30.01.1984
Neðri deild: 41. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2433 í B-deild Alþingistíðinda. (2137)

Umræður utan dagskrár

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Það er í rauninni ekki undarlegt þó að kjaramál og staðan í samningamálum séu rædd ítarlega á hv. Alþingi núna. Þannig hafa mál skipast að undanförnu að það er ástæða til að ræða þau mjög ítarlega á hv. Alþingi, m.a. í því ljósi sem hv. þm. Guðmundur Einarsson hefur hér fjallað um þau, hvernig ríkisstj. hefur blandað sér í yfirstandandi kjaradeilu. En einnig er fróðlegt og nauðsynlegt að ræða um hvernig á því stendur að ríkisstj. tekur ákvörðun um að óska eftir því að ÍSAL gerist aðili að Vinnuveitendasambandi Íslands. Ríkisstj. bað um að þetta erlenda stórfyrirtæki yrði aðili að Vinnuveitendasambandi Íslands. Þetta tvennt er nauðsynlegt að ræða og fá ítarleg svör við því. Og þó að það kosti að það þurfi að vera fundir í hv. Nd. á öðrum tíma en algengt er tel ég það ekkert óeðlilegt því að hér er um svo stórt mál að ræða að ég tel eðlilegt og nauðsynlegt að það verði rætt hér í samhengi.

Fyrsta atriðið, sem ég vildi ræða hér, virðulegi forseti, er þetta: Ríkisstj. blandar sér í yfirstandandi kjaradeilu. Það gerist í fyrsta lagi með því að óskað er eftir að ÍSAL gangi í Vinnuveitendasamband Íslands með sérstakri ríkisstjórnarsamþykkt. Forsrh. hefur í þessum efnum borið því við að það sé nauðsynlegt að haft sé samráð um kjarasamninga. Þetta er ekki gild ástæða vegna þess að hægt var að samræma kjarasamninga við starfsmenn í álverinu öðrum kjarasamningum í landinu þó að fyrirtækið væri ekki aðili að Vinnuveitendasambandi Íslands. Auk þess er það svo að það hefur verið unnið talsvert samræmingarstarf á liðnum árum á samningum starfsmanna álversins annars vegar og í ríkisverksmiðjunum hins vegar. Þetta eru því ekki fullgild rök, en eru einu rökin sem hæstv. forsrh. hefur borið fram opinberlega í þessu efni.

Annar þátturinn sem lýtur að íhlutun ríkisstj. í kjarasamninga er yfirlýsing hæstv. fjmrh. um að ríkisstj. muni segja af sér ef menn dirfist að semja um meira en 4% kauphækkun. Hér er ríkisstj. auðvitað að ganga mjög freklega fram, eins og hv. 4. landsk. þm. lýsti í síðustu ræðu, og með mjög óvenjulegum hætti.

Þriðji þátturinn sem snertir íhlutun ríkisstj. í kjarasamningana kemur svo fram í yfirlýsingum og ákvörðun Sverris Hermannssonar, hæstv. iðnrh., um aðild ríkisverksmiðjanna að Vinnuveitendasambandi Íslands. Með þessari ákvörðun eru hæstv. iðnrh. og ríkisstj. að ákveða að styrkja annan aðilann í þessari kjaradeilu. Hæstv. forsrh. kýs að láta ríkisstj. opinbera stéttareðli sitt með þeim hætti að ríkisfyrirtæki gangi í Vinnuveitendasamband Íslands og snúist þannig gegn því fólki sem á þau fyrirtæki. Hér er verið að snúa við af þeirri braut sem mörkuð var af ríkisstj. 1971, vinstri stjórninni svokölluðu, sem var undir forustu framsóknarmanns eins og kunnugt er, en hún tók um það ákvörðun að ríkisverksmiðjurnar ættu að segja sig úr Vinnuveitendasambandi Íslands. Það var gert með bréfum sem voru skrifuð í iðnrn. af þáv. iðnrh., Magnúsi Kjartanssyni, í des. 1971.

Með þessari íhlutun er ríkisstj. vitaskuld að leggja sitt lóð á vogarskálina með atvinnurekendum á móti verkafólki í landinu. Ríkisstj. er með þessum hætti að efla Vinnuveitendasambandið stórkostlega, auka tekjur þess verulega, vegna þess að Vinnuveitendasambandið hefur tekjur sem eru fast hlutfall af launagreiðslum þeirra fyrirtækja sem eru aðilar að Vinnuveitendasambandi Íslands. Með þessum hætti eru hæstv. iðnrh. og hæstv. ríkisstj. að taka um það ákvörðun að fyrirtæki fólksins í landinu, ríkisfyrirtækin, borgi herkostnaðinn gegn fólkinu sjálfu í kjaradeilum. Ég tel að hér sé um að ræða mjög alvarleg tíðindi. Er nauðsynlegt að þau verði rædd og spurningum verði svarað í þessu efni.

Það sem í öðru lagi vekur upp þessa umr. og er aðalástæða þess að ég kvaddi mér hljóðs utan dagskrár er sú ákvörðun ríkisstj. að ganga þvert á yfirlýsingar ríkisstj. frá 1966 um að það mætti ekki gerast að ÍSAL yrði aðili að Vinnuveitendasambandi Íslands. Alþfl. samþykkti álsamninginn á sínum tíma, en hann setti eitt skilyrði. Það skilyrði var að ÍSAL yrði utan atvinnurekendasamtakanna. Hv. þm. Benedikt Gröndal gerði grein fyrir þessari afstöðu Alþfl. á sínum tíma og komst þannig að orði:

Alþfl. hefur í afstöðu sinni til þessa máls tekið fram, að hann gerir það skilyrði að ÍSAL verði ekki í atvinnurekenda- eða iðnrekendasamtökunum.“

Í framhaldi af þessari yfirlýsingu og samþykkt, sem gerð var í miðstjórn Alþfl. á þeim tíma, gaf þáv. iðnrh. afdráttarlausa yfirlýsingu og sendi bréf til Swiss Aluminium. Jóhann Hafstein, þáv. hæstv. iðnrh., gerði grein fyrir þessu í umr. á Alþingi og komst þá svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Inn í umræðurnar hefur spunnist það, hvort Alusuisse eða ÍSAL mundi verða þátttakandi í vinnuveitendasamtökum Íslands, og menn hafa lagt á það áherslu, að þeir yrðu það ekki, til þess að raska þá ekki jafnvægi í deilu milli íslenskra vinnuveitenda og verkalýðsfélaganna.“

Ég vek athygli á því að ég er hér að vitna í orð Jóhanns Hafstein.

„Í sambandi við þetta“, heldur ráðh. áfram, „barst mér svohljóðandi bréf frá Alþfl. dags. 15. apríl s.l.: „Á fundi miðstjórnar Alþfl. 23. mars s.l. var gerð ályktun um afstöðu flokksins til byggingar álbræðslu í Straumsvík. Í þeirri ályktun er m.a. tekið fram: Alþfl. telur að Íslenska álfélaginu hf. beri að sjálfsögðu að hlíta íslenskum lögum um skipti við stéttarfélög, en eigi ekki að ganga í samtök atvinnurekenda, iðnrekenda eða annarra sambærilegra aðila og hafa þannig áhrif á kjarabaráttu þjóðarinnar. Er það skilyrði fyrir stuðningi Alþfl. við málið, að svo verði ekki.“ Hér lýkur tilvitnun í ályktun miðstjórnar Alþfl., en í bréfinu segir svo að lokum:

„Með tilvísun til viðræðna í ríkisstj. óskum við hér með eftir að fá staðfestingu viðkomandi aðila á, að þeir fallist á skilyrði þetta.“ “

Ráðherra heldur áfram: „Ég skrifaði svo samdægurs Swiss Aluminium og sendi afrit af þessu bréfi Alþfl. og fór fram á það, að fá staðfestingu á því, að þeir féllust á þetta skilyrði fyrir sitt leyti, áður en umræðu lyki hér í hv. deild, [þ.e. Nd.] og mér hefur borist bréf dags. 19. apríl frá Swiss Aluminium, þar sem segir svo efnislega, „að með vísun til þeirrar málaleitunar sem fram kemur í bréfi yðar 15. apríl 1966 viljum við staðfesta, að ÍSAL mun ekki gerast meðlimur vinnuveitendasamtaka á Íslandi.“

Þannig var alveg augljóst mál að það fylgdi sem skilyrði af hálfu annars stjórnarflokksins að þetta útlenda stórfyrirtæki gengi ekki inn í Vinnuveitendasamband Íslands. Og fyrir því voru alveg gild rök, þau rök sem fram komu í máli Jóhanns Hafstein og ég var að vitna til áðan. Það ber að vísu að viðurkenna að margir þm. töldu þetta skilyrði Alþfl. ekki mikils virði og bentu á að það væri mjög gagnslítið að byggja þetta skilyrði eingöngu á yfirlýsingu frá forstjórum Alusuisse. T.d. komst Einar Olgeirsson þannig að orði í þessari umr.:

„Hins vegar býst ég við, að það sé tiltölulega útlátalaust fyrir þennan hring að gefa yfirlýsingu um, að hann muni ekki fara í þessi samtök. Þessi hringur hefur næga möguleika samt að skipta sér af íslensku atvinnulífi og íslensku stjórnmálalífi, þótt hann gefi eitthvert slíkt bréf. En upp úr einni lítilli yfirlýsingu frá forstjóranum legg ég lítið.“

Hannibal Valdimarsson, sem þá sat á Alþingi og fjallaði um þetta mál, verandi forseti Alþýðusambands Íslands, komst þannig að orði:

„Skilyrði Alþfl. er einskis virði. Það er sett fram til þess að sýnast, en ekki til að þýða neitt.“

Mjög í sama streng tók Eysteinn Jónsson, sem var aðaltalsmaður Framsfl. í þessum umr. hér í Nd. þegar þær fóru fram, og Eysteinn Jónsson, þáv. formaður Framsfl., varaði mjög við því að þessu útlenda stórfyrirtæki yrði hleypt inn í Vinnuveitendasamband Íslands. Það er rétt að lesa ummæli hans hér vegna þess að mig grunar að núv. formaður Framsfl. hafi ekki gert það nýlega. Með leyfi virðulegs forseta komst Eysteinn Jónsson svo að orði:

„Við höfum oft deilt um, hvernig tekist hafi og ekki alltaf verið hrifnir hver af öðrum í sambandi við kjaramálin, satt að segja, svo að við séum hreinskilnir. En inn í þennan mikla vanda getur einmitt svona stórfellt atvinnufyrirtæki troðið sér með því að fara að styðja annan aðilann í þessu sambandi og þá auðvitað Vinnuveitendasamband Íslands.“

„Auðvitað Vinnuveitendasamband Íslands“, sagði formaður Framsfl. þá.

„Annaðhvort troðið sér í það,“ heldur hann áfram, „eða styrkt það, og þaðan er mjög stutt yfir í sjálfa pólitíkina, því að við skulum ekki vera með neina hræsni. Það er mjög stutt þaðan yfir í pólitíkina og við vitum vel hvað er hinum megin við þær dyr, þ.e.a.s. hvert sú leið liggur. En þeir í Alþfl. hafa einhverjar áhyggjur af þessu, talsverðar, því að þeim dylst þetta náttúrlega ekki, — þótt þeir hafi dregist inn í þetta, þá dylst þeim þetta ekki. Það kom stefnuyfirlýsing frá þeim um, að hvað sem öðru líður, þá væri það skilyrði af Alþfl. hendi, að þessi hringur gengi ekki í Vinnuveitendasambandið. Ég spurði svo blátt áfram, hvernig ætti að tryggja þetta. Hvar væri að finna í þessum plöggum öllum, að gengið væri frá þessu?

Og hvernig voru svörin?“ heldur Eysteinn Jónsson áfram. „Hann sagði,“ — Benedikt Gröndal — „að Alþfl. vildi að það yrði fengin yfirlýsing frá hringnum. Fengin um þetta yfirlýsing!“ segir Eysteinn Jónsson. „Herra Meyer frá hringnum sagði í viðtali við Morgunblaðið, að þetta mál væri ekki á dagskrá.“

Menn geta svo velt því fyrir sér innan sviga hvort hæstv. núv. form. Framsfl. mundi orða þetta svona og segja: „Herra Meyer frá hringnum“, þegar hann er að tala um þennan ákveðna mann.

„Herra Meyer frá hringnum sagði í viðtali við Morgunblaðið, að þetta mál væri ekki á dagskrá. Hann hefur víst ekki kynnt sér dagskrá Alþfl., eða hann telur hana ekki svo mikils virði, að það þurfi að taka tillit til hennar. En svo maður steppi nú öllu spaugi, af því að þetta er alvarlegt mál, þá vil ég leyfa mér að spyrja: Hvaða hald er í yfirlýsingu frá hringnum um, að hann ætli ekki að ganga í Vinnuveitendasambandið og hvaða viðurlög verða ef hann gerir það samt? Á þá samningurinn að falla úr gildi, ef þeir gera það? Er það þess háttar yfirlýsing, sem Alþfl. ætlar að beita sér fyrir? Og hvar á hún að koma, á hún að koma inn í samninginn, eða hvar á hún að koma? Hún hefur ekki fundist í samningnum. Ein yfirlýsing, venjuleg. Þetta eru aðeins 45 ár. Það er víst miklu meira en meðal mannsævi. Og það má vera mikil trú, ef menn leggja upp úr yfirlýsingu frá hringnum, sem kæmi nú, og tækju hana sem góða og gilda vöru og tryggingu í þessu mikilvæga máli.“

Þannig kemur fram í máli Eysteins Jónssonar aftur og aftur að hann telur að hér sé um að ræða stórhættulegt fyrirbrigði, að þessi auðhringur muni troða sér inn í Vinnuveitendasambandið. Og hann er þeirrar skoðunar að réttast væri að setja það í lög að hann mætti ekki ganga í Vinnuveitendasambandið vegna þess að Eysteinn Jónsson hafði ekki trú á því að yfirlýsing handa Alþfl., gerð af íhaldinu í ríkisstj. 1966 dygði stundinni lengur.

Hins vegar hefur Eystein Jónsson örugglega ekki órað fyrir því að það yrði formaður Framsfl. sem afnæmi þessa yfirlýsingu. Sú er nú reisnin yfir leiðtogunum þar á bæ um þessar mundir.

En þrátt fyrir það, virðulegi forseti, að fjöldinn allur af þm. ræddi um að lítið hald væri í þessari yfirlýsingu verður hins vegar að viðurkenna það að álsamningurinn fór í gegnum þingið vegna þessarar yfirlýsingar sem Alþfl. var gefin. Þannig hafði hún pólitískt gildi út af fyrir sig. Og þess vegna er í rauninni með samþykkt ríkisstj. Íslands núna verið að brjóta gegn þeim anda, þeim forsendum, sem þessi samningur var byggður á á sínum tíma. Við skulum muna að hann fór hér í gegnum þingið með knöppum meirihluta. Það var enginn stór meirihluti sem rótaði þessum samningi í gegnum þingið á sínum tíma. Það voru 32 þm. sem viðreisnarflokkarnir höfðu á móti 28 þm. Alþb. og Framsfl. (Iðnrh.: Var það ekki nóg?)

Það dugði þá og verulegur hluti af þessum þm., hæstv. iðnrh., studdi samninginn í þeirri góðu trú að ÍSAL yrði ekki látið fara inn í Vinnuveitendasamband Íslands og að það yrði a.m.k. ekki gert að frumkvæði ríkisstj. eins og það virðist vera núna, að frumkvæði ríkisstj. Steingríms Hermannssonar.

Í sambandi við þessa umr. og af því að hæstv. iðnrh. er að kalla hér fram í eins og fyrri daginn er rétt að víkja aðeins nánar að ummælum Jóhanns Hafstein, þáv. hæstv. iðnrh. En hann var spurður: Hvernig er staða ríkisstj. gagnvart ÍSAL þegar kemur til verkfallsboðunar hjá því fyrirtæki? Þarf þá ríkisstj. að grípa alveg sérstaklega inn í?

Ég mæli þetta af gefnu tilefni vegna þess að hæstv. núv. iðnrh. lýsti því yfir á dögunum að beita ætti starfsmenn álversins þvingunum, banna þeim að neyta verkfallsréttar, ef þeir ekki hlýddu ríkisstj. í einu og öllu. Þessi hótun Sverris Hermannssonar, hæstv. iðnrh., var auðvitað alveg dæmalaus af ráðh. í þessari stöðu.

En er það þá kannske þannig að hæstv. iðnrh. hafi talið að hann hefði alveg sérstakar skyldur við þetta fyrirtæki og meiri skyldur við það en önnur fyrirtæki í landinu? Honum bæri alveg sérstaklega að halda verndarhendi sinni yfir því og koma í veg fyrir að menn neyttu verkfallsréttar síns gagnvart þessu fyrirtæki? Höfðu verið gerðir einhverjir leynisamningar árið 1966 um að alveg sérstaklega ætti að halda utan um þetta fyrirtæki þannig að verkamenn þar gætu ekki beitt þeim mannréttindum að geta lagt niður vinnu til að knýja á um breytingar á kaupi og kjörum?

Það er ekki. Það er alveg skýrt úr umræðunum um álmálið á sínum tíma að ekki var um það að ræða að menn teldu að þá hefðu verið gerðir neinir baksamningar. A.m.k. sagði Jóhann Hafstein í umr. í svari við fsp. frá Einari Olgeirssyni:

„Því er þar til að svara að ríkisstj. hefur engar sérstakar skyldur gagnvart verkföllum í bræðslunni fremur en á vinnustöðum yfirleitt.“

Þetta var alveg afdráttarlaus yfirlýsing frá Jóhanni Hafstein og hann bætti við: „Alusuisse á enga heimtingu á því að ríkisstj. grípi til sérstakra ráðstafana til að tryggja vinnufrið í bræðslunni.“ Þannig að fyrir þingheimi var það alveg skýrt að ekki var um það að ræða að gert væri ráð fyrir að þetta fyrirtæki ætti að njóta annarrar stöðu gagnvart lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur en önnur fyrirtæki í landinu umfram það sem beinlínis er kveðið á um í álsamningnum sjálfum.

En núv. hæstv. iðnrh. virðist vera þeirrar skoðunar að þetta fyrirtæki eigi að njóta alveg sérstakrar meðferðar. Og ég spyr: Hvað hefur gerst í tíð núv. ríkisstj. sem gerir það að verkum að þetta fyrirtæki eigi að njóta forréttinda þegar kemur að því að takast á við verkafólk í þessu landi?

Það er greinilegt, herra forseti, af þeim umr. sem fóru fram um álmálið á sínum tíma að allir þm., líka hæstv. ráðherrar, eins og hæstv. þáv. forsrh. Bjarni Benediktsson, höfðu mjög miklar áhyggjur af því skrefi sem væri verið að stíga með því að hleypa þessu erlenda fyrirtæki inn í landið. Og það kemur fram aftur og aftur í umr. að hættan sé ekki síst fólgin í því að þetta fyrirtæki seilist til áhrifa innan atvinnurekendasamtakanna í landinu og jafnvel innan stjórnmálaflokkanna og það eignist flokka og eignist blöð og eignist menn.

Þrátt fyrir þetta, þessar skýlausu yfirlýsingar árið 1966, hefur það nú gerst að ríkisstj. hefur einhliða tekið ákvörðun um að benda ÍSAL á að fara inn í Vinnuveitendasamband Íslands. Og spurningin er þá: Hvað hefur gerst? Er það allt rugl sem menn sögðu 1966? Er það endileysa og fjarstæða sem Eysteinn Jónsson lýsti yfir 1966? Er yfirlýsing Jóhanns Hafstein frá 1966 markleysa?

Nú er því að vísu borið við að samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar — það var nú eitt hálmstráið sem þeir fundu upp — væru þannig að þeir þyrftu alveg endilega að skella þessu fyrirtæki inn í Vinnuveitendasambandið. En hvernig stendur það mál? Ef það er svo að samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar reki ÍSAL inn í Vinnuveitendasambandið þá var yfirlýsing ríkisstj. 1966 lögbrot vegna þess að samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem kveður á um þetta var gerð árið 1950. Aðild Íslands að henni varð til 1950. Þannig að hér er vitaskuld útilokað að bera fyrir sig aðild Íslands að samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

Hvernig stendur á því að þessi samþykkt er gerð í ríkisstj. þegar engin umsókn liggur fyrir frá ÍSAL um inngöngu í Vinnuveitendasambandið? Eða liggur hún fyrir? Hvernig stendur á því að þessi samþykkt er gerð, ég vil segja, með ágreiningi í öllum stjórnmálaflokkunum? Mér er kunnugt um að innan Sjálfstfl. er verulegur ágreiningur um þessi vinnubrögð. Það kemur m.a. fram í samþykkt Alþýðusambands Íslands, en að henni stendur m.a. Björn Þórhallsson varaforseti Alþýðusambands Íslands. Hvaða nauðung er það sem rekur Sverri Hermannsson, hæstv. iðnrh., til þess að ganga gegn flokksfélögum sínum með þessum hætti? Og hvað á þetta að þýða hjá hæstv. forsrh.? Er hann endanlega að taka með þessu ákvörðun um að slá striki yfir svo að segja allt sem Framsfl. stóð fyrir hér fyrr á árum? Var hæstv. forsrh. beygður í ríkisstj.? Gerði hann kannske tillögu í ríkisstj. um þetta mál? Hvernig stendur á því að hans ríkisstj. tekur þessa ákvörðun? Ég held að óhjákvæmilegt sé að hæstv. forsrh. svari einnig þessum spurningum.

Nú hefur það komið fram að þrátt fyrir samþykkt ríkisstj. mun ekki hafa verið tekin ákvörðun í stjórn ÍSALs um að ganga í Vinnuveitendasamband Íslands. Og af því tilefni vil ég segja: Ég skora á hæstvirta ráðherra að halda þannig á málum að það gerist aldrei. Ég tel að það sé stórkostlega hættulegt ef erlent fjármagn fer þannig inn í atvinnurekendasamtökin. Það sé verið að marka braut hér í landinu sem við vitum ekkert hvert leiðir okkur.

Fróðlegt er að velta fyrir sér hvernig það Vinnuveitendasamband Íslands verður þegar kannske væru komin fleiri útlend stórfyrirtæki inn í það og væru farin að ráða þar svo að segja öllu. Væri það vinnuveitendasamband sjávarútvegsins á Íslandi? Svarið er nei. Það væri vinnuveitendasamband hinna erlendu stórfyrirtækja. Væri það vinnuveitendasamband hins almenna íslenska vöru- og þjónustuiðnaðar? Svarið er nei. Það væri vinnuveitendasamband hinna erlendu stórfyrirtækja. Væri það vinnuveitendasamband íslenskrar verslunar? Svarið er nei. Það væri vinnuveitendasamband ofurselt fjármunum útlendinga í einu og öllu.

Og hvernig væru þeir menn sem yrðu fyrir þeirri ógæfu að verða talsmenn þessa vinnuveitendasambands, væru t.d. í vinnu hjá því vinnuveitendasambandi? Við höfum kynnst því hvernig því háttar með þá menn sem hafa tekið laun hjá Vinnuveitendasambandinu um árabil og verið talsmenn þess og síðan komist til metorða innan stærsta stjórnmálaflokks í landinu. Hvernig verða þeir menn sem yrðu framleiddir við skrifborð vinnuveitendasambands hinna erlendu stórfyrirtækja? Hugsi menn um það eitt augnablik hvað hér er að gerast. Hugsi menn um það eitt augnablik hvaða áhrif svona ákvörðun getur haft á samsetningu og stöðu og efnahagslegt sjálfstæði íslensku þjóðarinnar.

Íslenskir verkamann hafa á undanförnum árum lagt á það mjög mikla áherslu að ef þeir ættu að velja þá vildu þeir að sjálfsögðu frekar berjast gegn íslenskum kapítalistum en erlendum og hafa lagt á það höfuðáherslu þó að menn hafi haft skiptar skoðanir um stjórnmál að þá bæri að tryggja það að atvinnulífið væri í eigu Íslendinga skilyrðislaust. Nú er verið að ganga inn á nýja braut í þessu efni.

Ég endurtek, herra forseti, að ég skora á ríkisstj. að láta þetta ekki gerast. Ég skora á ríkisstj. að hugsa sitt mál vandlega áður en lengra er haldið á þessari braut. Ég tel í fyrsta lagi að aðild ÍSALs að Vinnuveitendasambandi Íslands væri stórháskalegt skref sem gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar.

Í öðru lagi tel ég að aðild ríkisfyrirtækjanna að Vinnuveitendasambandi Íslands sé fráleit vegna þess hversu þeim fyrirtækjum er háttað.

Í þriðja lagi tel ég að ákvörðun ríkisstj. um aðild ÍSALs að Vinnuveitendasambandinu brjóti gegn þeim viðhorfum sem viðreisnarstjórnin og þar með Alþingi allt hafði 1966. Þannig hefur ríkisstj. brotið gegn þeim anda sem lá til grundvallar samþykkt álsamningsins á sínum tíma.

Í fjórða lagi tel ég að ákvörðun ríkisstj. um aðild ÍSALs að Vinnuveitendasambandinu sé enn frekari staðfesting á þeirri grundvallarbreytingu sem hefur orðið á Framsfl. sem nú telur ekki einasta við hæfi að starfa með hægri öflunum heldur gengur fram í því að styrkja þau með beinum ákvörðunum, bæði að því er varðar ríkisfyrirtækin og ÍSAL. Hér er nú svo komið að sá flokkur sem einu sinni í ályktunum sínum taldi sér skyldast að hafa samstarf og samvinnu við alþýðuhreyfingu þessa lands og var í upphafi sprottinn upp af brýnni þörf þeirra manna sem voru að berjast gegn erlendu kaupmannavaldi, telur sér ekki einasta rétt að hafa samstarf við afturhaldið í landinu, heldur leggur sig bersýnilega nú orðið fram um að hlaða undir íhaldið og hægri öflin og styrkja þau sem aldrei fyrr. Svona er komið þeim flokki. Það hefði Benedikt á Auðnum þótt sérkennileg latína.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.