06.02.1984
Neðri deild: 43. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2595 í B-deild Alþingistíðinda. (2265)

Umræður utan dagskrár

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins rifja upp að við afgreiðsluna á stjórnarskipunarlögunum á síðasta þingi fluttum við Ólafur Þórðarson brtt. sem hljóðaði þannig:

„Skattamálum skal skipað með lögum. Við ákvörðun skatta á tekjur og eignir skal gætt jafnræðis þegnanna, þannig að til lækkunar komi sérstakur kostnaður vegna búsetu, eftir því sem nánar verður ákveðið í lögum.“

Um till. voru greidd atkv. með nafnakalli og nokkrir þm. voru með fyrirvara fyrir sínu atkv. í samræmi við það sem hv. þm. Ólafur Þórðarson las upp úr grg. frv., þar sem formenn allra flokkanna sem flytja frv., og þetta er í grg. í frv., þ.e. þingflokkar Alþb., Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl., ætla að sjá um að samhliða þessum breytingum á stjórnarskipunarlögum verði gerðar þær ráðstafanir sem þar er getið. Spurningin er um hvort formenn flokkanna ætli að sjá um að við þetta verði staðið. Ég tek eftir því að í frv. sem nú liggur fyrir þinginu, sem hv. þm. Þorsteinn Pálsson er 1. flm. að og formenn hinna fjögurra flokka sem á síðasta þingi fluttu sams konar frv., er búið að taka þessa yfirlýsingu út úr grg. Á að skoða það þannig að menn hafi sett þetta inn á fyrra stiginu til að friða einhverja hér í þinginu?

Ég verð að segja það í sambandi við ræðu hv. þm. Gunnars Schram, 2. þm. Reykn.: Um hvers konar réttlæti eru menn að tala? Það er fleira mannréttindi en aðeins vægi atkv. (GGS: Ég neitaði því ekki.) Nei, en það mátti skilja á máli þm. að það gæti illa farið ef menn ætluðu að breyta einhverju í því víðtæka samkomulagi sem hann taldi að hefði verið gert. Meiri hluti þingflokkanna stóð að þessu samkomulagi, það er rétt, en það voru ýmsir fyrirvarar. Það þarf fyrst að standa við þau loforð, sem gefin voru, sem áttu að koma í staðinn fyrir þessa breytingu. Það er það sem við erum að krefjast hér og nú að komi yfirlýsingar um, hvort við það verður staðið og þá hvernig.

Ég er að vísu ánægður með hver er formaður nefndarinnar sem er að fjalla um þetta mál, þ.e. hæstv. samgrh., sem er fulltrúi þess byggðarlags sem verst er sett. Ég vil ekki trúa því að óreyndu að hann knýi ekki á um að við þetta verði staðið og að þessi mál komi ekki til afgreiðslu fyrr en menn sjá fyrir endann á því hvernig á að gera það. Ég verð að treysta því. En ef á að knýja hitt fram verður eitthvað talað hér í deildinni um þessi mál og hvernig að því verki hefur öllu verið staðið. Það er alveg klárt mál. Það er nefnilega fleira mannréttindi en vægi atkvæða. Að vissu leyti var ég ánægður með það sem kom fram í ræðu hv. 2. þm. Reykn., að hann hafi skilning á því máli, en mér fannst hann ekki leggja nógu mikla áherslu á að það yrði að ganga fyrir og við sæjum það og landsbyggðarmenn hvernig þessi mál yrðu leyst áður en breytingin á vægi atkv. kæmi hér til afgreiðslu.

Ég ætla ekki að fara að ræða málið efnislega. En eins og nú horfir með landsbyggðina og það misrétti sem viðgengst í þjóðfélaginu væri ástæða til að taka slíkt til umr. hér á Alþingi ekkert síður í sambandi við þessi mál því að það er mikið misrétti. Og það verður í landinu og það verður hér fylgst vel með því hvernig formenn stjórnmálaflokkanna ætla að standa við þá yfirlýsingu sem er í því frv. sem var sett fram á síðasta þingi og þáverandi formaður Sjálfstfl., hæstv. utanrrh. Geir Hallgrímsson, var 1. flm. að.