmn., að á þeim fundi sem haldinn var í morgun — og með því tel ég mig ekki brjóta neinn trúnað — fannst mér koma fram mjög góður vilji af allra nm. hálfu til að leita eftir slíkri samstöðu og ég tel að slík vinna sé þegar komin áleiðis. Ég mætti kannske bæta því við að mér virðist reyndar vera ekki bara vilji heldur líka áhugi meðal nm. og ég vil þá sérstaklega geta um ágæta stjórn varaformannsins á nefndarfundinum. Mér finnst að við verðum líka að líta á þessa jákvæðu hlið málanna eins og þau standa núna og ég vænti þess að þingflokkarnir leggi sitt af mörkum til að reyna að ná hér samstöðu eftir því sem unnt er og góður vilji í þeim efnum greiðir fyrir.

Ég skal svo ekki, herra forseti, fjölyrða frekar um þetta. Aðalatriði málsins er að menn gangi til verka og ég tel að menn hafi þegar leitast við að gera það.