06.02.1984
Neðri deild: 43. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2591 í B-deild Alþingistíðinda. (2262)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég mun að sjálfsögðu hafa ráð hæstv. forsrh. og grennslast fyrir um það hjá formanni þingflokksins hvaða bréf hann hefur í fórum sínum. En það breytir engu um það að fyrri spurningunni sem hér var sett fram og var um það hvað þingflokksformennirnir ætluðu að gera, þ.e. hvað formenn stjórnmálaflokkanna ætluðu í samræmi við það loforð sem þeir gáfu á sínum tíma, er ósvarað. Ég neyðist þess vegna til að lesa þann hluta spurningarinnar aftur í von um að þeir sjái sér fært að svara ef forsrh. treystir sér ekki til að svara fyrir þeirra hönd: Hvaða hugsun var á bak við þá yfirlýsingu þar sem segir svo í frv. frá því í fyrra:

„Jafnframt munu þingflokkarnir beita sér fyrir sérstökum aðgerðum til þess að jafna félagslega og efnalega aðstöðu manna þar sem mismununar vegna búsetu gætir helst.“?

Hvers er að vænta í þessum efnum? Hafa þingflokkarnir sett af stað starfsnefnd til að vinna að þessu máli eða er ætlunin að svíkja í þessu máli? Er ætlunin að hafa þetta bara sem yfirlýsingu sem aldrei verður unnið eftir? Við þessu verða að sjálfsögðu að fást skýr svör.

Ég vil þakka Húnvetningum það framtak þeirra að þeir skyldu safna liði og skrifa undir áskorun til forsrh. Ég bið menn jafnframt að hugleiða hvort það þyki ekki nokkur tíðindi að jafnmikil samstaða hafi orðið um þetta mál þar norður frá í ljósi þess m.a. að stundum hafa verið deilur harðar í Húnaþingum þegar stórmál hafa verið á dagskrá. En ef svo fer sem horfir að ekkert á að gera með yfirlýsingu stjórnmálaforingjanna, þar sem lofað er frumvörpum af þeirra hendi, þá er ég hræddur um að fleiri muni rísa upp en Húnvetningar til að gera athugasemdir við þá breytingu sem verið er að framkvæma í valdahlutföllum í landinu.