06.02.1984
Neðri deild: 43. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2597 í B-deild Alþingistíðinda. (2267)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umr., en ég tel ófært annað en mótmæla því, sem kom fram í spurningu hv. fyrirspyrjanda, að formenn flokkanna kynnu að hafa í huga að svíkja þá yfirlýsingu sem var í frv. því sem lagt var hér fram í fyrra, og einnig fólst slíkt í því sem hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði um það, að sú yfirlýsing er ekki í grg. nú. Mér er ekki kunnugt um að formenn flokkanna hafi nein svik í huga. Að sjálfsögðu er þessi yfirlýsing í þskj. og getur hver og einn flett henni upp. Grg. með stjórnárskrárbreytingunni nú er mjög stutt og vísar fyrst og fremst til þess sem kom fram í allítarlegum umr. um málið í þinginu í fyrra. Það er alveg út í hött að vera með slíkar yfirlýsingar. En ég vil hins vegar leggja áherslu á það, sem ég sagði áðan, að þetta tengist þeirri endurskoðun stjórnarskrárinnar sem er í gangi og þess vegna er beðið eftir henni.

Hér hefur verið rætt dálítið um vægi atkv. Ég vil láta koma fram að ég tel að eins og vægi atkvæða er nú orðið sé það óviðunandi fyrir íbúa þéttbýlisins. Ég er sömu skoðunar. Ef vægi atkvæða 1959 var nokkurn veginn rétt eins og þá var, segjum t.d. 1:1.8 eða 1.9 á milli Reykjaneskjördæmis og dreifbýlisins, gæti það varla verið óréttmætt nú að færa það til svipaðs hlutfalls. Ég verð því að taka undir það sem hv. þm. Gunnar Schram sagði hér áðan. Ég tel að leiðrétting á atkvæðavægi sé raunar mál út af fyrir sig. Hitt er svo réttlætismál að lagfæra hlut dreifbýlisins á fjölmörgum sviðum og því þarf vitanlega ætíð að halda áfram og ætíð að hafa í huga.

En ég stóð fyrst og fremst upp til að andmæla því að formenn flokkanna hefðu í huga að hverfa frá þeirri yfirlýsingu sem var gefin.