06.02.1984
Neðri deild: 43. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2594 í B-deild Alþingistíðinda. (2264)

Umræður utan dagskrár

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vestf. beindi sinni fsp. til hæstv. forsrh. og til vara til formanna þingflokka. Nú er það ekki á mínu færi að svara fyrir þeirra hönd, en vegna þess að hæstv. forsrh. vék að störfum stjórnarskrárnefndar finnst mér rétt að hér komi fram nokkrar aths. frá manni sem starfað hefur í stjórnarskrárnefnd fyrir hönd Alþfl.

Í fyrsta lagi er þess að geta að frv. það til nýrrar stjórnarskrár sem flutt var á seinasta þingi af hæstv. fyrrv. forsrh. var flutt af honum. Það kom hins vegar rækilega fram að tveir stjórnmálaflokkar, Alþfl. og Alþb., höfðu þegar í starfi stjórnarskrárnefndar mótað sérstakar tillögur í ýmsum málum, sem fylgdu þar sem fskj., þannig að það er rétt að fram komi að um þetta frv. var ekki allsherjarsamstaða þingflokka á þessum tíma.

Í öðru lagi er þess að geta að einstakir þm. áskildu sér rétt til að flytja sérstakar brtt. og gerðu það við afgreiðslu málsins á síðasta þingi. Til dæmis rifja ég upp að við tveir þm. Alþfl. fluttum tillögur um að málið yrði leyst án fjölgunar þm., auk þess sem við lögðum til að það misvægi í atkvæðisrétti landsmanna, sem þrátt fyrir allt fólst í frv. svipað og gilti árið 1959, yrði ekki bundið til langframa í stjórnarskrá, heldur þá sem samkomulagsatriði í kosningalögum.

Í þriðja lagi er þess að geta að frá því að þetta var hafa tveir nýir þingflokkar bæst í þingsali. Það er sérstakt álitamál að þessir nýju þingflokkar eiga ekki aðild að stjórnarskrárnefnd.

Af svörum hæstv. forsrh. mátti ráða að stjórnarskrárnefnd væri nú kappsamlega að störfum. Hann vék að því að frv. hæstv. fyrrv. forsrh. hefði verið sent þingflokkunum til umfjöllunar. Af þessu tilefni vil ég taka það fram að sú samþykkt var gerð á þeim fyrsta og eina fundi sem stjórnarskrárnefnd hefur setið og var haldinn skömmu eftir þingbyrjun, þegar endurskipulagning nefndarinnar fór fram, þ.e. þingflokkur sjálfstæðismanna tilnefndi annan mann í stað fyrrv. forsrh. Ég tek undir það með hv. þm. Gunnari G. Schram að þess er varla að vænta að þingflokkarnir sem slíkir, hinir fjórir sem lengi hafa átt aðild að stjórnarskrárnefnd, bæti við mörgum aths. að svo stöddu. En ef skilja á orð hæstv. forsrh. á þá leið að endurskoðun stjórnarskrárinnar sé kappsamlega í vinnslu stjórnarskrárnefndar, þá verð ég því miður að lýsa þeirri skoðun minni að ég held að það sé kannske á misskilningi byggt. Sumir virðast standa í þeirri trú að stjórnarskrárnefnd hafi lokið störfum að mestu með framlagningu frv. hæstv. fyrrv. forsrh., en svo er ekki ef rifjað er upp erindisbréf nefndarinnar. Hún átti ekki einasta að skila frv. að nýrri stjórnarskrá, heldur einnig endurskoðun á þingskapálögum um starfshætti Alþingis sem og skila tillögum um breytt form á svokölluðu persónukjöri. Þessum verkum er ólokið. Ef skilja mátti orð forsrh. á þá leið að hann teldi að stjórnarskrárnefnd ynni kappsamlega að þessu og það væri forsenda fyrir tillöguflutningi formanna stjórnmálaflokkanna, þá verð ég því miður að lýsa óánægju minni með að stjórnarskrárnefnd hefur ekki komið saman fyrir utan þennan eina fund sem haldinn var um það bil í upphafi þings, þegar kjörinn var formaður nefndarinnar. Ég vil þess vegna eindregið beina því til þeirra sem þarna ráða ferðinni, stjórnarflokkanna og auðvitað til formanns nefndarinnar, að ef einhver alvara fylgir hér máli er orðið tímabært að kveðja nefndina saman sem og fyrir þingheim að taka afstöðu til þess hvort gera eigi breytingu á skipan nefndarinnar þannig að nýir þingflokkar fái þar aðild.