15.12.1983
Sameinað þing: 33. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1861 í B-deild Alþingistíðinda. (1564)

139. mál, frysting kjarnorkuvopna

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir raunar leitt að þurfa að vekja athygli á því hvað hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson var í rauninni að segja. Hann sagði að Íslendingar væru kjarnorkuvígbúnaðarland, meira kjarnorkuvígbúnaðarland en önnur lönd. Hann sagði að menn væru annars vegar friðarmegin og hins vegar vopnanna megin eða eitthvað á þá leiðina og þegar við sem viljum reyna að ná sameiningu um ályktun um stefnu Íslands í þessum málum ræddum um það á þann veg væri það bara grín, við meintum nákvæmlega ekkert með því vegna þess að við værum vígbúnaðarland, kjarnorkuvígbúnaðarland, við værum vopnanna megin en ekki friðarins megin. Öll þessi orð sagði þessi hv. þm. og ég endurtek að mér þykir leitt að þurfa að vekja á þessu athygli.

Árásirnar á utanrrh. eru líka svo ódrengilegar að ég átti ekki von á þeim, hvorki frá hv. þm. Ólafi Ragnari né hv. þm. Svavari Gestssyni. Og aðdragandi þessa máls, sem hæstv. utanrrh. er nú sérstaklega svívirtur fyrir, er sá að málið hafi ekki fengið eðlilega afgreiðslu í Alþingi. Hæstv. utanrrh. stjórnar ekki Alþingi. Það er þá verið að beina þessum skeytum að hæstv. forseta okkar. Ég hef ekki heyrt áður að hann stundaði ódrengilega fundarstjórn heldur þvert á móti.

Tillögurnar sem nú liggja fyrir utanrmn. eru að vísu gamlar sumar. Ein, till. sjálfstæðismanna, er mjög gömul, 6. mál þingsins. Hinar eru miklu yngri eins og fram kom áðan. Till. frá sjálfstæðismönnum kom til utanrmn. 6. des. Hinar tvær tillögurnar komu, ég veit ekki nákvæmlega hvaða dag en í síðustu viku. s.l. mánudag var fundur í hv. utanrmn. um morguninn. Á þeim fundi var hæstv. utanrrh. þótt hann kæmi heim um miðja nótt og hefði lítinn svefntíma. Að vísu var sá fundur haldinn til að ræða utanríkismál almennt og þ. á m. kannske ekki síður stórt mál fyrir okkur Íslendinga og náttúrlega fyrir okkur sérstaklega, eitt af okkar allra stærstu málum sem er heimilt að upplýsa um, en það er ný skýrsla frá okkar aðalsérfræðingi í hafréttarmálum, Hans G. Andersen, og þó einkum þeim erlenda sérfræðingi sem fyrir okkur hefur unnið þar sem tekið er undir meira og minna öll meginsjónarmið okkar í hafréttarmálunum varðandi Reykjaneshrygg, Rockall-svæðið o.s.frv. Þetta var stórmál sem við ræddum á báðum þessum fundum því að annar fundur var í nefndinni í morgun eins og fram hefur komið. Þetta mál var að vísu talsvert mikið rætt á mánudagsfundinum og mikill tími fór í það og menn voru þar tímabundnir. Hin málin voru þó rædd, að vísu lítillega. Þar kom fram ósk frá hv. þm. Svavari Gestssyni um að fundur yrði haldinn næsta dag, á þriðjudegi. Við komumst að þeirri niðurstöðu að erfitt væri að koma því fyrir vegna þess að menn væru búnir að ráðstafa sér meira og minna allan þann dag. Ég sagði þar að ég sæi nú varla hvernig ég gæti komið því fyrir og ég held að það hafi verið fullkomið samkomulag um að fundur yrði ekki haldinn á þriðjudegi.

Á þriðjudagseftirmiðdag — og nú er ég að svara hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni og árásum hans á mig — gekk ég á milli nefndarmanna og forustumanna allra flokka. Við vorum að reyna að koma saman fundi á miðvikudegi. Það var allsherjarsamkomulag um að fundurinn skyldi haldinn kl. 9 á fimmtudegi. Þ. á m. talaði ég við hv. þm. Svavar Gestsson sem samþykkti það og við ákváðum öll í sameiningu að halda þann fund núna á þessum morgni. Sá fundur fór svo til allur í að ræða þessi mál, að vísu kom ég aðeins inn á það í byrjun eins og ég hafði komið inn á og hæstv. utanrrh. raunar líka á mánudagsfundinum að nú á þessum dögum þyrftu þm. að koma sér saman um einhverja skipan á væntanlegum viðræðum við Breta, Íra og Færeyinga, viðræður sem eru alveg á næstu grösum, á svipaðan hátt og var í Jan Mayen-málinu þannig að allir flokkar ættu með einhverjum hætti aðild að þeim viðræðum. Og þar er ekki verið að uppljóstra neinum leyndarmálum þótt sagt sé að allir voru líka sammála um að áður en við skildum mundum við koma einhverju formi á það hvernig við stæðum að þessari næstu og væntanlega síðustu sókn okkar í landhelgismálunum og gera það áður en við skildum nú fyrir jólin að koma okkur saman um hvernig við ættum að haga þeim málum, og hittast svo annaðhvort milli jóla og nýárs eða í byrjun jan. til að undirbúa þau mál. Þetta er nú allur sannleikurinn um gang þessara mála.

Ég tel það ekki þjóna tilgangi að ég fari að taka hér þátt í hnútukasti um þessi mál, hvorugt þessara mála, því að um þau bæði eigum við að leita samstöðu og hafa um samstöðu. Því held ég að við ættum að gera okkur grein fyrir. Ég þarf ekki að verja hæstv. utanrrh., hann getur gert það sjálfur. En það er alveg ljóst að hann á enga sök á einhverjum drætti í þessu máli eins og fram hefur komið í því sem ég þegar hef sagt. En ég endurtek að mergurinn málsins er sá að við reynum að standa saman um þessi mál og við ætlum okkur einmitt nú síðdegis eða á morgun að athuga betur hvort hugsanlega sé allsherjarsamstaða. Og að sjálfsögðu stendur ekki á mér að boða fund í utanrmn. hvenær sem er ef menn hafa til þess tíma, hvort sem það er á helgum degi eða rúmhelgum eða næturlagi. Jafnvel þótt ekki væri samstaða. Ef einhver krefst slíks fundar verður hann haldinn.