17.12.1983
Efri deild: 35. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2047 í B-deild Alþingistíðinda. (1731)

161. mál, málefni aldraðra

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Þetta frv. er um breyt. á lögum um málefni aldraðra. Það felur í sér hækkun á hinum svonefnda nefskatti úr 300 kr. í 460 kr. og í stað 60 þús. kr. í 3. málsl. komi 92 400 kr., sem byggist á 54% skattvísitölu á milli ára. Sömuleiðis er hér lagt til að breyta 3. tölul. 12. gr. laganna um það að styrkja byggingu sveitarfélaga á hjúkrunar- og sjúkradeildum fyrir aldraða með jafnháu framlagi og veitt er til sjóðsins á fjárlögum til þessara verkefna og jafnframt til frekari skýringar að þessi styrkur telst hluti af 85% framlagi ríkissjóðs skv. 34. gr. laga um heilbrigðisþjónustu.

Í ljós hefur komið að skiptar skoðanir hafa verið um túlkun á 3. tölul. 12. gr. Frv. er flutt til að gera túlkun hans óvefengjanlega, þannig að skýr sér sá vilji sem að baki þess ákvæðis liggur. Það er því nákvæmar orðað. Skv. því skal af mörkuðum tekjustofni sjóðsins greiða til hjúkrunar- og sjúkradeilda aldraðra jafnháa fjárhæð og sjóðurinn fær á fjárlögum frá ríkissjóði til að sinna þessu verkefni.

Í fjárlagafrv. eru engar tekjur til Framkvæmdasjóðs aldraðra aðrar en þessi áðurnefndi skattur, 300 kr. á mann, sem er lagt til að hækki í 460 kr. og er þá talið að muni gefa sem næst 42 millj. kr. í tekjur, en það hefur orðið að samkomutagi að fjvn. muni flytja brtt. við 3. umr. um fjárlög um 15 millj. kr. framlag frá ríkissjóði til Framkvæmdasjóðs aldraðra og til að tryggja að til sjúkrastofnana aldraðra komi jafnhátt framlag af þessu sérstaka gjaldi, þannig að 30 millj. verði varið til sjúkrastofnana. Þá mun verða eftir um annað eins til annarra dvalarheimila.

Frá því að þessi skattur var upprunalega lagður á hefur verið um það víðtækt samkomulag á milli stjórnar og stjórnarandstöðu að hafa hann með þessum hætti. Í hvert skipti sem honum var breytt og lög sett eða endurnýjuð náðist um það einnig víðtækt samkomulag. Ég tel að til þess að koma í veg fyrir mismunandi túlkun hafi verið nauðsynlegt og sé nauðsynlegt að leggja þetta frv. fram og fá það afgreitt. Þetta er ástæðan að baki frv. sem liggur nú fyrir.

Virðulegi forseti. Ég legg til að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr.- og trn. og 2. umr.