19.12.1983
Efri deild: 38. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2101 í B-deild Alþingistíðinda. (1813)

161. mál, málefni aldraðra

Frsm. (Helgi Seljan):

Virðulegi forseti. Heilbr.- og trn. hefur fjallað um frv. til l. um breytingu á lögum um málefni aldraðra. Efni frv. er tvíþætt. Annars vegar er hækkun nefskattsins sem til Framkvæmdasjóðs aldraðra rennur svo framkvæmdamagn minnki ekki á næsta ári svo neinu nemi. Ótæmandi verkefni bíða og þurfa að eiga að hafa forgang í þjóðfélaginu og því eðlilegt að þau séu tekin öðrum tökum en aðrar athafnir sem fremur má hægja á við þessar aðstæður. Hins vegar er svo lagabreyting sem tekur af öll tvímæli um framlög til sjúkra- og hjúkrunardeilda og tryggir um leið mótframlag á fjárlögum til þeirra. Þannig verður nú 15 millj. kr. framlag á fjárlögum sem fram kemur í brtt. fjvn. í stað 11 sem þar var áður. Alls mun þetta þýða 61 millj. kr. framlög á næsta ári úr Framkvæmdasjóði aldraðra og af fjárlögum í stað 42 svo sem frv. til fjárlaga gerði upphaflega ráð fyrir. Heilbr.- og trn. mælir einróma með samþykkt frv.