16.12.1983
Neðri deild: 29. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1953 í B-deild Alþingistíðinda. (1665)

128. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Hv. seinasti ræðumaður, 4. þm. Reykv. Birgir Ísl. Gunnarsson, tók svo til orða að hann hefði heyrt eindregna og ákveðna yfirlýsingu — eða hvort hún var ákveðin og eindregin — af hálfu hæstv. iðnrh. um að hann mundi beita sér fyrir því að undirbúa að lækka eða afnema þetta gjald. Tónninn hefur sjálfsagt verið ákveðinn og eindreginn, en efnisinnihaldið er það sama og við höfum heyrt á mörgum undanförnum þingum þegar þetta mál hefur verið til umfjöllunar. — Nú má þetta ekki dragast öllu lengur.

Hér er annars vegar um það að ræða að sú upphæð sem er ættuð í þetta verðjöfnunargjald og miðuð við 19% er langt umfram það sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Þó að það hafi gerst á undanförnum árum þegar reiknitölur fjárlaga voru langt frá þeirri verðbólgu sem síðar varð er það auðvitað annar handleggur. En nú verður væntanlega minni verðbólga á árinu 1984 en á árinu 1983. Skýringin á þessum háu tölum, sem ekki komust inn í fjárlagafrv. en eru í reynd, er vitaskuld sú, að raforkan hefur hækkað svo gífurlega í verði og menn hafa ekki tekið tillit til þess þegar áætlun var gerð í fjárlagafrv. Hér er því ótvírætt um að ræða að það séu langtum meiri fjármunir sem leggist á með 19% gjaldinu en gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. Við því á auðvitað að bregðast með því að lækka verðjöfnunargjaldið úr 19% í 12%, eins og hér hefur verið flutt till. um.

En það eru fleiri hliðar á þessu máli, eins og reyndar kom fram í máli hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar, 4. þm. Reykv. Verðjöfnunargjaldið er nefnilega ekki nýtt til að jafna raforkuverðið. Ýmsar þær rafveitur sem njóta forréttinda skv. þessu lagafrv., eins og það hefur verið og eins og það mun verða og frv. er um að endurnýja það, setja raforkuna langtum ódýrara en aðrar sem einskis njóta. Fyrirkomulagið er að gjaldtaka alla þjóðina, alla raforkunotkun í landinu, í því skyni væntanlega að jafna verð á raforku. Það sem gert er er það, að stærstur hluti rennur til Rafmagnsveitna ríkisins, 3/4 hlutar ef ég man rétt, eða 80% og 20% til Orkubús Vestfjarða, en auk þess er ein rafveita, Rafveita Siglufjarðar, undanþegin, þ.e. hún þarf ekki að standa skil á sínum parti. Ef við nú lítum á gögn frá Sambandi ísl. rafveitna um hvernig þessir taxtar séu er það mjög athyglisvert.

Raforka til heimilisnota kostar 4,32 kr. á kwst. skv. yfirlitinu frá Rafmagnsveitum ríkisins eða Orkubúi Vestfjarða til notenda, en t.d. hjá Rafveitu Keflavíkur kostar hún 4,85 kr. Sama gerist að því er lýsingu varðar. Rafmagnsveitur ríkisins selja rafmagn til lýsingar á 3,85 kr., Rafveita Selfoss á 5,10 og Rafveita Borgarness á 6,46. Eða eigum við að líta á dæmið um stórar vélar, þar sem Rafmagnsveitur ríkisins selja kwst. á 2,62, en Rafveita Keflavíkur og Rafveita Vestmannaeyja á 3,03 kr. annars vegar og 3,33 kr. hins vegar? Það dugar ekki bara að lækka verðjöfnunargjaldið, heldur verður að beita því til að jafna raforkuverðið í landinu.

Sama er uppi á teningnum ef litið er á meðalverð á rafmagni án hitasölu á árinu 1982. Rafmagnsveitur ríkisins selja á 1,20 kr. per kwst., en Rafveita Keflavíkur á 1,83 kr. — 63 aurum hærra en Rafmagnsveitur ríkisins, rúmlega 50% hærra en Rafmagnsveitur ríkisins.

Ef meðalverðið er skoðað á allri raforku í smásölu á árinu 1982 kemur í ljós að Orkubú Vestfjarða selur raforkuna með sköttum á 1,14 kr. og Rafmagnsveitur ríkisins á 1,20 kr., Siglufjörður á 1,34, sem nýtur sérstakrar undantekningar, en Njarðvíkingar verða að borga 1,76 og Keflvíkingar 1,83. Og fleiri eru rafveitunnar. sandgerðingar borga t.d. hærra verð en allar þessar rafveitur og sama gildir reyndar á Húsavík. Hér er því ekki bara um upphæðina að ræða, heldur líka hvernig henni skuli útdeilt.

Ef menn eru skattlagðir í raforkunotkun sinni hvar sem þeir búa á landinu í því skyni að jafna verð á raforku, þá á auðvitað að sinna því markmiði. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að við fáum skýrari svör frá hæstv. ráðh. um það, hvað hann sé reiðubúinn að gera núna eða á árinu 1984. Ef hann er ekki reiðubúinn að lækka gjaldið núna verðum við auðvitað að fá að vita það, en þá finnst mér að það sé lágmarkskrafa að á vorþinginu fáum við nýtt frv. frá ráðh. þar sem þetta sé endurskoðað á árinu 1984 og þannig að það geti tekið gildi síðari hluta ársins 1984, bæði að því er varðar upphæð gjaldsins og eins það fyrirkomulag sem vera skuli á greiðslum úr þeim sjóði sem þarna er myndaður.