02.02.1984
Sameinað þing: 42. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2559 í B-deild Alþingistíðinda. (2226)

104. mál, lækkun húshitunarkostnaðar

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð vegna síendurtekinna ummæla hv. fyrrv. iðnrh., 5. þm. Austurl. Það liggur fyrir að fyrir réttu ári var lagt fram frv. hér á Alþingi þar sem lagt var til að orkukostnaðurinn yrði að hluta tekinn út úr kaupgjaldsvísitölu af þeim ástæðum að ríkisstj. viðurkenndi nauðsyn þess að hækka orkuverð verulega umfram almennt verðlag í landinu. Þessi brýna nauðsyn var komin til af því að mjög óeðlileg skuldasöfnun hafði átt sér stað hjá orkufyrirtækjum með óhagstæðum erlendum lántökum. Ég hef ekki hjá mér hvaða tölur voru nefndar í þessu sambandi nú og vil ekki reyna að rekja það eftir minni, en síðasta ríkisstj., sú sem sat á undan þeirri sem nú situr, viðurkenndi hér á Alþingi bæði í orði og í þskj. að brýna nauðsyn bæri til þess að hækka orkuverðið mjög verulega umfram annað verðlag í landinu. Jafnframt var látin í ljósi sú skoðun að stjórnvöld yrðu að hafa tækifæri til þess að leiðrétta slíka hluti og koma við almennum efnahagsaðgerðum án þess að það leiddi sjálfkrafa til óðaverðbólgu, víxlhækkana kaupgjalds og verðlags. Svo þung áhersla var lögð á þetta mál þá að tillögur voru beinlíns um það gerðar að hækkun orkuverðsins yrði að hluta utan við kaupgjaldsvísitölu.