24.01.1984
Sameinað þing: 37. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2267 í B-deild Alþingistíðinda. (2000)

406. mál, þyrlukaup

Fyrirspyrjandi (Árni Johnsen):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. þau svör sem hann hefur gefið og er þakklátur fyrir það sjónarmið, sem kemur fram hjá ráðh., að vinna eigi hratt og markvisst að afgreiðslu þessa máls. Það má geta þess hér, að sú könnun sem gerð var á vegum Alþingis, ráðuneyta og Landhelgisgæslu í Aberdeen er gerð í stærstu þyrluflughöfn í heimi, þar sem gerðar eru út 80 þyrlur, allt frá 6 farþega upp í 44 farþega, þyrlur af nær öllum gerðum sem notaðar eru í heiminum. Þessi útgerð flytur um það bil 1 millj. farþega á ári, nær allt farþega í tengslum við olíuborpallana á Norðursjó, og er þar unnið við hinar erfiðustu aðstæður oft og tíðum.

Þær þyrlur, sem um er að ræða og menn hafa helst horft á, eru af gerðinni Sikorsky eins og TF-Rán var, af gerðinni Bell, franskar Dauphin þyrlur frá sömu verksmiðju og Super Puma og einnig þyrla af gerðinni Westland. Þær þyrlur sem helst hafa verið skoðaðar, af gerðinni Sikorsky, Bell, Westland og Dauphin, eru af svipaðri stærð, taka 11–12 farþega. TF-Rán var 12 farþega véi. Super Puma vélin, sem gefur óneitanlega mun meiri möguleika, er um 20 farþega vél, mun stærri en einnig um það bil helmingi dýrari en þær aðrar þyrlur sem ég hef nefnt af stærðargráðunni 12 farþega.

Þetta eru allt atriði sem auðvitað koma til álita og viðmiðunar, en það er samdóma álit þeirra sem stunda þyrlurekstur í fullri alvöru að það sé grundvallaratriði að búa út mjög fullkomna rekstraraðstöðu fyrir þyrlurekstur og að það þurfi að hafa ákveðið rennsli, ákveðna þjálfun bæði í flugtíðni og þjálfun í viðhaldi á vélum. Það er e.t.v. þess vegna fyrst og fremst sem fram er komin sú ósk allra aðila, sem um málið fjalla, að keyptar verði tvær þyrlur til þessarar þjónustu sem fer sívaxandi og á eflaust eftir að skipta miklu máli í framtíðaröryggisþjónustu og gæslu á Íslandi.