24.01.1984
Sameinað þing: 38. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2311 í B-deild Alþingistíðinda. (2036)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti, örfá orð. Það vill gjarnan verða svo þegar farið er út í einstaka málaflokka að þá vilja umræður fara út í landsmál almennt og jafnvel uppgjör á pólitískum stefnum og allir hugsanlegir hlutir eru dregnir inn í umræðuna. Þó hafa staðreyndir málsins komið hér fram hjá ræðumönnum, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, og það er ískyggilega vaxandi atvinnuleysi sem virðist vera að þróast geigvænlega. Ég held að það sé vandinn sem við stöndum frammi fyrir.

Það flökrar ekki að mér að afneita þeim stóra vanda að þegar um samdrátt í langsamlega stærsta og mannfrekasta atvinnuvegi þjóðarinnar, sjávarútveginum er að ræða eins og nú hefur átt sér stað og er framundan, segi það ekki til sín. Það flökrar ekki að mér að vera að neita staðreyndum í þeim efnum.

Hinu stöndum við frammi fyrir að líklega eru rösklega þrjú þúsund manns atvinnulaus á landinu og fer líklega vel yfir þrjú þúsund. En það sem ég óttast er að þessi tala eigi eftir að hækka. Og hún eigi eftir að hækka jafnt og þétt. Þótt deila megi um alls konar aðgerðir eins og fiskkvóta o.s.frv. stendur hver þjóð sem stendur frammi fyrir slíkum vanda um leið frammi fyrir þeim alvarlegu hlutum að atvinnuleysi heldur innreið sína. Það hefur verið stolt okkar hér á Íslandi að vera lausir við atvinnuleysið. Eins og við höfum verið frægir fyrir verðbólguna höfum við líka verið frægir fyrir það að allir hefðu atvinnu og að verðmætasköpunin væri þar af leiðandi meiri.

Nú má rekja hér alls konar tölur. Það má tína úr fiskvinnslunni og segja má að meginhlutinn af þessu sé fiskvinnslan. Ef þetta væri nú bara svo. Ég held að þessi vandi sé farinn að segja til sín víðar. Það eru kannske 3–4 staðir á landinu sem skera sig dálítið úr.

Það er Akureyri, öflugasti iðnaðarbær á landinu, með viðvarandi atvinnuleysi.

Það er Akranes, nú kröftugur sjávarútvegsbær og með býsna mikinn iðnað og þá sérstöðu líklega að aldurssamsetning á fólki á Akranesi er líklega ein sú hagstæðasta ef ég má nota það orðalag því að þar er svo mikið af fólki á góðum vinnualdri og mikið af ungu fólki í störfum.

Það er Selfoss í kjördæmi formanns Sjálfstfl. þar sem upp undir 100 manns eru á atvinnuleysisskrá. Ekki er þar sjávarútvegur. Að vísu sækir þar fjöldi manna verstöðvar og segir náttúrlega til sín þar af leiðandi. En atvinnuleysi þar hefur verið nokkuð viðvarandi. Ég býst við að hv. þm. Þorsteinn Pálsson geti skýrt það að Selfoss sé orðinn það stór að fleiri iðnaðarverkefni þurfi en mjólkuriðnað og þau þjónustuverkefni sem byggð eru upp í kringum landbúnaðinn. Engu að síður er það alvarlegur hlutur þegar farið er að vera þarna að staðaldri upp undir 100 manns á atvinnuleysisskrá.

Borgarnes hefur þá sérstöðu að þar fer engin fleyta á sjó, ekki til fiskróðra a.m.k. Þar eru komnir yfir 50 manns á atvinnuleysisskrá og hafa ekki verið svo margir á atvinnuleysisskrá sennilega síðan 1950 eða 1951. Þarna virðist samdráttur og kreppueinkenni sem hv. formaður Sjálfstfl. var að sverja af þjóðfélaginu áðan hafa gripið býsna sterkt um sig.

Byggðarlag eins og Sauðárkrókur. Mér er tjáð af formanni viðkomandi verkalýðsfélags að þar séu milli 40 og 50 sem ekki hafa unnið við sjávarafla á atvinnuleysisskrá. Þar er sami samdrátturinn og sama kreppan.

Í Reykjavík eru það sennilega 700–800 manns. Fjöldi Dagsbrúnarmanna fer hægt og sígandi upp á við, þó að vísu hluti af þeim mundi stunda verstöðvar eða leita til verstöðva. En allt ber að sama brunni, sú kreppa sem byrjuð var að segja til sín í minnkandi atvinnu — tók svo svona jólakipp — virðist vera að magnast býsna mikið aftur.

Menn spyrja gjarnan: Hvernig stendur á því að verið er að flytja vinnuafl inn í landið þegar það er atvinnuleysi? Þessu var svarað skilmerkilega af 7. landsk. þm. Kristínu Halldórsdóttur. Hún nefndi að húsmæður sem hafa heimili og fjölskyldu eru uppistaða í frystiiðnaði og fiskvinnslu. Vitanlega er það rétt hjá hv. 7. landsk. að húsmæður með heimili, við skulum segja á Akranesi eða Suðurnesjum, fara ekki að fara austur á Firði, það sér hver maður. En þar til viðbótar er bara kostnaðurinn á þessum verstöðvum sá að fæði og húsnæði er milli sex og níu þúsund krónur. Í staðinn fyrir að lækka eitthvað þennan kostnað en selja ekki fæði eins og á veitingahúsum hér í Reykjavík er flutt inn vinnuafl erlendis frá. Ég skal ekki um það segja hvort þarna yrði einhver veruleg breyting, en alla vega er hastarlegt að dagvinnutekjur þess fólks sem e.t.v. mundi vilja sækja vinnu á þessum stöðum fari í fæði og húsnæði. Það hefur kannske möguleika á ellefu til fimmtán þús. kr. tekjum. Ferðir eru ekki borgaðar fyrir Íslendinga en þær eru borgaðar frá London fyrir útlendinga. Hver er þá mismunurinn hvað uppihaldskostnaðinn varðar? Ég held að líta þyrfti á þessa hluti þó að það mundi sjálfsagt ekki gjörbreyta öllum hlutum.

Suðurnes virðast vera býsna ískyggileg. Þar virðist vera orðið viðvarandi atvinnuleysi. Ég held að við horfum fram á það. Þó að ég geti verið sammála 1. þm. Suðurl. með tilheyrandi titlum að það þurfi að vera arður af fyrirtækjum þá er það svo að ef atvinnuleysi heldur áfram að vaxa er ekkert prógramm fyrir hendi að byggja upp fyrirtæki eftir.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. 7. landsk. þm. að meiri hl. af þessu eru konur en það er vaxandi fjöldi karla. Ég held að þarna þurfi hvort tveggja að koma til. Ég held að það þurfi að vera ákveðnar skammtíma lausnir. Við eigum ekki að láta atvinnuleysi sem nú er milli 3–4 þús. fara upp í 6 eða 8 þús. Það hefur geigvænlegar þjóðfélagslegar afleiðingar í för með sér. Þarna verður að gera einhverjar ákveðnar skammtíma ráðstafanir og sjálfsagt er hægt að benda þar á margt. En síðan held ég að atvinnuprógramm, uppbygging íslensks atvinnulífs, þyrfti að vera hnitmiðaðra og ekki að koma bara fram í einhverjum skætingi á milli fulltrúa ríkisstj. þegar þeir þurfa að ná sér eitthvað niðri á 3. þm. Reykv.

Hvert er raunverulegt atvinnuprógramm ríkisstj.? Besta erindi sem ég hef heyrt um það var frá ríkisstj.manni á landsfundi Sjálfstfl., hjá einum ræðumanni þar, Ragnari Kjartanssyni, og margt mætti af því læra. Ég hef nú ekki séð neina tilburði í þá átt hjá hæstv. ríkisstj. Því miður óttast ég að ég hafi rétt fyrir mér að þetta atvinnuleysi muni halda áfram að vaxa. Þegar það er komið í ákveðna stærð fer það að smita út frá sér og eitra út í þjóðfélagið á hinum ýmsu sviðum.

Hv. 1. þm. Suðurl. segir að við eigum ekki að vera að deila um þetta, við séum um þetta sammála. Vonandi erum við það, en við þurfum þá að einbeita okkur að einhverjum skammtímalausnum til að byrja með og síðan uppbyggingu á íslensku atvinnulífi. Það er talað hér um skipaviðgerðir, lán til skipaviðgerða. Ég held að það séu ákveðnar skipasmíðastöðvar sem annast viðgerðir sem uppsagnir liggi fyrir hjá og það er ekki eingöngu verið að tala um nýsmíði. Meginhluti íslenska kaupskipaflotans hefur allar sínar viðgerðir erlendis. Þeir bera það ekki við að hafa þær hérlendis. Þetta er einn þáttur af 200 sem tína mætti upp.

Ég tek ekki þátt í einhverjum skætingi á milli stjórnar og stjórnarandstöðu en vil ítreka þann ótta minn að það atvinnuleysi sem er í dag sem ég held að liggi einhvers staðar á milli 3–4 þús. eigi eftir að vaxa frá mánuði til mánaðar nema eitthvað verði að gert. Og þar er ríkisstjórnarinnar að grípa inn í. Geti verkalýðshreyfingin eitthvað gert í því stendur örugglega ekki á henni.