15.12.1983
Sameinað þing: 33. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1867 í B-deild Alþingistíðinda. (1568)

139. mál, frysting kjarnorkuvopna

Flm. (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég harma það engu síður en aðrir, sem á undan mér hafa talað, að Ísland skuli ekki styðja þá tillögu um kjarnorkuvopnafrystingu sem nú er verið að greiða atkv. um í dag á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Þrátt fyrir það tel ég ekki að stefna Íslands hafi verið mótuð í þeim málum í eitt skipti fyrir öll. Ég tel ekki heldur að síðustu skrefin til sátta hafi enn verið stigin, hvorki á Allsherjarþingi sameinuðu þjóðanna né í afvopnunarviðræðunum í Genf. Ég áskil mér því frest og mun bíða með að fella endanlegan dóm um raunverulegan friðar- og sáttavilja allra aðila í þessu máli þar til fullreynt er. Ég vil enn fremur lýsa þeirri skoðun minni, að ég held að það sé ekki vænleg leið til sátta að hamra stöðugt á svörtum og hvítum nótum. Í daglegu lífi eru það vanalega gráu tónarnir sem duga og ég held að það sé líka í þessu máli.

Ég ítreka þá ósk mína að þessi þáltill. komist sem fyrst til nefndar og vil því ljúka máli mínu með því að leggja áherslu á að ég hef ríka ástæðu og sterka von vegna þeirra ummæla sem höfð voru á fundi utanrmn. í morgun um að þm. geti náð saman um afstöðu til afvopnunarmála áður en þinghlé hefst fyrir jól. Ég vil undirstrika þá sterku von sem ég hef. Ég hvet þm. til að færa þjóðinni slíka samstöðu í jólagjöf.