24.01.1984
Sameinað þing: 38. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2307 í B-deild Alþingistíðinda. (2034)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég tel að hér fari fram mjög þarfar umræður að ýmsu leyti, þó að þær mættu kannske vera eitthvað frjórri. Ég get að vísu ekki stillt mig um að segja að mér finnst ekki mjög vel við hæfi þegar hv. þm. Svavar Gestsson talar með heilagleikasvip um göfgi síðustu ríkisstjórnar og talar um að í þeirri stjórnartíð hafi öll efnahagsmarkmið önnur þurft að víkja fyrir því að halda uppi fullri atvinnu. Þetta var eins konar afsökun fyrir því að verðbólgan þyrfti þá að vera 60–100%. Öll markmið varðandi verðbólguna urðu skv. þessu að víkja. Þetta er líka sett fram eins og afsökun fyrir því að á mesta góðæri sem yfir okkur hefur gengið fyrr og síðar skyldu menn safna upp erlendum skuldum. Það var allt í lagi.

Mér finnst þetta heldur billegt. Mér finnst það ekki bera vott um góða efnahagsstjórn ef menn telja sig þurfa 60–100% verðbólgu til að hafa fulla atvinnu. Mér finnst það ekki bera vott um góða efnahagsstjórn þegar menn hrúga upp erlendum skuldum á sama tíma og mesta góðæri sem við höfum nokkurn tíma lifað í aflabrögðum gengur yfir þjóðina. Ég held að við eigum að hafa þetta í huga þegar við ræðum þessi mál núna. Og fyrri ríkisstj. á náttúrlega sinn þátt í því hvernig komið er hér núna. Hún ber ábyrgð á þeirri erlendu skuldasöfnun sem ég hef hér gert að umtalsefni og þrengir stöðuna núna — eða ég tel að þessi erlenda skuldasöfnun geri það. Og hún ber sinn hluta ábyrgðarinnar á vitlausri fjárfestingu sem við höfum búið við hér á undanförnum árum og hefur orðið baggi á þjóðinni. Það er alveg ljóst.

Mér finnst það líka táknrænt þegar hæstv. forsrh. lýsir því yfir að hér áður — í tíð fyrrv. ríkisstj. — þurftu menn ekkert að vanda sig við það að meta lán sem tekin voru erlendis, menn þurftu ekkert að vanda sig við það. Nú þyrfti hins vegar að meta það mjög vandlega. Ég er ekki á sömu skoðun. Ég tel að alla tíð hafi menn átt að vanda sig mjög við að meta hvort það ætti að taka erlend lán eða ekki. Ég tel að það hafi verið ábyrgðarleysi og kæruleysi að hrúga upp erlendum skuldum á sama tíma og hér ríkti það góðæri sem ég hef áður lýst. Ég tel að það sé ábyrgðarleysi og kæruleysi að vísa vanda þannig á framtíðina.

En hæstv. forsrh. gekk lengra. Hann sagði: Núna getur samt verið — þrátt fyrir allar fyrri yfirlýsingar — að við eigum að taka erlend lán til að reka atvinnuvegina, skildist mér. Ég held menn eigi að fara varlega í þeim efnum. Ég skildi reyndar hv. þm. Þorstein Pálsson, formann Sjálfstfl., þannig að hann gerði þær kröfur að erlend lán færu í arðbærar framkvæmdir. Hans yfirlýsing er þá ekki í samræmi við það sem mér fannst felast í orðum hæstv. forsrh.

Ég held okkur eigi ekki að standa á sama um að það sé skrifað um það í virtum erlendum tímaritum, m.a. hagfræðilegum, að við séum líklega skuldugasta þjóð í heimi. Ég held að okkur eigi ekki að standa á sama um það og ég held að við eigum að hyggja vel að því að slá ekki eigið met í þeim efnum. Þetta finnst mér nauðsynlegt að menn hafi í huga við núverandi aðstæður. Þetta er nefnilega alvörumál.

Mér finnst líka stundum að þegar menn ræða þau ytri áföll sem við segjum að við höfum orðið fyrir núna geri menn það nokkuð gálauslega. Menn taka gjarnan tvær tölur og segja: Ja, aflinn var 450 þús. tn í hittifyrra í þorski og 290 þús. tn í fyrra. Nú verður hann 220 þús. tn. Og svo segja menn: Og það sér auðvitað hver maður í hendi sér að þetta hlýtur að hafa geigvænleg áhrif í atvinnulífinu. — En áhrifin eru ekki svona mikil, herrar mínir. Menn hafa nefnilega sótt í aðrar fisktegundir í staðinn þegar þeir fengu ekki öllu meiri þorsk. Samdrátturinn í heildarafla á föstu verðlagi er ekki 50%, eins og menn gætu haldið af þessum málflutningi. Hann er 7.5–8% milli áranna 1982 og 1983. Hann er ekki 50%. Menn hafa sótt í annan afla. Og ef menn taka það líka með í reikninginn að sumt af því sem menn hafa sótt, eins og rækjan, er mjög verðmætt, þá má vera ljóst að verðmæti sjávarafurðaframleiðslunnar hefur minnkað enn minna. Það hefur ekki minnkað um 50%, ekki einu sinni um 7.5–8%. Verðmæti sjávarafurðaframleiðslunnar hefur minnkað milli áranna 1982 og 1983 um 5–6%. Við skulum hafa þessar staðreyndir á hreinu.

Auðvitað höfum við orðið fyrir ytri áföllum og auðvitað eru fram undan hjá okkur, að því er virðist, frekari áföll í þessum efnum. En við skulum þó a.m.k. halda stærðarskyninu nokkurn veginn í réttu lagi.

Þessi umræða var hafin út frá atvinnuástandinu. Ég vil ítreka það, sem hér hefur komið fram og ég vænti að sé skoðun allra þm. og allra flokka, að atvinnuleysi sé sóun á verðmætum, atvinnuleysi sé sóun á efnalegum verðmætum í fyrsta lagi og í annan stað og ekki síður sóun á mannlegum verðmætum og þess vegna beri að gera allt sem unnt er til að tryggja ævinlega fulla atvinnu. Þá hljóta menn að spyrja: Hvernig eigum við að bera okkur að við núverandi aðstæður til að tryggja fulla atvinnu? Hvernig eiga menn að sporna við fótum? Hvernig eiga menn að afla frekari atvinnutækifæra en við höfum núna?

Ég verð að segja að þær hugmundir sem hér hafa verið reifaðar þykja mér heldur seinfarnar. Að vísu kom upp að því er virtist stórkostlegur skoðanaágreiningur milli formanns Sjálfstfl. annars vegar og formanns Alþb. hins vegar. Annars vegar vildi formaður Alþb. skrá atvinnutækifæri, en hins vegar skilst mér að ríkisstj. vilji skrá atvinnuhugmyndir. Ég tel ekki mjög mikinn mun á þessu. Svo fóru hæstv. forsrh. og hv. þm. Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstfl., að lýsa því hvernig menn ætluðu að bera sig til. Ég er ansi hræddur um að sumir verði þá að bíða nokkuð lengi eftir vinnu. Það átti nefnilega að gera þetta þannig að fá fyrst tillögur frá þessari nefnd, sem er nú ekki komin á koppinn enn þá. Það er bara búið að samþykkja að hún skuli stofnuð. Hún er nú ekki einu sinni byrjuð að starfa. — Fyrst á að fá tillögur frá nefndinni: Svo á að athuga hvað þær till. muni kosta. Síðan á að athuga hvort það gefi ástæður til þess að skipa fleiri atvinnumálanefndir, t.d. eina í hverju kjördæmi. Síðan á að athuga hvað menn eru tilbúnir að samþykkja mikið af því sem nefndin hefur stungið upp á og hversu háa fjárhæð af því sem hún telur að það kosti. Síðan á að útvega fé til nefndarinnar í samræmi við þá fjárupphæð sem menn hafa samþykkt og væntanlega þá skiptingu hennar á kjördæmi. Og svo loksins kemur að því að úthluta þessu fjármagni. Ég er ansi hræddur um að sumir þeir sem atvinnulausir eru núna verði orðnir ansi langþreyttir á því að bíða eftir úrlausn.

Ég rek þetta svona, herra forseti, vegna þess að þegar gripið var til þeirra aðgerða í tíð viðreisnarstjórnarinnar, 1969 trúi ég það hafi verið, að setja upp atvinnumálanefndir af þessu tagi, þá fengu þær jafnframt fjárráð með það sama. Það greiddi fyrir því að það tækist að efla atvinnulífið með skjótum hætti á ný. Ég held að menn verði nefnilega að grípa fljótt í spottann að því er þetta varðar og menn geti ekki farið þá löngu braut sem hér hefur verið lýst af hálfu hæstv. forsrh. og af hálfu formanns Sjálfstfl.

En við skulum fyrst líta á hvaða fólk er atvinnulaust núna. Það leikur enginn vafi á því að það eru að langstærstum hluta konur sem unnið hafa í sjávarútvegi, í frystihúsum, í fiskvinnslu yfir höfuð tekið. Það er þá eitt meginverkefnið, sem við eigum að leysa, að finna atvinnutækifæri fyrir þetta fólk. Við þurfum að líta á það bæði í bráð og lengd. Ef við eigum að líta á það til lengri tíma held ég að það sé meira en mál til komið að við vöknum til vitundar um að það verða að finnast atvinnutækifæri í fleiri greinum en þessari fyrir þetta vinnuafl, að það þarf að eiga sér stað ný atvinnusókn, það verður að leysa ný öfl úr læðingi sem skapa atvinnutækifæri fyrir þetta fólk. Við þurfum að venja okkur við það að við getum slíka hluti, að trúa því ekki bara að við getum ekkert annað en það sem við erum að gera, en það hefur því miður einkennt íslenskt atvinnulíf allt of mikið á undanförnum árum. Menn hafa ekki haft uppburði í sér til þess að leita að nýjum sviðum og þeir hafa m.a. s. byggt upp atvinnuvegastjórnina og sjóðakerfið á Íslandi með tilliti til þess eingöngu að viðhalda því sem fyrir er í landinu í þessum efnum, en ekki að leita nýrra leiða. Þetta er staðreyndin.

Auðvitað tekur atvinnusókn af þessu tagi svolítinn tíma og við þurfum að bregðast fljótt við. Ég held að það sé þess vegna ástæða til að athuga gaumgæfilega hvað það er sem veldur því um þessar mundir að menn sigla frekar með afla en að láta vinna hann í landi, að menn senda aflann frekar óverkaðan úr landi en að láta vinna hann hér. Mér býður í grun að það sé ekki ágóðinn sjálfur sem ráði þar mestu, heldur ráði þar ekki síður og langtum frekar það að menn fái verðmæti greidd strax. Ef það er tilfellið geta menn auðvitað, ef þeir vilja efla atvinnu í þessari grein, gripið til ráðstafana til að greiðslur berist örar þegar í rauninni er um fjárhagsvanda að ræða frekar en afkomuvanda. Þá geta menn gripið til aðgerða til að draga úr því að aflinn fari óverkaður úr landi og atvinnutækifærum fækki. Það eiga menn þá að gera við núverandi aðstæður. Þetta er tillaga sem ég legg til að menn taki nú tillit til og skoði mjög vandlega: að hve miklu leyti er hér um ágóðavon að ræða, og að hve miklu leyti er um raunverulegan fjárhagsvanda að ræða.

Herra forseti. Ég gerði hér atvinnumálanefndina eilítið að umræðuefni. Það sem mér finnst einkenna viðhorf ríkisstj. varðandi þessa nefnd og reyndar hefur komið áður fram hjá mér er það sem reyndar hefur einkennt ríkisstj. í þessari atvinnumálaumræðu bæði fyrr og síðar: Of lítið, of seint. Og mér finnst það ómerkilegt þegar menn vísa stundum í umræðum sem þessum til þess að ef fylgt hefði verið óbreyttri stefnu fyrrv. ríkisstj. væri hér líka og ekkert síður atvinnuleysi. Mér finnst það vegna þess að það brennur alveg jafnsárt á þeim sem eru atvinnulausir hver svo sem afsökunin er eða hvort heldur atvinnuleysið hefði getað komið með einhverjum öðrum hætti. Hér duga engar afsakanir. Hér verður að snúa sér að því að tryggja fulla atvinnu og beina kröftunum í þá áttina.

Herra forseti. Þetta er eitt af okkar erfiðu viðfangsefnum um þessar mundir. En því miður kemst ég ekki hjá því að minnast eilítið á annað atriði líka. Það er að það er að verða algjörlega óviðunandi hve launakjör eru bág á Íslandi. Menn geta skilið að það þurfi að herða að um sinn, en ef við eigum að vera viðvarandi láglaunasvæði mörg misseri eða mörg ár vara ég eindregið við því. Og ef við eigum að horfa upp á að ellilífeyrisþegar og örorkulífeyrisþegar eigi að búa viðvarandi við þá 30% kjaraskerðingu sem þeir hafa orðið fyrir, þá vara ég eindregið við því. Hver hefði trúað því fyrir nokkrum misserum að slík kjaraskerðing yrði lögð á þennan hóp fólks í þjóðfélaginu, á ellilífeyrisþega og á öryrkja? En það hefur gerst. Og það getur ekki dregist öllu lengur að rétta líka ha þessa fólks. Það brýtur gegn réttlætisvitund okkar Íslendinga að láta brjóta svona á þessu fólki. Og það er andstætt allri þeirri umræðu sem farið hefur fram á Íslandi á undanförnum árum. Við megum ekki vera láglaunasvæði. Þess vegna verður það að gerast jöfnum höndum að menn taki á í því ástandi sem nú ríkir í atvinnumálunum til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysi sem er líklegt til að spinna þá enn frekar upp á sig. Það hefur a.m.k. verið reynslan hjá mörgum öðrum þjóðum, að þegar menn hafa lent í þeim farveginum er erfitt að snúa við og tekur mörg ár. Það má ekki gerast hjá okkur. En við þurfum líka og ekki síður að hyggja að því hvernig við getum náð okkur upp úr þeim láglaunadal sem við erum nú lent í.

Það er vitaskuld mjög harður dómur um stjórnarstefnuna, bæði nú og á undanförnum árum, að árangurinn, og það m.a.s. þrátt fyrir nýliðið góðæri, skuli vera bæði atvinnuleysi í ríkara mæli en við höfum áður þurft að þola og líka að kjör skuli vera orðin svo bág sem raun ber vitni og að það skuli m.a. s. vera látið bitna á eldlífeyrisþegum.

Herra forseti. Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta. En ég legg ríka áherslu á það sjónarmið okkar Alþfl.manna að hér verði rösklega tekið til hendinni og menn geri hvort tveggja í senn að tryggja fulla atvinnu og tryggja að við vinnum okkur upp úr þeim bágu kjörum sem við nú búum við. En til þess að það megi gerast þarf eitthvað meira en það sem ríkisstj. hefur boðað hér í dag.