02.02.1984
Sameinað þing: 42. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2537 í B-deild Alþingistíðinda. (2215)

104. mál, lækkun húshitunarkostnaðar

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Vegna þeirra umr. sem hér hafa átt sér stað nú vil ég aðeins fullvissa hv. þm. um það að ráðherrar í ríkisstj. gera sér engu síður fulla grein fyrir mikilvægi þessa máls en þeir menn sem hér hafa tekið til máls. Ég vil upplýsa það hér vegna fjarveru iðnrh. að hann hefur unnið að þessu máli í fullu samræmi við þá yfirlýsingu sem hann gaf hér rétt fyrir jólin og mér er persónulega kunnugt um að það frv. sem hann er að vinna að er um það bil að komast í þann búning að hann mun fara að leggja það fyrir ríkisstj. Ég vil einnig geta þess hér í leiðinni að þegar er búið að ákveða hækkun á niðurgreiðslu upphitunarkostnaðar sem tekur gildi núna við næsta útreikning. Það er einnig óhætt að segja frá því hér að iðnrh. hefur þegar mótað ákveðnar orkusparandi aðgerðir í samráði við félmrh. og það er verið að ganga frá þeim málum þessa dagana af sérstakri verkstjórn. Tengdar verða saman aðgerðir iðnrn. og félmrn., þar með talin tæknideild Húsnæðisstofnunar, til að hrinda því máli í framkvæmd, því að náttúrlega skiptir mestu máti að hefja þessar framkvæmdir. sem fyrst eins og hér hefur komið fram.

Ég vil einnig geta þess hér, svo að menn haldi ekki að ríkisstj. haldi að sér höndum í sambandi við þetta mikilvæga mál, að það er verið að hefja undirbúning og endurskoðun á verðjöfnunargjaldinu, m.a. sérstaka skoðun á því hvað hægt er að gera í sambandi við heildsöluverð á raforku frá Landsvirkjun.

Allt þetta tengist því mikilvæga máli sem við erum að tala um hér. Ég stóð hér aðeins upp til að leiðrétta þann misskilning, sem hér virðist koma fram hjá hverjum manninum á fætur öðrum, að það sé ekkert verið að gera í þessum málum. Það er alger misskilningur. Þetta er eitt af þýðingarmestu málum og ríkisstj. stendur öll heils hugar að því að reyna að finna úrræði sem duga, ekki til að athuga þau heldur til að framkvæma þau.