02.02.1984
Sameinað þing: 42. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2538 í B-deild Alþingistíðinda. (2216)

104. mál, lækkun húshitunarkostnaðar

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér er vissulega hreyft mikilsverðu máli. Hv. 5. þm. Austurl. hefur í fararbroddi fyrir Alþb.-mönnum gert úttekt á stöðu upphitunarmála í landinu eftir að hæstv. iðnrh. Hjörleifur Guttormsson hefur látið af störfum. Og sú úttekt er ekkert glæsileg. Sú úttekt er ekkert glæsileg og það þarf vissulega kjark til þess að færa sig svona um set yfir borðið, gera úttekt á eigin verkum og birta hér í þskj. Annaðhvort hafa menn gleymt því að þeir fóru með þennan málaflokk allan þennan tíma, báru á honum ábyrgð og áttu að standa þjóðinni skil á ákveðnum verkum, eða þá að menn telja að þrátt fyrir allt muni það gleymast en hitt lifa, að þeir hafa áhuga á því, eftir að þeir eru farnir úr stólunum, að bæta um betur.

Hvað var það sem gerðist undir stjórn hæstv. iðnrh. Hjörleifs Guttormssonar í þessu máli? Jú, það er kunnara en frá þurfi að segja að þegar olíukreppan skall á á sínum tíma í ríkisstjórnartíð Ólafs Jóhannessonar áttu Íslendingar á hinum köldu svæðum þá von og það markmið að virkja ætti vatnsafl í landinu og koma raforku til húshitunar út um allt land og þá væri búið að bjarga málunum. Þá væri þetta komið í lag, þá gætu menn búið við sæmilegan valkost í upphitunarmálum í landinu. Allt kapp yrði lagt á að leysa það mál með hitaveitum þar sem það væri hægt. En hvað er það svo sem fer úrskeiðis? Undir forustu hæstv. iðnrh. Hjörleifs Guttormssonar hækkaði Landsvirkjun sína gjaldskrá um 600% samkv. þeim upplýsingum sem er að finna í riti því sem fylgir þáltill. á bls. 6. Lesi menn bara sjálfir, um 600% á sama tíma og byggingarvísitalan í landinu tvöfaldaðist. Sem sagt, við stóðum allt í einu frammi fyrir því að allt það sem við höfðum sett traust okkar á, að dreifa raforkunni um land allt og koma henni til hinna köldu svæða, það var orðið blekking, það skilaði engu. Niðurstaðan var svipuð og við hefðum notað olíu, munurinn var ekki stór. Það er spurning hvort það hefði ekki verið skynsamlegra að setja upp svartolíukyndistöðvar í öllum þorpunum miðað við niðurstöðuna.

Ég heyri að hv. 3. þm. Reykv. er þegar orðinn nokkuð órólegur í hliðarsal yfir þessari umr.

Það gerðist fleira á þessu tímabili. Það var farið í það að sameina Laxárvirkjun og Landsvirkjun og það var farið í það að afhenda Landsvirkjun virkjunarréttinn yfir bestu valkostum Íslands í virkjunarmálum. En blekið var varla þornað af þessum samningum þegar hækkanirnar dundu yfir. Vitið þið að Laxárvirkjun hefði grætt tugi milljóna á seinasta ári ef hún hefði fengið að hafa þetta raforkuverð? Það hefði orðið stórkostlegur gróði.

Hvað var það sem gerðist og við almennir þm. gerðum okkur enga grein fyrir áður en til þessara samninga var gengið og undir þá skrifað, sem við höfðum veitt Hjörleifi umboð til að vinna að? Við gerðum okkur ekki grein fyrir því að Landsvirkjun var raunverulega gjaldþrota ef hún hefði mátt sitja uppi með þá orkusamninga sem hún var búin að gera og íslenska ríkisstj. fyrir hennar hönd. Það var það sem blasti við. Hún þurfti 600% hækkun til að rétta sig af. Málið er ákaflega einfalt, það veit hæstv. fyrrv. iðnrh. Í gegnum raforkuverðið á Íslandi er verið að greiða stórkostlegan skatt vegna orkusölusamninganna við erlenda auðhringa. En spurningin er þessi og þar brestur mig allan skilning á hans tillöguflutningi: Hvernig stendur á því að hann getur réttlætt það að láta íslenskan almenning greiða það sem stóriðjan átti að greiða og bjarga þannig Landsvirkjun frá gjaldþroti? Hvers vegna lét hann ekki sauma að þeim þannig að það sæist hver ástæðan var? Hvers vegna þurfti hann endilega að feta það hver orsökin var með því að hleypa 600% orkuhækkun yfir landslýð? Ef hann á þessu stigi hefði látið virkja, allan þann tíma sem hann fór með þessi mál, látið virkja Blöndu, látið Rafmagnsveiturnar njóta þess að fá þá virkjun hagkvæma og selja á eðlilegu verði, þá væri staðan allt önnur í dag. Ef Landsvirkjun var orðin gjaldþrota vegna sinna samninga, þá þurftu eigendurnir að leggja henni fé ef hún átti að fá að starfa áfram. Það var það eina sem var réttlætanlegt í stöðunni. Það var það eina sem var siðferðilega séð réttlætanlegt í stöðunni.

Ég hygg að það sé hverjum einasta Íslendingi ljóst hverjar afleiðingarnar eru af því að þetta misvægi á sér stað í framfærslukostnaði í landinu. Afleiðingarnar eru m.a. þær að verkafólk í Reykjavík kýs heldur að vera atvinnulaust á höfuðborgarsvæðinu og hafa hina ódýru hitaveitu en að fara á þá staði þar sem fiskiþorpin eru og fá sér atvinnu. Það er betri kostur. Þannig standa málin. Og við flytjum inn erlent vinnuafl. (Gripið fram í.) Vill hv. 7. þm. Reykv. þá ekki gera grein fyrir því hvers vegna það er staðreynd að við flytjum inn erlent verkafólk á sama tíma og atvinnuleysi er í landinu? Ég tel að það sé sanngjarnt að gefa núv. iðnrh. nokkurt ráðrúm til að berjast í þessum mátum áður en menn fara út í það að samþykkja tillögur frá fyrrv. iðnrh. um það hvernig núverandi ráðh. eigi að standa að verki. Mér sýnist það sanngjarnt.

Ég verð að segja það eins og er að ég hef ekki orðið fyrir meiri vonbrigðum með þróun nokkurra mála en þá að sú von, sem fólkið á köldu svæðunum átti eftir 1973 um að fá ódýra raforku til upphitunar um land allt, var gerð að engu með því að hleypa hækkunum Landsvirkjunar yfir eins og gert var. Hv. 5. þm. Austurl. hlýtur að gera sér grein fyrir því að það var hann sem bjó yfir þeim upplýsingum og þeirri þekkingu sem þá dugði til að taka réttar ákvarðanir, hefði hann metið stöðuna rétt. En með því að ganga endanlega frá því að afhenda bestu virkjunarkosti landsins til þessa fyrirtækis, sem var gjaldþrota, og leyfa því svo að hækka um 600% strax og blekið var þornað var hann endanlega að ganga frá því að það var engin útgönguleið góð úr þessu máli.