25.10.1983
Sameinað þing: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í B-deild Alþingistíðinda. (196)

452. mál, jafnréttislög

Fyrirspyrjandi (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Ég þakka svar hæstv. samgrh. þó að mér falli það nú ekki, langt frá því. Ég tel það mjög miður að ekki skuli vera stefnt að því að kaupa nýtt skip í stað Grettis. Eins og fram kom hjá hv. 5. landsk. þm. þá lýsti núv. forsrh., fyrrv. samgrh. því yfir hér í fyrravetur að að því mundi verða stefnt að kaupa nýtt skip í staðinn. Hann benti einmitt á þá staðreynd að það er raunverulega ekki grundvöllur fyrir því að bjóða út verk eins og þau sem þetta sérhæfða skip vinnur. Það yrði raunverulega um einokunaraðstöðu að ræða hér á landi ef ætti að fara að bjóða slíkt út. Það gæti verið að einhver einn aðili, eitthvert sterkt verktakafyrirtæki hefði bolmagn til að kaupa slíkt tæki. En það þýddi að það fyrirtæki væri eini aðilinn sem gæti unnið það verk.

Ég lýsi líka undrun minni á að það skuli eiga sér stað að tæki eins og þetta, sem var að mörgu leyti mjög vanhæft til siglinga, skyldi ekki hafa verið vátryggt hærra en raun ber vitni um. Ég tek undir till. hv. þm. Kjartans Jóhannssonar um það að tryggingamál ríkisins verði athuguð einmitt út frá þessu atriði, að við þurfum ekki að eiga það á hættu að ýmsar eignir ríkisins, ef þær fyrirfarast í tjónum, verði ekki betur bættar en hér varð raunin.

Ég vil að lokum segja það að mér finnst ástandið í hafnarmálum hjá okkur vera ósköp svipað því nú, ef við kæmum með dæmi ef við höfum ekki tæki eins og Gretti til að vinna framkvæmdir við hafnir — að við færum að senda loðnuflotann okkar núna til veiða, þegar við vitum að það er komin nóg loðna í sjóinn, við færum að senda loðnuflotann okkar til veiða með gamla snurpunót og snurpubáta. Það er verið að hoppa það langt aftur í tímann með því að vera ekki með grafskip líkt og Gretti, það er verið að hoppa álíka langt aftur í tímann og ef þetta væri gert í sambandi við loðnuflotann í dag.