02.02.1984
Sameinað þing: 42. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2553 í B-deild Alþingistíðinda. (2221)

104. mál, lækkun húshitunarkostnaðar

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það fer ekki á milli mála, ef hlustað er á 5. þm. Austurl., að Framsfl. hefur stjórnað iðnrn. allt það tímabil sem hann var þar iðnrh. eða a.m.k. öllu því sem miður fór. Ég man ekki betur en þær fréttir bærust nokkuð snemma á því stjórnartímabili og því væri á lofti haldið af formanni Alþb. að þeir hefðu neitunarvald í þeirri ríkisstj. Ég veit ekki betur en það hafi nokkuð oft komið fram í umr. um utanríkismál að þeir hefðu neitunarvald í þeirri ríkisstj. Engu að síður lætur hæstv. fyrrv. iðnrh. sem hann hafi nánast verið látinn dansa nauðugur eftir línu Framsóknar allan þennan tíma. Það er út af fyrir sig spurning hvaða hlutverk menn vilja setja sig í. Ef hv. 5. þm. Austurl. þykir betra að fá það á sig að hann hafi dansað allan þennan tíma eftir línu framsóknarmanna, undir þrýstingi þeirra og frekju, hann hafi sem sagt hlýtt, ef hann telur það betra hlutskipti en hitt, að það sé borið á hann að hann hafi gert mistök, þá hann um það.

Ég vil undirstrika það sem olli mér mestum vonbrigðum með hæstv. iðnrh. Því að það verður að koma hér fram líka að margt var vel unnið af því sem gert var í hans iðnrh.-tíð. Ég er alveg sannfærður um það t.d. og hef ávallt verið að sú gagnasöfnun sem hann stóð að varðandi svissneska auðhringinn og álverið í Straumsvík var mjög til fyrirmyndar. Ég hef aldrei haldið öðru fram. En það sem mig undrar alveg sérstaklega varðandi ákvarðanatökuna um 600% hækkun 1980–1982 á heildsöluverði á raforku frá Landsvirkjun, sem ég tel að hann beri fulla ábyrgð á, er sú staðreynd að hann vissi að þessi hækkun var ekki komin til vegna þarfar Landsvirkjunar á að selja raforku á eðlilegu verði, hallinn var ekki vegna viðskiptanna við almenning, hallinn var við stóriðjuna. Þess vegna var þarna um skattlagningu á íslenska þjóð að ræða. Það vissi hæstv. iðnrh. Hvers vegna ætlaði hann þá Vestfirðingum og Austfirðingum að borga helmingi meira í slíkri skattlagningu heldur en þeim sem bjuggu á heitu svæðunum? Hvers vegna skattlagði hann þá ekki hitaveiturnar og sagði: Þið verðið að borga skatt vegna þessarar staðreyndar. (HG: Ég þagði ekkert um þær staðreyndir.) Hann lætur það óáreitt þennan tíma að raforkuverðið frá Landsvirkjun hækkar um 600% og veltir því yfir á notendur raforkunnar eins og með því móti komi það jafnt og réttlátlega niður í greiðslum vegna þeirra samninga sem gerðir höfðu verið og voru rangir og lélegir. (KP: Var ekki hv. ræðumaður með honum í stjórn?)

Þessi mál voru oft rædd innan Framsfl. og það er rétt hjá hv. 5. þm. Austurl. að þar var ekki einhugur um þessi mál að öllu leyti, það er alveg á hreinu. Hitt er svo annað mál að það þýðir ekkert að segja: Formaður þingflokks Framsfl. hafði þessa skoðun. Formaður þingflokks Framsfl. var ekki iðnrh. þetta tímabil. Það var hv. 5. þm. Austurl.

Þetta er annað atriðið sem ég hef ekki getað fyrirgefið, að þegar hv. 5. þm. Austurl. veit að verið er að fara í skattheimtu fyrir stóriðjuna skuli hann bresta manndóm til að leggja þann skatt þannig á þjóðina að það komi jafnt niður en taki ekki ákvörðun um að íbúar hinna köldu svæða séu látnir greiða helmingi meira eða ríflega það en aðrir vegna þess að þeir kaupa mun meiri raforku en aðrir. Þetta veit hv. 5. þm. Austurl. Það er þetta sem ég tel að hann þurfi að gera sínum umbjóðendum fyrir austan grein fyrir.

Hitt atriðið sem vekur undrun mína mjög er það, að fyrrv. hæstv. iðnrh. skuli ekki hafa talið sér skylt að gera Alþingi grein fyrir þeirri staðreynd að fjárhagsstaða Landsvirkjunar er orðin slík miðað við þá samninga sem hún er búin að gera að það þurfi að veita henni 600% hækkun á heildsöluverði á sama tíma og byggingarvísitala tvöfaldast, og þetta dugi ekki einu sinni til til að koma henni í takt við verðlagsþróun í landinu. Hefði nú ekki verið eðlilegt að höggva frá og veita Jóhannesi Nordal tíma til að glíma við vandann? Var ekki sanngjarnt að hann sæti uppi með þann vanda Landsvirkjunar sem stjórnarformaður og gerði grein fyrir því á opinberum vettvangi, í blöðum landsins og fjölmiðlum, að samningarnir sem búið var að gera við stóriðjuna væru það lélegir að Landsvirkjun væri að fara á hausinn? Hefði það ekki verið stuðningur fyrir iðnrh. að fá slíka yfirlýsingu frá stjórnarformanni Landsvirkjunar? Var það ekki nauðsynlegt í baráttunni til að safna mönnum saman?

Hv. 5. þm. Austurl. vissi mætavel að málin stóðu á þann veg að þessa samninga þurfti að brjóta upp og hann var búinn að vinna vel að því máti að safna gögnum til að undirbúa þau átök. En hví í dauðanum tekur hann þá ákvörðun um það að velta vandanum yfir á þjóðina af fullum krafti í stað þess að láta fyrirtækið sitja uppi með hann og láta þá sem því stjórna þurfa að sækja fram? Hvers vegna gefur hann þeim tækifæri til að sitja í friði og spekt á bak við? Var þetta rökrétt? Þetta er ekki herkænska sem leiðir til sigurs. Það blasir við.

Ég tel að þegar hv. 5. þm. Austurl. heldur því fram að við höfum verið svikulir og hallir undir erlenda aðila, þá sé hann í reynd að koma því á framfæri að við höfum ekki viljað samþykkja einhliða hækkun á álverði án þess að fá að vita hvað bar á milli þáv. iðnrh. og auðhringsins í tölum. Það hlýtur að vera spurningin um það hvort við samþykktum einhliða hækkanir á álverið sem hann gerir að umræðuefni þegar hann ber það á okkur að við séum svikulir og hallir undir erlenda aðila. Finnst hv. 5. þm. Austurt. of mikið þó að við hefðum fengið að vita það á þessu stigi hvað bar á milli? Það lágu engin gögn fyrir um það hvað bar á milli. Það lágu engin gögn fyrir um það hvort þeir vildu hækka um 10, 20, 30 eða 100%, engar tölur. Það var sett á laggirnar nefnd til að ræða þessi mál. En hvernig var farið með þá nefnd? Fékk hún að tala við þessa aðila? Nei. Iðnrh. einn taldi sér skylt að annast slíkt þrátt fyrir tilvist nefndarinnar. Til hvers var hann þá með þessa nefnd?

Ég hygg að hver og einn sem vill skoða þessi mál af sanngirni hljóti að gera sér grein fyrir því að það verður ekki farið út í einhliða hækkun fyrr en það liggur ákveðið fyrir hvað hægt er að fá í samningum og hvað ekki er hægt að fá í samningum. Enn þann dag í dag standa málin þannig að við vitum ekki hvað hægt er að fá í samningum. Og það hefur enginn útilokað það að farið verði í einhliða aðgerðir ef það næst ekki fram sem þarf, það hefur enginn útilokað það. Ég vil minna hv. 5. þm. Austurl. á það, að núv. iðnrh. hefur lýst því yfir í ræðustól hér á þinginu að hann útiloki ekkert í þessum efnum ef því er að skipta. Það hlýtur aftur á móti að vera jafnt áhyggjuefni 5. þm. Austurl. sem mitt að sú von sem íbúar hinna köldu svæða fengu þegar ákveðið var að fara í innlenda orkuöflun til að leysa þeirra húshitunarvanda, sú von hefur brostið hvað hagkvæmni snertir. Þeir eru búnir að fá línurnar, þeir eru búnir að fá raforkuna, en verðið á raforkunni hefur hækkað svo mikið í millitíðinni miðað við annað verðlag í landinu að björgunin er ekki slík sem vonir stóðu til. Það er þetta sem hefur gerst. Og ég trúi því ekki að iðnrh., sem hefur verið við völd frá 1978 að mestu leyti fram á þennan tíma, geri sér ekki grein fyrir því þegar hann les þessa þáttill. og fer yfir úttektina á stöðu mála sem hér kemur fram. Hann hlýtur náttúrlega fyrst og fremst með tillöguflutningnum að vera að deila á þann sem er að fara úr stólnum en ekki hinn sem er nýtekinn við. Ég trúi því ekki að hann skilji þetta ekki.

Ég vil undirstrika það að ég tel að Landsvirkjun eigi að sjálfsögðu að lúta hliðstæðum lögum varðandi verðlagningu eins og önnur orkufyrirtæki í landinu á hverjum tíma. Og ég hef áhyggjur af því þegar núv. borgarstjóri Reykjavíkur lýsir því yfir að næsta krafa sé að heimta arð af eigin fé Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun, eins og komið hefur fram og þm. vita. Þá spyrjum við okkur sem erum utan af landi: Er það nýlendustefnan bláköld sem er að taka við í þessum efnum? Er það markmiðið sem Reykjavíkurborg sá með því að yfirtaka Blöndu og Fljótsdalsvirkjun, að hún væri komin í þá aðstöðu að geta farið að heimta arð af Landsvirkjun í borgarsjóð? Ef svo er, þá hljótum við að spyrja okkur að því hvort ekki séu enn þá minni líkur á því að það fólk úti á landi sem nú býr við þetta raforkuverð eigi von á réttlæti í framtíðinni.