15.12.1983
Neðri deild: 26. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1879 í B-deild Alþingistíðinda. (1592)

128. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég er nú ekki formaður þingnefndar um þessar mundir en ég vil taka undir orð forseta þrátt fyrir það. Þingnefndir verða auðvitað að reyna að haga sínum störfum svo að ekki verði truflun á þingfundum, það sé hægt að setja fundi og unnt að koma við atkvgr. En ég hlýt að geta þess að fjvn. þarf að vinna bæði daglangt og langt fram á nótt stundum á þessum tíma árs til þess að ljúka afgreiðslu fjárlaga. Hún hefur að ég ætla nokkra sérstöðu um þessi vinnubrögð og þó að þau séu með þessum hætti þá vil ég taka undir með forseta að fjvn. þarf auðvitað að vera viðstödd þegar fundir hefjast í deildum og í Sþ. En það væri mjög þarft að hafa um það samstarf á milli forseta deilda og formanns fjvn. að atkvgr. gætu farið fram á nokkurn veginn tilteknum tíma.

Að öðru leyti reyna nm. í fjvn. að koma til atkvgr. hér í þinginu þegar eftir því er leitað og ég vænti þess að félagar mínir þar séu nú á leiðinni í þingsalinn. Störf þeirrar nefndar eru með þeim hætti að því verður ekki við komið að nm. sitji hér reglubundið allan daginn.