15.12.1983
Neðri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1882 í B-deild Alþingistíðinda. (1601)

133. mál, gjaldeyris- og viðskiptamál

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Þeir þrír bankar sem fyrir skömmu fengu heimild til gjaldeyrisverslunar með þeim hætti sem gerð er grein fyrir í aths. við þetta frv. hafa, eftir því sem ég best veit, ekki þurft að bæta við sig einum einasta starfsmanni og ekki auka húsnæði sitt til þessarar starfsemi. Ég gat um það sérstaklega að hér er fyrst um sinn um að ræða takmarkaða gjaldeyrisþjónustu, fyrst og fremst þjónustu fyrir fólkið í landinu. Þessir þrír bankar sem ég vék hér að áðan hafa farið að mínum dómi mjög skynsamlega að í þessum efnum. Þeir hafa gert samkomulag við þá gjaldeyrisbanka sem áður höfðu alhliða gjaldeyrisviðskipti og hafa við þá samstarf í þessum efnum. Það hefur að sjálfsögðu komið þeim að góðu gagni og orðið til þess að þeir hafa getað tekið upp þessa starfsemi án þess að fjölga starfsfólki eða auka húsnæði.

Varðandi síðari spurninguna, um sameiningu ríkisbankanna, vísa ég til þess þegar þing kemur saman eftir jólaleyfi. Þá verða væntanlega lögð fram frv. um Seðlabankann, viðskiptabankana og sparisjóðina. Þá getur farið hér fram umr. um sameiningu ríkisbanka. Umr. innan ríkisstj. um sameiningu ríkisbanka hefur ekki átt sér stað, enda almennri umr. um bankamálin ætlað að fara fram þegar þessi þrjú frv. sem ég gat um hér áðan verða lögð fyrir Alþingi.